Fara í efni
Pistlar

„Þú ert erfiður”

Hann var þriggja ára þegar foreldrar hans leituðu fyrst aðstoðar fyrir hann vegna þess að hann fékk reiðiköst sem voru langt umfram það sem eðlilegt var. Barnageðlæknir skoðaði hann og niðurstaðan var einhver greining og síðan ekkert, engin aðstoð eða meðferð, bara aftur á leikskólann. Við hvert reiðikast var honum refsað, það átti að kenna honum að taka afleiðingum gerða sinna. Við hverja refsingu varð hann enn erfiðari. Þá var það aftur heimsókn til geðlæknis, ný greining og lyf og svo aftur á leikskólann.

Lyfin hjálpuðu ekki, þvert á móti juku þau á vanlíðan hans. Það var nefnilega það sem var vandamálið, honum leið hræðilega illa. En gagnvart kerfinu var hann bara truflun, kerfið virkaði ekki fyrir einstaklinga eins og hann. Og þegar þú sýnir fram á getuleysi kerfisins þá snýst kerfið til varnar.

Hann fékk sem sagt enga hjálp, þess í staðinn fékk hann fullorðna manneskju sem fylgdi honum hvert fótmál og hafði það verkefni að sjá til þess að hann truflaði ekki skólastarfið. Að umgangast önnur börn var ekki vandamálið, það var umgjörðin sem skólinn skapaði sem hentaði honum ekki og varð til þess að honum leið illa. Og nú var hann kominn með varnarmann kerfisins sem fylgdi honum líka þegar hann var að leika við vini sína með þeim afleiðingum að vinirnir gáfust upp, hversu gaman er að hafa alltaf einn fullorðinn með? Afleiðingarnar voru þær að hann fór að hata fullorðna. Markmið hans varð að æsa alla fullorðna upp, fá þau til að missa stjórn á sér. Hann varð fljótt afar snjall í því.

Svona hélt þetta áfram, eftir leikskóla tók grunnskóli við, ný lyf, fleiri greiningar, nýir gæslumenn og endalausar refsingar en engin hjálp. Hann forhertist, kennurum stóð stuggur af honum. Þegar hann var tólf ára var búin til sér skólastofa fyrir hann í húsnæði út í bæ svo nú gat hann ekki umgengist vini sína á skólatíma. Þrír starfsmenn voru ráðnir til að sjá um hann. Vistin þarna gerði það að reiðin kom nú ekki í köstum, þess í stað var hann alltaf reiður. Eftir nokkra mánuði læsti hann starfsmennina úti og lagði svo skólastofuna hægt og rólega í rúst meðan að starfsmennirnir fylgdust með utan við skólastofuna og þorðu ekki inn.

Tólf ára gamall var hann tekinn frá foreldrum sínum. Það átti að læsa hann inni á meðferðarheimili í öðru bæjarfélagi. Hann strauk en lögreglan fann hann og hann var færður með valdi inn á meðferðarheimilið. Foreldrar hans voru niðurbrotnir og óskuðu þess að þau hefðu aldrei beðið um aðstoð því að hana höfðu þau svo sannarlega aldrei fengið. Dvölin þar varð ekki löng. Hann var meistari ögrunar, hann lék sér að því að æsa starfsmenn meðferðarheimilisins upp og eftir nokkrar vikur gáfust þeir upp og sendu hann aftur heim.

Nú voru foreldrarnir hans búnir að fá nóg. Hann var þrettán ára og jafnaldrar hans áttu að hefja skólagöngu á unglingastigi daginn eftir. Foreldrarnir kröfðust þess að það gerði hann líka. Kerfið gat ekki neitað, það er skólaskylda. Eina úrræði kerfisins var að ráða enn einn gæslumanninn. En það var ekki svo einfalt, þeir sem höfðu reynt sig við gæsluna skiptu orðið tugum og allir höfðu þeir gefist upp. Skólastjórinn hafði einn sólarhring til að ráða starfsmann í verkefni sem jafnvel sérþjálfað starfsfólk meðferðarheimilis hafði gefist upp á. Við skólann starfaði kennslukona frá Íslandi, hún hafði aðeins starfað þar í nokkra mánuði. Skólastjórinn mundi nú eftir að maður hennar væri í atvinnuleit, sá væri fyrrverandi lögreglumaður og júdóþjálfari og þess utan vel yfir hundrað kíló. Að vísu talaði hann litla sænsku en það yrði bara að hafa það. Íslenski hlunkurinn var ráðinn, það var ég.

