Fara í efni
Pistlar

Róló og leikirnir í Innbænum

Saga úr Innbænum - V

Neðst í Lækjargilinu var stór leikvöllur sem gjarnan var kallaður Róló. Það var alltaf gaman að koma þar, hitta félagana og þar var nóg við að vera. Á miðjum leikvellinum var hár gulur staur og efst á honum var kollur sem snérist. Við hann voru festir kaðlar með handföngum til að grípa í og sveifla sér.

Þar voru tveir stórir sandkassar sem reglulega voru fylltir af sandi. Annar þeirra var steinsteyptur og í rigningum þegar hann fylltist af vatni voru gerðar stíflur og brýr og þá komum við ekki alltaf þurr heim í lok dags. Ef veður var leiðinlegt var gott að fá að vera inni í notalegum timburkofanum hjá gæslukonunum og þar var margt að skoða. Þar voru borð og bekkir úr timbri, góð viðarlyktin var sértaklega minnistæð. Þar var hægt að púsla, byggja úr kubbum og borða nestið sitt.

Rólurnar voru alltaf vinsælar. Fyrst voru þetta gamaldags rólur með setu og þá var aðalmálið að róla sér sem hæst eða stökkva sem lengst úr þeim. Seinna komu dekkjarólur og þá var best að liggja í rólunni og láta fara vel um sig í mjúkri sveiflu. Þarna var líka hringekja sem vinsælt var að snúa full hratt eða þar til einhver varð ringlaður, datt af eða jafnvel kastaði upp. Og margir höfðu gaman að klifurgrindinni sem stóð upp úr jörðinni eins og hálfgrafinn stór hringlaga stigi.

Leikvöllurinn neðst í Lækjargilinu sem Ólafur skrifar um í greininni. Myndin er tekin 1955. Ljósmynd: Kristján Hallgrímsson/Minjasafnið á Akureyri.

Á bak við skúrinn var spennistöðin. Þetta var steinbygging, aðeins hærri en skúrinn og það var gaman að klifra upp á þakið og hoppa þaðan niður á skúrþakið. Efst á spennistöðinni var lítill svartur kassi með kringlóttu glerauga. Ef maður hélt hendinni fyrir þennan skynjara, þá kviknaði á öllum ljósastaurum í hverfinu sem gaf dálítið kikk en það var eiginlega enn skemmtilegra að lýsa á augað með vasajósi á kvöldin því þá voru áhrifin meiri þegar götuljósin slokknuðu og allt varð myrkt um stund. Já og ljósastauranir voru úr tré og þegar skipta þurfti um peru eða gera við, komu viðgerðarmenn rafveitunnar, festu á sig járnskó með löngum krókum fram úr og klifruðu upp í staurana. Þeir brugðu breiðu belti utan um staurinn og aftur fyrir bak sitt til að skorða sig betur þegar þeir unnu að viðgerðum, þarna hátt yfir götunni, efst í staurnum. Þetta fannst okkur miklir og hugrakkir menn.

Þegar voraði hópuðust krakkarnir í Innbænum út á kvöldin í leiki og þá varð að stækka leiksvæðið ef farið var í eltingarleiki eða feluleiki í stórum hópum og þá var farið alveg upp að kastalanum eða að Láró. Kastalinn var hvít kassalaga steinbygging fremst á hæðinni yfir leikvellinum. Efst á húsinu var brjóstvörn eins og á kastala. Ég held að Steingrímur læknir Matthíasson hafi látið byggja þessa byggingu sem hesthús löngu fyrir okkar tíma en þetta var á þessum árum íverustaður Steina. Ég man efir að hafa komið inn til hans einu sinni og sá þá marga rauðmunstraða tóbaksklúta á ofninum hjá honum. Láró var hitt húsið þarna uppi á hæðarbrúninni og var áður hús Lárusar Rist en var síðar notað sem þvottahús sjúkrahússins. Það var í niðurníðslu þegar þarna var komið og rifið nokkru síðar. Okkur fannst mjög skuggalegt að kíkja þar inn um kjallaragluggana og sjá blóðug lök sem lágu í hrúgu á gólfinu. Margir krakkanna töldu sig hafa séð þarna drauga.

