Fara í efni
Pistlar

Sorgin er guðmóðir gleðinnar

Séra Hildur Eir Bolladóttir flutti eftirfarandi prédikun um sorgina, í Akureyrarkirkju á allraheilagramessu sem er í dag.
_ _ _

Í dag höldum við allraheilagramessu hátíðlega en síðustu þrjúhundruð ár eða svo hefur þessi dagur verið helgaður öllum látnum sálum í kristinni kirkju þótt hann eigi sér mun lengri sögu úr kaþólskri trú af því að vera dagur látinna píslarvotta og þar af leiðandi dagur allra þeirra dýrlinga sem ekki eiga sér sérstakan dag í kirkjuárinu. Fyrsti sunnudagur í nóvember mánuði er því sérstaklega helgaður minningu látinna í evangelískri lútherskri kirkju og er það mjög fallegt, merkingarbært og mikilvægt. Um leið og við hugsum til látinna ástvina og samferðarfólks er eðlilegt að sorgin láti á sér bæra, hún er jú gjaldið sem við greiðum fyrir að eiga ástvini og náin tengsl við dauðlegar verur. Sú manneskja sem kysi að vera alfarið laus undan sársauka sorgarinnar þyrfti jafnframt að velja að eiga alls engin tengsl við menn og dýr á ævigöngu sinni. Það sem meira er, hún þyrfti líka að velja að eiga engin tengsl við sjálfa sig því rétt eins og við syrgjum horfna ástvini getum við líka syrgt okkur sjálf, til að mynda þegar sjúkdómar herja á og breyta okkur, breyta framtíðarplönum okkar og væntingum. Að þessu sögðu má sjá að það er eiginlega óhugsandi að fara í gegnum heila eða hálfa mannsævi án þess að leggjast undir rökkurhiminn sorgarinnar.

Það er gott og mikilvægt að velta reglulega fyrir sér eðli sorgarinnar, ég tek eftir því að í þau fáu skipti sem sorgin er sérstaklega til umfjöllunar í fjölmiðlum, þar á meðal samfélagsmiðlum er lesning mikil. Við hreinlega þráum það að áföll okkar og sorg sé ávörpuð, í rauninni er það hið eina sem getur huggað og hjálpað. Þegar ástvinur kveður þekkjum við á vissan hátt göngulag sorgarinnar, vitum að regnbogi tilfinninga og hugsana er eðlilegur. Doðinn sem taugakerfið framkallar þegar vitneskjan um brotthvarf ástvinar er staðreynd, óraunveruleikakenndin þegar allt í samfélaginu gengur sinn vanagang en lífi þess sem misst hefur ástvin er algjörlega snúið á hvolf, heimsmyndin gerbreytt og samt heldur strætó áfram að ganga eins og ekkert sé og samferðarfólk að rífast um áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Reiðin yfir því að hafa ekkert um atburðarásina að segja eða jafnvel reiðin út í hinn látna fyrir að hafa dáið eða reiði út í Guð fyrir að hafa ekki afstýrt slíkri þjáningu. Allskonar tilfinningar fara á flug, sektarkennd, skömm, depurð, einmanaleiki, léttir, samviskubit, söknuður og söknuður og söknuður og loks hugsanleg aðlögun eða sátt gagnvart breyttum aðstæðum.

Sorgin á sér svo ótal birtingarmyndir að ekkert okkar mun nokkru sinni þekkja hana til hlítar. Það sem skiptir kannski mestu máli er að vita að hún er tjáning elsku, tjáning þakklætis og auðvitað eftirsjár eftir tíma sem ekki kemur aftur.

Sorgin er spegill elskunnar. Sorgin er árfarvegur lífsins, vatnsins sem flæðir um og yfir bakka í straumþunga daganna. Sorgin er staðfesting þess að tengsl eru minningar og minningar eru tengsl. Sorgin er guðmóðir gleðinnar, þar sem er gleði stendur sorgin álengdar og minnir á mikilvægi stundarinnar. Sorgin er tímavörður, allt hefur sinn tíma segir Prédikarinn, allt hefur sinn tíma segir sorgin, svo farðu fallega með tímann.

Sorgin er móðir samkenndarinnar, kveikir samstöðu meðal mannanna og færir okkur nær hvert öðru, já það er fegurðin í sársauka hennar.

