Fara í efni
Pistlar

Nei eða já? Þá veistu svarið

„Magnaðir mánudagar“

5. pistill

Pistill númer fimm og þessi vegferð mín sem pistahöfundur hjá einum virtasta netmiðli Norðurlands orðin skuggalega raunveruleg. Það var spenna og tilhlökkun þegar ég settist niður með tölvuna að semja þann fyrsta og þann númer tvö, svo kom smá frammistöðukvíði og það örlaði á smá loddara líðan (imposter syndrome) þegar næstu tveir pistlar voru hamraðir saman. Hvað er ég að spá og hvernig datt mér í hug að fara út í þetta? Verandi líka á sama tíma óumræðanlega þakklát fyrir þá ákvörðun að hætta við að hafa pistana í hverri viku, því það eru jú magnaðir mánudagar í hverri viku. Þó að kappið hlaupi stundum með mig í ógöngur þá náði raunveruleika röddinn að sannfæra mig um það að 52 pistlar á ári væru mögulega of mikið af því góða, að minnsta kosti svona fyrir byrjanda, má kannski endurskoða planið árið 2023 (hlátur).

Af hverju er ég að þessu?

Ég sem sífellt predika það að læra af því sem á fjörur okkar rekur og spyrja okkur endalaust einhverra spurninga, ákvað að staldra aðeins við. Það er margt og mikið í gangi í lífinu, ég meðvitað að reyna að einfalda og fækka boltunum og þá eðlilega spyr ég mig, af hverju er ég að þessu? Það gerðist sem sagt núna þennan sunnudags eftirmiðdag þegar svo er komið að ég get ekki frestað því lengur að fara að ákveða umfjöllunarefni og skrifa til ykkar. Þessir mismörgu klukkutímar með tölvuna í fanginu í sófanum á sunnudagseftirmiðdögum hafa bara verið kósý, alla vega samkvæmt réttlætingarröddinni, en dómhörkuröddinni finnst þetta nú ekkert sérlega skynsamlegt, alvöru pistlahöfundar hljóta nú að ákveða umfjöllunarefnin fyrirfram langt fram í tímann og eiga alltaf pistla á lager, hvað ef þú veikist á sunnudegi eða verður boðið í geggaða ferð og kemst ekki því þú varst ekki búin að skrifa pistlinn þinn.

Nei eða já

Já, blessaða frestunin sem ég skrifa klárlega um fljótlega, og já svona samtöl eru ansi algeng í höfðum okkar margra, eða ég tel mér alla vega trú um að það sé ekki bara ég. En bara svo það sé sagt þá var niðurstaðan mín einróma sú að halda ótrauð áfram í þessu pistla ævintýri, með góðum rökstuðningi eftir öflugt spurningaflóð. Ég vitna oft í og syng bút úr Evrovision laginu „Nei eða já“ á námskeiðum og fyrirlestrum sem ég held þegar ég fjalla um það hvað við veljum að taka okkur fyrir hendur og hvað ekki. Sem á við hvort sem ég er að fjalla um markmiðsetningu, stjórnun, sjálfstraust, tíma- eða orkusjórnun.

Þá veistu svarið

Sem leiðir okkur þá að öðru lagi úr Eurovision, sem ég reyndar syng mun sjaldnar á námskeiðum, „Þá veistu svarið“. En hvernig vitum við svarið? Hvernig vitum við hvort við segjum já á réttu stöðunum og nei á þeim réttu? Mitt svar er að við við vitum það, við finnum það. Þegar við náum að stilla allt annað í umhverfinu á „mute“ og hlusta á það sem við sannarlega viljum þá þurfum við ekki að efast, en já, ég veit, áskorun okkar margra en að ná að finna þarna „mute“ stillinguna á öllu hinu sem dynur á okkur. Ég fæ reglulega að heyra það frá viðskiptavinum mínum að sú spurning frá mér sem hreyfir oftast við þeim ekki fyrr en einhverjum dögum eða vikum eftir að þeir hittu mig er „af hverju velur þú að gera þetta“ eða „hvað af þessu vilt þú sannarlega gera?“

Megum við sem oftast ná að heyra í okkur sjálfum, gefa okkur tíma til að hlusta og bíða eftir rétta svarinu. Sníða þannig okkar rétta stakk eftir okkar vexti á þeim tímapunkti, já því að eins og með fatastærðinar (hjá mér alla vega) þá breytist líka alls konar í lífinu og þá megum við breyta einhverju jái yfir í nei eða öfugt.

Sigríður Ólafsdóttir er mannauðsráðgjafi og PCC markþjálfi hjá Mögnum.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00