Leikirnir voru fjölmargir og gaman er og jafnvel fróðlegt að rifja nokkra þeirra upp. Auðvitað var farið í fótbolta og brennó eða spilað badminton og fleiri leikir sem allir þekkja, að minnsta kosti þeir sem komnir eru á miðjan aldur eða meira. En svo voru aðrir leikir sem voru sjálfsagt sumir að danskri fyrirmynd og aðlagaðir og breyttir af síðari kynslóðum. Viss kynjaskipting var í þessum leikjum og sumir bara fyrir stelpur en aðrir eingöngu leiknir af strákum þó einnig væru leikir sem allir tóku þátt í og þar var brúað bæði aldursbil og kynjamunur.

París

Leikvöllurinn var strikaður í göturykið með priki eða með krít á steinstétt. Teiknaðir voru reitir, hæfilega stórir til að hoppa eitt skref í hvern og svo yfir í næsta á öðrum fæti. Á miðri leið vori gjarnan tveir samhliða reitir þar sem staldrað var við og staðið á báðum fótum samtímis. Svo var haldið áfram upp „hálsinn“ því þetta leit svolítið út eins og stór manneskja með útrétta arma. Og efst var „höfuðið“, teiknað með stórum hring og þar var snúið við og hoppað til baka. Reitirnir voru tölusettir og áður en hoppað var átti að kasta steinvölu, fyrst á reit eitt síðan tvö og þá lengra og lengra og gerðist þá vandasamara að hitta á réttan reit. Á milli kastana var þá hoppað og þurfti þá að staldra við, ýmist standandi á öðrum fæti eða báðum, beygja sig og taka upp steinvöluna án þess að missa jafnvægið og hoppa síðan áfram, fram og til baka. Sá sem ekki hitti reitina í réttri röð eða fipaðist og datt í hoppinu var úr leik.

Fallin spýta

Sá sem „var hann“ eða fékk að gæta spýtunnar fyrstur stillti priki við húsvegg, stóð við það og grúfði andlitið að veggnum og taldi hátt upp á hundrað. Hinir þátttakendur földu sig á meðan. Sá sem var hann snéri sér svo við og reyndi að skima eftir þeim. Ef hann sá einhvern hrópaði hann nafn þess og bætti við „fundinn“. Þá þurfti sá hinn sami að gefa sig fram og var úr leik. Næst þurfti sá sem gætti spýtunnar að fara frá henni til að leita betur. Þá reyndu hinir að komast að spýtunni á undan honum. Ef gæslumaðurinn var á undan hrópaði hann aftur þessi er úr leik. En ef annar varð fyrri til og náði að fella spýtuna þá hrópaði sá „fallin spýta“ og hafði þá sigrað í leiknum.

Teygjutvist

Þá stóðu tvær stelpur andstætt hvor annarri og höfðu nokkra metra á milli sín og strengdu teygju um ökklana og á milli sín. Þriðja stelpan stillti sér upp á milli þeirra og hoppaði í sífellu og krækti tám og hælum í teygjuna, teygði hana og krossaði í taktföstum leiknum. Stundum hoppuðu tveir stelpur í einu. Svo var teygjan hækkuð reglulega fyrst upp á kálfa, næst læri og mjaðmir og að lokum upp í mitti og þá var hoppið orðið mjög erfitt,

Snú snú

Þá voru höfð löng sippubönd eða nettir kaðlar á milli tveggja stelpna og strákarnir tóku oft þátt líka. Bandinu var sveiflað í stórum sveigum yfir höfuð þess sem stóð í miðjunni og gætti þess svo að hoppa þegar bandið sveiflaðist undir hann eða hana. Þannig var þetta látið ganga taktfast, upp og niður þangað til fór að bera á þreytu eða bandið flæktist um höfuð eða tær. Þá var skipt um stöðu og sá næsti tók við. Stundum hljóp heill hópur í halarófu með einu hoppi hver í gegnum sveiflu bandins, óstöðvandi halarófa af krökkum sem hlupu svo bak við þann sem snéri reipinu og aftur til baka.

