Fara í efni
Pistlar

Hvaða ég mætir í atvinnuviðtalið?

„Magnaðir mánudagar“

4. pistill

Á þessum magnaða mánudegi ætla ég að taka samskipta pælingar frá því síðast yfir í aðstæður sem eru hluti af ferli þar sem er mikið í húfi, fæstir fá það sem þeir eru að sækjast eftir, við vitum varla við hverja við erum að keppa og höfum litla stjórn í ferlinu. Ég er að tala um ráðningarferli og að mæta í atvinnuviðtal, þar sem samskiptin snúast um að tjá hver við erum. Ég hef farið í þrjú formleg atvinnuviðtöl á ævinni og þar af bara eitt á síðustu 23 árum. En hins vegar hef ég á sama 23 ára tímbili verið óteljandi sinnum hinum megin við borðið, stýrt og tekið atvinnuviðtöl sem ráðgjafi í ráðningum.

Má taka með vin?

Fyrir vel flesta er atvinnuviðtal ákveðin streituvaldur. Það er jú mikið í húfi, við erum að sækjast eftir einhverju sem okkur langar í, við vitum ekki allar spurningarnar, fjöldahlutföllin eru okkur í óhag því við megum ekki taka með vin til að hjálpa okkur að svara heldur erum við ein á móti þeim sem spyrja spurninganna. Þannig að tilfallandi hikst, sveittir lófar, hækkandi púls, lokuð eða stíf líkamstjáning er sennilega einfaldlega mannlegt. Við vitum það öll að þetta vinnur sjaldnast með okkur og verður kannski enn einn streituvaldurinn því sá sem hlustar meðtekur jú og túlkar ekki bara það sem hann heyrir, heldur líka líkamstjáningu, svipbrigði og orku umsækjandans.

Verkefnið – að sækja um starf

Þegar ég er þeim megin við borðið að taka atvinnuviðtal geri ég meðvitað allt hvað ég get til að vera „streituminnkandi“. Því að það er mikilvægt fyrir mig í þeirri upplýsingaöflun sem atvinnuviðtalið er að fá að sjá allt það sem umsækjendinn getur verið. Það er mitt tap og þess sem er að ráða í starfið ef umsækjandinn nær ekki að vera sannarlega hann sjálfur og sýna og tjá það sem hann kann og getur. Þá mögulega er sá vinnustaður að fara á mis við „rétta“ starfsmanninn. Reynsla og æfing okkar í atvinnuviðtölum er mismunandi sem og undirbúningur, já og stundum er hann ekki endilega mikill, og ég heyri oft sagt að nóg sé að huga að því að „vera bara þú sjálf/ur“, sem ég ætla sko alls ekki að mæla gegn. En mínar ráðleggingar eru þær að meira geti hjálpað, þetta er jú ákveðið verkefni sem erum að takast á við. Grunnatriði í heimavinnunni eru að kynna okkur vel vinnustaðinn, starfsumhverfið og hvernig við tikkum í þau box sem farið er fram á í hæfniskröfunum.

Að mæta sem við sjálf

Undirbúum hvernig við viljum birtast, þar höfum við áhrif, val og völd. Af hverju langar okkur í þetta starf og hvernig miðlum við þeirri tilfinningu sem best? Hvað komum við með inn á vinnustaðinn, ekki bara reynslu eða þekkingu heldur ekki síður eiginleika, hugarfar og orku. Hvað þið viljið skilja eftir í huga þeirra sem hlustuðu og hvernig komið þið því til skila? Gleymið því svo ekki heldur að þið megið líka spyrja, þið megið líka vera forvitin og láta ráðningaraðilann sannfæra ykkur um ágæti vinnustaðarins, það má. Ef þið eruð boðuð í viðtal þá þýðir það að í grunninn uppfyllið þið eitthvað af því sem leitað er að, verkefnið ykkar er þá að leggja ykkar af mörkum til að koma með meira en bara ferilskrána, koma með ykkur sjálf, orkuna, svör og spurningar sem skapa þá tengingu sem verið er að leita eftir.

Þetta má svo örugglega yfirfæra á hinar ýmsu aðstæður þar sem við viljum vera séð og heyrð. Mætum, verum hugrökk og sýnum hver við erum.

Sigríður Ólafsdóttir er mannauðsráðgjafi og PCC markþjálfi hjá Mögnum

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30