Fara í efni
Pistlar

Vísindin læra af reynslunni – þess vegna er þeim treystandi

Covid 19 heimsfaraldurinn hefur enn og aftur minnt harkalega á sig. Ný bylgja smita ríður nú yfir þrátt fyrir að meginþorri landsmanna hafi verið bólusettur gegn veirunni. Samkomutakmarkanir hafa verið teknar upp á ný og fjölmennum hátíðum hefur verið aflýst eða frestað. Fyrir marga er þetta reiðarslag eftir almenna bjartsýni fyrr í sumar, þegar takmörkunum var aflétt og vonast var til að lífið myndi nú loksins færast í fyrra horf.

Fram til þessa hafa samfélagslegar sóttvarnir notið stuðnings hér á landi. Við þessar nýjustu takmarkanir hefur þó borið meira en áður á óþoli og jafnvel reiði í garð stjórnvalda fyrir að „skemma fyrir“ viðburðahaldi og ferðaþjónustu. Minna hefur þó farið fyrir marktækum rökum gegn þessum nýju aðgerðum stjórnvalda.

Í samfélagsumræðunni hefur meðal annars gætt einkennilegs misskilnings á því hvað vísindi eru. Í nýlegum skoðanapistli voru íslensk sóttvarnaryfirvöld og heilbrigðisráðherra til dæmis gagnrýnd harðlega fyrir að hafa „skyndilega misst allan áhuga á vísindum“ með því að láta „eins og almenningur sé í bráðri hættu þrátt fyrir að bólusetningarmarkmiðum sé náð.“ Taldi höfundur pistilsins þetta „mjög alvarlegt vantraust á þá vísindalegu vegferð sem þjóðin hélt að hún væri á.“ Málið er að hans mati ekki flókið: Annað hvort virki bóluefnin og við getum hætt samfélagslegum aðgerðum eða þau virki ekki og við verðum að halda þeim áfram.

Ef ég skil þennan málflutning rétt má umorða hann svona: Vísindin sögðu að bóluefnin virki og þar af leiðandi væri hægt að aflétta öllum hömlum þegar búið yrði að bólusetja. Við hlýddum, létum bólusetja okkur og í kjölfarið var öllum hömlum aflétt. En þá skiptu vísindin allt í einu um skoðun og sögðu að setja þurfi nýjar hömlur. Þar með voru vísindin hætt að fara eftir sínum eigin ráðum. Hvers vegna ættum við, almenningur og stjórnvöld, þá að gera það?

Í þessum orðum felst alvarlegur misskilningur á því hvað vísindi eru og hvers vegna við höfum ástæðu til að fylgja ráðum sem byggjast á vísindalegri aðferð. Vísindin eru ekki samansafn af endanlegum og óbreytanlegum sannindum. Vísindamenn eru ekki postular sannleikans í krafti einhvers konar opinberunar. Vísindin eru ekki trúarbrögð, heldur eru þau aðferð við að mynda sér skoðun. Lykilatriði vísindalegra aðferða er að þær leitast við að gagnrýna og leiðrétta fyrri skoðanir í ljósi nýrra gagna, upplýsinga, ígrundunar og reynslu, sem aflað er með skipulegum hætti.

Þegar markmiðum bólusetningar var náð fyrr í sumar mátti með nokkrum rökum vonast til þess að heilsufarslegur skaði af völdum Covid 19 yrði innan ásættanlegra marka á Íslandi þrátt fyrir afléttingu samkomutakmarkana í byrjun júlí. Reynslan leiddi hins vegar í ljós að Delta afbrigði veirunnar tók að dreifa sér mjög hratt meðal bólusettra upp úr miðjum júlí. Þekking á afleiðingum svo mikillar útbreiðslu meðal bólusettra er lítil enn sem komið er. Því var skynsamlegt að leggja til nýjar hömlur. Vísindin taka sem betur fer mark á nýjum gögnum og nýrri reynslu, hvort sem hún er í samræmi við þær spár sem áður voru settar fram. Einmitt þess vegna er það okkar helsta von að stjórnvöld og almenningur haldi áfram að hlusta á þær skoðanir sem myndaðar eru á vísindalegan hátt.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Kvenfélagið Hlíf

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
19. mars 2024 | kl. 06:00

Lagning

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. mars 2024 | kl. 11:30

Í leikhúsi hugans

Jón Óðinn Waage skrifar
17. mars 2024 | kl. 11:50

Hvar fær maður svona engisprettu?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:00

Hin evrópska olía: Olea europaea L.

Sigurður Arnarson skrifar
13. mars 2024 | kl. 10:25

Siginn fiskur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. mars 2024 | kl. 11:30