Sorgin er ekki sjúkdómur, ekki klínískt vandamál sem þarf að meðhöndla, sorgin krefst ekki meðhöndlunar eins og sykursýki, hún krefst kærleiksríkrar samfylgdar. Sá sem lítur á sorgina sem vandamál, röskun, sjúkdóm, þyrfti þá jafnframt að færa rök fyrir því að ástin væri sjúklegt ástand sem þyrfti að lækna. Nútíminn hefur tilhneigingu til að setja allan sársauka og vanlíðan undir einn hatt, hatt greininga og meðhöndlunar. Þess vegna fagna allir sálgæsluaðilar nýju frumvarpi um sorgarorlof foreldra sem missa barn, það er ekki bara nauðsynlegt skref í átt að mannvænlegra samfélagi heldur undirstrikar líka það sem sálgæsluaðilar eru alltaf að minna á að sorgin þarf tíma og fólk þarf rými til að syrgja án þess að bera kvíðboga fyrir praktískum hlutum. Það er þekkt að nýbakaðir foreldrar þurfa fæðingarorlof til að kynnast nýju afkvæmi og hlúa að því allan sólarhringinn á meðan það er nýfætt, viðkvæmt og fullkomlega varnarlaust. Þannig er líka ný sorg, nýfædd sorg er gríðarlega viðkvæm og gerir manneskjuna fullkomlega varnarlausa svo hún þarf sitt hreiður eða sína vöggu til að hægt sé að hlúa að henni og til að efla mótstöðuna gagnvart hversdagslífi eftir missi.

Víða í kirkjum landsins starfa sorgarhópar sem sinna þeirri mikilvægu vinnu að rjúfa einangrun og einsemd þess sem syrgir. Hér við Akureyrarkirkju hefur til dæmis verið starfandi í níu ár sorgarhópur foreldra sem misst hafa barn og heldur undirrituð utan um hann. Í þessum hópi er enginn að segja öðrum hvað hann eigi að gera, enginn að þykjast hafa bestu bjargráðin í sorginni, ekki einu sinni presturinn. Við sitjum bara saman og tökum tilfinningar til skoðunar, veltum þeim fyrir okkur eins og áberandi steini sem fangar augu okkar í flæðarmálinu og þar sem við handleikum hann öll kemur í ljós að fleiri úr hópnum hafa komið auga á hann svo allt í einu er reynslan ekki einangruð heldur samfélagsleg svo úr verður dýrmæt samfylgd og einmanaleikinn minnkar.

Víða eru svona hópar starfandi og um þá haldið af reynslumiklu fólki innan kirkjunnar því kirkjan býr yfir svo mikilli reynslu af því að mæta fólki í sorg. Margt fagfólk í klínískum geðröskunum, geðlæknar og sálfræðingar hafa haft orð á því í gegnum tíðina að þau sé ekkert endilega besta fólkið til að sinna sorgarúrvinnslu ekki fyrr hún fer út á þær brautir að breytast í sjúklegan kvíða eða þunglyndi sem þarfnast meðhöndlunar. Að sama skapi þarf presturinn að vita hvenær hann þarf að beina fólki til fyrrnefndra fagaðila því prestar eru ekki menntaðir til að beita hugrænni atferlismeðferð eða geðlyfjagjöf.

Það er dýrmætt fyrir fólk að vita að það er víða stuðning að fá í sorg, af því að stuðningur er kjarnaatriði á þeirri vegferð. Það er líka mikilvægt að vita að stuðningurinn er ekki langt undan og það þarf ekki að sækja allt til heilbrigðiskerfisins því heilbrigðiskerfið sér um að lækna hinn veika en sorgin er ekki sjúkdómur. Það er líka mikilvægt að það komi fram að sálgæsla kirkjunnar er ekki liður í biblíufræðslu hennar, það kemur enginn heilvita prestur með Biblíuna með sér í sorgarhús nema aðstandendur hafi beðið sérstaklega um það. Prestur sem kemur í sorgarhús hvílir vissulega sjálfur í trú sinni inni í erfiðum aðstæðum og sækir sinn styrk til Jesú í því að þora að vera og heyra án þess að hörfa eða dæma. Presturinn gengur inn í sorgarhús að fyrirmynd Jesú frá Nasaret sem gekk inn í heiminn til að segja að það væri í lagi að vera ekki í lagi og það væri hreinlega fallegt að vera vanmáttug og ófullkomin manneskja ef maður bara viðurkenndi það fyrir sjálfum sér og öðrum og leitaðist við að lifa fallega og elska náungann eins og sjálfan sig.

Þjóðkirkjan er boðin og búin að sinna öllu samfélaginu í sorg, þar er ekki spurt um trúfélagsaðild og syrgjandinn ekki krafinn um trúarafstöðu sína eða lífsgildi.

Á allraheilagramessu þar sem við minnumst látinna ástvina og samferðafólks er mikilvægt að minna á samfylgdina og þjónustuna sem kirkjan veitir. Ekkert okkar fer í gegnum heila eða hálfa mannsævi án þess að sorgin knýi dyra. Sorgin sem er krefjandi og sár en um leið spegill elskunnar, guðmóðir gleðinnar og árfarvegur lífsins.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30