Fara í efni
Pistlar

Forvitni og faldir fjársjóðir

„Magnaðir mánudagar“

7. pistill

Ég er forvitin

Ég er forvitin en ég myndi ekki gangast við því að vera hnýsin, ég hef einfaldlega áhuga á því hvernig fólk hugsar og af hverju það hugsar og gerir það sem það gerir. Maðurinn minn hins vegar er mun minna forvitinn, eða alla vega þegar hann segir mér að hann hafi hitt einhvern sem við þekkjum á förnum vegi, þá spyr ég hann auðvitað um viðkomandi og hvort hann hafi spurt að þessu eða hinu eða munað eftir því sem er í gangi í lífi viðkomandi og mig langar að fá fregnir af – þá kem ég oft og iðulega að tómum kofanum. Ekki af því að maðurinn minn hafi ekki áhuga á öðrum, hann er fyrirtaks hlustandi og umburðarlyndur með meiru, en hann bara horfir á mig stórum augum með bland af því að finnast fráleitt að hafa átt að spyrja um það sem ég hefði spurt um, en um leið soldið svekktur á fattleysi sínu að hafa ekki spurt og sýnt viðhlítandi áhuga.

Hlusta til að skilja

Ég er eins og áður hefur komið fram mikil áhugamanneskja um samskipti og sérstaklega á vinnustöðum og þess vegna í draumastarfinu þar sem ég er mikið bókuð í það að hitta starfsmannahópa og teymi þar sem við erum að ræða og rýna í samskipti, vinnustaðamenninguna og viðhorf og líðan starfsfsólks. Æfing sem ég geri oft og iðulega með hópum er að bjóða fólki að æfa sig í því að hlusta til að skilja, sem má líta á sem andhverfuna við að hlusta til að svara. Í þessum æfingum má sá sem er í hlutverki „hlustarans“ ekki grípa fram í og ekki koma sinni skoðun eða reynslu að, sko ekki fyrr en síðar í æfingunni þegar skipt er um hlutverk. Það sem hann má gera er að vera hvetjandi með hlustun sinni, sýna áhuga, athygli og helling af forvitni. Þannig má hann spyrja spurninga, rannsaka og fá að vita meira.

Fjársjóðsleit

Af hverju þessi æfing? Jú, því það eru svo endalaust miklir faldir fjársjóðir í öllu fólki sem við sjáum ekki nema fara í fjársjóðsleitina. Með því að hlusta til að skilja fáum við tækifæri til að sjá og skilja betur hvaðan viðkomandi er að koma og á hverju hann byggir skoðanir sínar, hegðun og viðbrögð. Því það er nefnilega þannig að við sjáum ekki heiminn eins og hann er, heldur sjáum við heiminn eins og við erum. Hversu dýrmætt og gagnlegt væri það að sjá heiminn frá fleiri sjónarhornum en okkar eigin, við gætum meira að segja orðið fyrir því að skipta um skoðun sjálf eða skilja og sjá samstarfsfólk okkar öðrum augum.

Egóið

Nánast undantekningalaust upplifir fólk að þetta sé skemmtileg og lærdómsrík æfing og í kjölfarið fara af stað umræður um að þetta sé hlustunarmáti sem hjá fæstum sé ríkjandi og hjá sumum nánast alveg óæfð færni, þannig að þetta getur verið áskorun og hreinlega erfitt í byrjun fyrir suma. En ekki af því að við séum í eðli okkar ókurteis eða nennum ekki að hlusta á aðra, heldur er það kannski bara meira vani að fara frekar í það að deila og segja frá okkar skoðunum eða reynslu – sem er auðvitað og alls ekki bannað, en það er þá bara önnur tegund samskipta og hlustunar.

Einn af stærstu áhrifaþáttum árangurs í samskiptum er blessað egóið okkar og það hvernig okkur gengur að temja það. Það er jú gaman að hafa rétt fyrir sér, okkar hugmynd valin, eiga sviðið, fá að nota fullt af orðum, deila með öðrum stolti og spenningi yfir því sem við vitum, finnst, kunnum, gerðum og afrekuðum. Enn eina ferðina er þetta víst spurning um blessaðan milliveginn, að gera að minnsta kosti jafn mikið af því að hlusta og tala, eða jafnvel eins og sumir segja að hlusta tvöfalt meira en að tala í réttu hlutfalli við það magn af eyrum og munni sem við höfum.

Sigríður Ólafsdóttir er mannauðsráðgjafi og PCC markþjálfi hjá Mögnum.

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Aðalstræti 13

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2024 | kl. 20:00

Ellefu bækur í jólagjöf

Jóhann Árelíuz skrifar
13. október 2024 | kl. 06:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00