Fara í efni
Pistlar

Skáldið Jónas Þorbjarnarson (1960-2012)

Ég sá Jónas bara einu sinni; þá var hann að lesa ljóð á Sólon Islandus. Þetta gæti hafa verið haustið 1999 og líklega var hann að lesa úr ljóðabókinni „Vasadiskó“. Ég efast um að ég hafi vitað að hann var frá Akureyri – ekki að það skipti miklu máli – hann var líka tólf árum eldri en ég, og þar að auki úr Þorpinu (það vissi ég ekki fyrr en löngu síðar) svo litlar líkur voru á því að leiðir okkur lægju saman.

Hafi ég vitað á sínum tíma að hann væri frá Akureyri þá var þetta í fyrsta sinn sem ég barði ungt, akureyskt samtímaskáld augum. Jón Laxdal hafði reyndar kennt mér í afleysingum í Lundarskóla og tekist að opna augu mín fyrir orðagaldri en Jón var af annarri kynslóð, bara kall. Hann hefur verið rétt rúmlega þrítugur þegar leiðir okkar lágu saman.

Íslensk ljóð voru aðallega skólaljóð og eitthvað þekkti ég af vísum. Davíð var þarna einhvers staðar og Matthías en ljóðin sem ég tengdi við voru sungin á ensku af mönnum á borð við Morrissey, Nick Cave og David Sylvian.

Jónas Þorbjarnarson lést langt fyrir aldur fram árið 2012. Þá rifjaðist vasadiskóið upp fyrir mér og ég reyndi að útvega mér aðrar bækur skáldsins. Og mér varð ljóst að þarna var komið skáldið sem mig vantaði þegar ég var unglingur. Skáld sem orti um krakka að leik við Glerá, ljóð sem gerðust í Hlíðarfjalli, Dagverðareyri og Hjalteyri. Ljóð sem fjölluðu um mína daga sem urðu dálítið merkilegri fyrir vikið.

Jónas var merkilega samansettur. Hann lærði gítarleik, sjúkraþjálfun og lagði stund á heimspeki og starfaði sem blaðamaður, landvörður og þjónn. En hann var umfram allt ljóðskáld og lagði allan sinn metnað í ljóðin. Ljóðabækurnar urðu níu og vöktu töluverða athygli. Og ljóð hans voru þýdd á fjölmörg tungumál, nokkuð sem er býsna sjaldgæft.

Arnar Már Arngrímsson er rithöfundur.

  • Arnar Már og Þórður Sævar Jónsson munu lesa ljóð eftir Jónas Þorbjarnarson í Svörtum bókum kl. 20 í kvöld, fimmtudaginn 16. október.

Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré

Sigurður Arnarson skrifar
15. október 2025 | kl. 10:00

Hús dagsins: Háls í Eyjafirði

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2025 | kl. 06:00

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00

Við nennum ekki þessu uppeldi

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
11. október 2025 | kl. 06:00

Geðheilbrigðisdagurinn 2025

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2025 | kl. 06:00

Hin einmana eik eyðimerkurinnar

Sigurður Arnarson skrifar
08. október 2025 | kl. 15:00