Fara í efni
Pistlar

Mál BSO gegn bænum skal til efnismeðferðar

Lóðin sem bitist er um, athafnasvæði BSO á mótum Strandgötu og Hofsbótar. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Landsréttur hefur úrskurðað Bifreiðastöð Oddeyrar (BSO) í vil vegna frávísunar Héraðsdóms Norðurlands eystra á máli BSO gegn Akureyrarbæ. Landsréttur vísar málinu aftur til héraðsdóms til efnislegrar meðferðar. Málið varðar kröfu BSO um lóðarréttindi og byggingarrétt á lóð við Strandgötu þar sem leigubílastöðin hefur haft aðstöðu frá 1955.

„Ótímabundin og óuppsegjanleg lóðarréttindi“ 

Mál BSO gegn Akureyrarbæ snýst um að viðurkennt verði með dómi að BSO eigi „ótímabundin og óuppsegjanleg lóðarréttindi“ til 1.125 fermetra lóðar við Strandgötu sem auðkennd er með númerinu L149563, lóðar sem afmörkuð hafi verið af Akureyrarbæ þegar gerður var samningur um leigu á lóðinni 1955. Til vara krafðist BSO þess að viðurkennt verði með dómi að félagið eigi ótímabundinn afnotarétt til lóðarinnar. Þá var einnig krafa BSO að viðurkennt yrði að byggingarleyfi sem BSO segir Akureyrarbæ hafa veitt sér 7. september 1955 um byggingu afgreiðsluhúss á lóðinni hafi verið „án takmarkana, óuppsejganlegt og ótímabundið“.

Akureyrarbær taldi kröfur BSO ekki nægilega skýrar til að hægt væri að taka afstöðu til þeirra. Upphaflega hafnaði Héraðsdómur kröfu Akureyrarbæjar um frávísun í nóvember 2024, en eftir málflutning í lok febrúar 2025 um málið í heild breytti héraðsdómur afstöðu sinni og úrskurðaði Akureyrarbæ í vil, vísaði málinu frá dómi þar sem kröfurnar væru ekki nægilega skýrar. BSO kærði frávísunina til Landsréttar og hafði betur með úrskurði réttarins í gær.

Niðurstaða Landsdóms er sem sagt að Héraðsdómur Norðurlands eystra skuli taka mál BSO gegn Akureyrarbæ um umrædda lóð og réttindi henni tengd til efnislegrar meðferðar. Landsréttur úrskurðaði að Akureyrarbær skuli greiða BSO 350.000 krónur í kærumálskostnað. 

Hluti af nýútboðnum lóðum við Hofsbót

Málið tengist meðal annars áformum um byggingu húsa á svæðinu og útboði Akureyrarbæjar á byggingarrétti lóðanna að Hofsbót 1 og 3, en Hofsbót 1 er að hluta til sama lóðin og vísað er til í máli BSO sem lóðar við Strandgötu, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Akureyrarbær hafði tilkynnt BSO þegar lóðirnar voru fyrst boðnar út að kæmi tilboð í þær þyrfti BSO að hverfa af svæðinu með sex mánaða fyrirvara. BSO hefur í raun verið með starfsemi á svæðinu samkvæmt bráðabirgðaleyfi sem endurnýjað hefur verið reglulega frá 1955.

Í fyrrasumar bárust engin tilboð í byggingarétt að Hofsbót 1 og 3, en þegar aftur var óskað eftir tilboðum í byggingarréttinn núna í sumarbyrjun bárust tvö tilboð, eins og akureyri.net hefur greint frá. 

Hús dagsins: Nonnahús (Aðalstræti 54)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
03. júlí 2025 | kl. 06:00

Skógrækt og fæðuöryggi

Pétur Halldórsson, Úlfur Óskarsson og Aðalsteinn Sigurgeirsson skrifa
02. júlí 2025 | kl. 09:15

Kanínur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. júní 2025 | kl. 11:30

Eldhúsdagsumræður

Jóhann Árelíuz skrifar
29. júní 2025 | kl. 06:00

Lýsið frá Tona og Jónda

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. júní 2025 | kl. 10:00

„Við erum einu skrefi frá því að sagan endurtaki sig“

Halldóra Margrét Pálsdóttir skrifar
26. júní 2025 | kl. 08:15