Yfir-grip

Skipt var í tvö lið sem stilltu sér upp sitt hvoru megin við einhvern skúrinn. Boltanum var hent yfir um leið og hrópað var „yfir“. Ef boltinn lenti á jörðinni hinum megin var honum hent til baka með sama hætti. En ef einhver úr liðinu hinu megin hússins náði að grípa boltann mátti hann hlaupa fyrir hornið, í kring um húsið og flúði þá lið andstæðinganna og reyndi að ná í örugga höfn með því að fara heilan hring um húsið. Sá sem hélt á boltann skaut að andstæðingunum á hlaupunum og þeir sem hann hitti með boltanum voru þá orðnir nýjir liðsmenn í liðinu hans. Leiknum lauk svo þegar annað liðið hafði þannig sölsað undir sig alla leikmenn hins liðsins.

Landaparís

Hver þátttakandi tekur lítið prik og helgar sér land með því að draga línu í jarðveginn. Yfirleitt var landið nokkurn veginn hringlaga. Síðan var bætt við lítilli eyju við hvert land. Svo stillti hver sér upp í sínu landi og þá gat leikurinn hafist. Gerð var árás á land nágrannans með því að kasta prikinu á landsvæði hans. Ef maður hitti á landið mátti standa á lendingarstað priksins og draga með prikinu nýja línu eins langt og maður gat seilst og þannig myndað ný landamæri um það landsvæði sem unnist hafði. Svo var skipst á og næstu þátttakandi tók við og svo koll af kolli þar til einn hafði unnið öll landsvæðin af hinum. Oft var gott að eiga eyjuna til góða þegar fokið var í flest skjól því þótt hún væri það lítil að þar væri bara hægt að standa á öðrum fæti, þá gat verið erfitt fyrir andstæðingana að hitta á hana. Einnig var þessi leikur leikinn með hníf í stað priks og þá þurfti hnífurinn að standa í jörðinni til að kastið væri tekið gilt.

Stikk

Hver þátttakandi mætti til leiks með nokkra smápeninga eða jafnvel útlenda mynt í lófanum. Strikuð var lína í götuna og handan vð hana tóku þátttakendur sér stöðu andspænis vegg eða þrepi og skiptust á að kasta peningunum í átt að veggnum. Sá sem átti þann pening sem næst lenti veggnum mátti taka alla peningan í lúkuna, hrista og láta falla í götuna. Hann mátti þá eiga þá mynt sem snéri kórónunni upp. Sá sem hafði kastað næstnæst veggnum tók þá við, kastaði upp þeim peningum sem eftir voru og fékk í sinn hlut þá sem snéru rétt og þannig koll af kolli þar til allir höfðu fengið að kasta upp eða þá að peningarnir kláruðust. Ef hins vegar einhverjir peningar voru eftir þá var einfaldlega farin önnur umferð. Í eðli sínu er þetta líklega fjárhættuspil en við litum þetta ekki þeim augum, heldur snérist þetta um nákvæmni og leiknina að kasta. Þannig voru þetta engar upphæðir sem við lékum okkur með en til þess að auka spennu leiksins átti hver og einn sinn uppáhaldspening til lukku. Oft var hann erlendur og stór og þungur. Það gat verið sárt að tapa slíku góssi.

Þegar velja átti einhvern úr hópnum til hlutverka í leikjum voru oftast notaður úrtöluþulur eins og:

Ole dole doff,
Kinke lane koff,
Koffe lane, binke bane,
Ole dole doff!

Eða talið úr með romsunni:

Uggla sat á kvísti,
Átti barn og missti.
Eitt tvö þrjú,
og það varst þú,

Þessi leikir voru skemmtilegir og styrktu örugglega félagslega getu okkar barnanna og unglinganna. Þarna fengum við tækifæri til að læra að vinna saman og gátum líka þurft að standa upp í hárinu á einhverjum eða verja okkar hlut. Satt best að segja veit ég ekki hvort börn nútímans þekkja þessa leiki eða leika þá enn. Á sama hátt er heimur nútíma tölvuleikja mér og minni kynslóð að mestu hulinn. En ég sé þó að þróunin þar er sú að leika leikina ekki alltaf einsamall heldur fremur í samfélagi með öðrum.

Ólafur Þór Ævarsson er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. Hann er geðlæknir og starfar einnig að forvörnum og fræðslu hjá Streituskólanum.

Neðsti hluti Lækjargilsins. Leikvöllurinn sem Ólafur skrifar um er fyrir miðri mynd. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri.

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00