Fara í efni
Pistlar

Fresta því að fresta

„Magnaðir mánudagar“

6. pistill

Frestun eða forgangsröðun?

Haft er eftir rithöfundinum Oscar Wilde að hann fresti engu til morgundagsins sem hann mögulega gæti heldur gert daginn þar á eftir. Er hann þá frestari, eða bara með forgangsröðunina á hreinu? Fyrir tveimur vikum þegar ég var að skrifa síðast pistil var ég staðráðin í því að skrifa þennan með góðum fyrirvara og vera búin löngu fyrir skiladag – ákvað að fresta því að fresta. En sú ákvörðun fauk með öðrum fögrum fyrirheitum út í veður og vind, enda næg önnur verkefni sem einhverra hluta vegna röðuðust fram fyrir í röðinni. En sannast sagna verð ég líka að viðurkenna að ekki voru þau öll endilega mikilvægari þó þau hafi komist fram fyrir í röðinni. Þannig gerðist það að ég frestaði því að fresta því að fresta skrifunum fram á síðustu stundu, sem sagt - er að skrifa rétt fyrir skilafrest.

Af hverju ekki bara að framkvæma?

Ég spyr mig því eðlilega, hvað er eiginlega málið með að fresta því að gera? Af hverju ekki bara að framkvæma alltaf allt þegar á að gera það – eða hvernig ætli það sé – gerir það einhver? Jú alveg örugglega og svo eins og með flest annað þá eru alls konar tímabil hjá okkur sem einkennast af mismikilli orku og drifkrafti og svo eru jú verkefnin klárlega misskemmtileg. Þannig að ég er alveg fyrir löngu búin að meðtaka þennan eiginleika í eigin fari og á góðan lista af afsökunum og stend mig jú stundum að því að vera mjög upptekin við að gera hluti sem ég þarf ekki að gera, til að forðast það sem ég raunverulega á að vera að gera. Kannist þið við það?

Viljastyrkur og agi

Verandi skipulögð með ágætum og markmiðadrifin með meiru þá hefur þetta frestunardæmi vakið forvitni mína og í grúski mínu hef ég komist að því að um 20% fólks glímir við frestun sem sannarlegt vandamál. Ég er svosem ekki alveg tilbúin að úrskurða sjálfan mig með þetta sem vandamál, heldur sé þetta frekar sem hafsjó af borðleggjandi tækifærum til framfara. Fræðin segja líka að þetta sé ekki bara spurning um viljastyrk eða aga heldur er frestun birtingarmynd þess að tvö svæði í heilanum eiga í hatrammri baráttu – baráttu milli þess að framkvæma og gera og þess að halda okkur öruggum, forða okkur frá breytingum, röngum ákvörðunum og mistökum.

Ekki gefa frestaranum dagbók

Þetta snýst því ekki bara um aga, tímastjórnun eða skipulag, það þýðir ekki að ætla að hjálpa frestaranum með því að gefa honum dagbók. Frestun er sálræn og við erum í góðri trú að forða okkur frá mistökum, breytingum eða því að gera eitthvað sem okkur hefur gengið illa að gera áður. Svo er þetta líka tengt við áhættusækni, að þegar tímaramminn er orðin knappur þá maganast spennan um hvort þetta takist, og svo eru það þeir sem forðast ákvarðanir og frestun er liður í því að kaupa tíma og þurfa ekki að ákveða strax. Frestun er mannleg og eðileg, já sko meðan hún er innan eðlilegra marka.

Feginleiki og frelsi

Hvað segið þið, hvar mynduð þið staðsetja ykkur á frestunarrófinu? Sagt er að munurinn á því fólki sem afkastar miklu og þeim sem afkasta litlu liggi í því hverju það velur að fresta. Þannig að það sannast líklega hið fornkveðna að „illu er best af lokið“. Brjótum verkefnin niður í smærri skref, leitum að hvatanum og tilgangi þess að gera hlutinn og öll könnumst við klárlega við feginleikann og frelsið þegar við höfum afrekað það að gera einhvern hlut sem höfum frestað lengi, lengi – jú og getum víst ekki látið það vera að hugsa „af hverju var ég ekki löngu búin að þessu?“

Sigríður Ólafsdóttir er mannauðsráðgjafi og PCC markþjálfi hjá Mögnum.

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Beggja skauta byr

Jóhann Árelíuz skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 11:11

Nenni ekki þessu kennaravæli

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 14:00

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00