Fara í efni
Pistlar

Teika

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 17

Fólksvagnarnir voru bestir. Blessuðu þýsku bjöllurnar. En stuðararnir á þeim voru beinlínis hannaðir fyrir handtök okkar krakkanna. Því það þurfti ekki einu sinni að mæna á silfurgljáða högghlífina á afturenda karsins til þess að ná þar góðu gripi. Hún var það víð að tangarhaldið var sjálfgefið.

Svo það var bara að kasta sér á bílsrassinn. Og hanga þar sem lengst. En þar var gagntekningin komin. Að dandalast aftan í einhverri allsendis ókunnugri bifreið og fá með henni ókeypis far um allar brautir bæjarins. Og þvílíkt frelsi sem því fylgdi. Maður var bara eins og fuglinn fljúgandi, fór upp og niður Brekkuna, eða út í Þorp og aftur til baka, ef ekki Innbæinn á enda. Með því einu að teika.

Vandinn var kannski helstur sá að ullarglófarnir áttu það til að frjósa fastir á kofanginu, ef vetur tóku að harðna – og það gerðu þeir margir í okkar æsku – svo samviskuspurningin gat verið ansi áleitin; átti bara að fórna vettlingunum sem mamma hafði prjónað, og það jafnvel enn einum, því það var tollur þess að teika að tapa stundum heimagerðum tóskapnum.

En stundum hélt maður út á hálan klaka lyginnar til að útskýra fyrir múttu að enn einn vettlingurinn væri fyrir bí. Og hefði bara horfið si sona.

Þó fór áfergjan bara vaxandi. Með hverjum vetrinum sem kom og kól allar jarðir, en eftir stóðu svellalögin á hverri götu. Svo það varð bara að teika.

Og fyrir lengra komna voru strætisvagnarnir næsta áskorun. Það var hangið aftan í þeim fram á táningsár, enda þótt stækur og næsta þéttur dísilfnykurinn í afturenda þeirra ætlaði mann vakandi að svæfa.

En hvað hafði maður svo sem annað að gera, svona hvunndags á útmánuðum, annað en að dyndlast aftan í annarra manna bíl. Og skrapa sólann af skónum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SIGINN FISKUR

Hvernig væri ásýnd Akureyrar án stóru trjánna?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
14. júlí 2025 | kl. 16:30

Ólæst

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. júlí 2025 | kl. 11:30

Útí dokk

Jóhann Árelíuz skrifar
13. júlí 2025 | kl. 06:00

Pabbi minn, hvers vegna keyptirðu leigubíl?

Orri Páll Ormarsson skrifar
11. júlí 2025 | kl. 13:00

Stari

Sigurður Arnarson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Smíðahúsið á Skipalóni

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 06:00