Okkur var komið fyrir í litlu herbergi og ég fékk þau fyrirmæli að ég mætti aldrei líta af honum. Strax og hurðinni var lokað snér hann sér snöggt að mér og sagði ógnandi: „Ertu hræddur við mig?“. Þetta fannst mér dýrðlega krúttlegt, hann var helmingi minni en ég. Ég brosti því og sagðist vera skíthræddur. Þessu næst birtist kennari með kennslugögn. Hann tók við þeim og kastaði þeim svo öllum í mig. Kennarinn lagði strax á flótta, hljóp út og skellti hurðinni. Ég sprakk úr hlátri. Hann horfði á mig ráðvilltur.

Svona gengu næstu tvær vikur. Hann kastaði í mig bókum, ég brosti þá bara. Þá kveikti hann í bókunum en þá fór ég að skoða Facebook, hann slökkti þá sjálfur í bókunum. Svona stigmagnaðist þetta. Eftir tvær vikur læsti hann mig úti. Hann stóð innan við hurðina og horfði sigri hrósandi gegnum glerið í hurðinni. Ég setti lykilinn í skrána og opnaði hurðina. Hann reyndi að halda á móti en ég var tvöfalt þyngri svo leikurinn var ójafn. Ég setti skrokkinn milli stafs og hurðar. Hann skellti þá hurðinni á mig aftur og aftur en ég brosti bara. Þá barði hann mig en þá brosti ég bara enn meira enda á mínum langa júdóferli upplifað mun meiri píningu. Þá settist hann niður og varð pollrólegur, glotti síðan og sagði: „Þú ert erfiður”.

Eftir þetta kom okkur vel saman. Hann sagði mér frá því að hann næði alltaf að æsa fullorðna upp. Hann sagðist byrja rólega en bæta svo smá saman við, þetta væri eins og að spila leik, hann legði þrautir fyrir okkur fullorðna sem alltaf yrðu erfiðari og erfiðari. Lokaþrautin væri ofbeldi en hann hefði ekki svo oft þurft að ganga svo langt, oftast væri þetta fullorðna lið löngu orðið kolvitlaust áður en til þess kæmi. Ég væri sá fyrsti sem að honum hafi mistekist með, svo glotti hann og sagðist ekkert vera búinn að gefast upp.

Við áttum saman þrjú ár, þá fór hann í framhaldsskóla. Þessi þrjú ár voru fín, hann hataði eftir sem áður skólann og fullorðna en við vorum góðir. Við spjölluðum oft utan skóla, þá var hann allt annar, mjög skarpur strákur sem gaman var að spjalla við.

Það sem að hann vissi ekki þegar við hittumst fyrst var að hann var aðgöngumiði minn inn í sænskt atvinnulíf svo að ég var tilbúinn í hvað sem var, framtíð mín var undir. Maður hoppar ekkert rúmlega fimmtugur inn í vinnu í nýju landi nánast ótalandi á tungumáli innfæddra. Ég vissi að ef að mér myndi takast að vinna traust hans og hjálpa honum að líða betur þá væri framtíðaratvinna mín tryggð. Það gekk eftir.

Við erum perluvinir í dag. Hann bjargaði tilveru minni hér í Svíþjóð, hann veit það og er stoltur af því, það gleður mig innilega.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Árangur

Haukur Pálmason skrifar
04. desember 2023 | kl. 17:45

Skúffubrík

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. desember 2023 | kl. 11:30

Svitnaði í sturtu

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. desember 2023 | kl. 10:00

Kasjúhnetutré og hin lygilega líffræði þeirra

Sigurður Arnarson skrifar
29. nóvember 2023 | kl. 16:55

Vinur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
27. nóvember 2023 | kl. 11:30

Skimun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
25. nóvember 2023 | kl. 14:00