Fara í efni
Pistlar

Smáhýsaskipulag við Síðubraut samþykkt

Staðsetningu fyrirhugaðra smáhúsa má sjá á þessari mynd. Rauðu strikin sýna reitinn sem skipulagsbreytingin nær til og gula svæðið sýnir aðkomu frá Síðubraut og staðsetningu fimm smáhúsa. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Bæjarráð hefur samþykkt áður framkomna tillögu að breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis við Grænhól, vestan Síðubrautar, þar sem afmörkuð er lóð fyrir allt að fimm 45 fermetra hús sem ætluð eru sem búsetuúrræði fyrir fólk sem á í fjölþættum geð- og vímuefnavanda. Hér er um fullnaðarafgreiðslu að ræða þar sem bæjarráð hefur heimild til þess í sumarleyfi bæjarstjórnar.

Á fimmta tug athugasemda bárust við tillöguna þegar hún var auglýst, misítarlegar en velflestar á sama veg þar sem staðsetningu smáhúsanna var mótmælt, í meginatriðum með öryggi barna í Síðuhverfi í huga og nálægð smáhúsanna við skóla og fjölmennt barnahverfi.

Á þessari mynd má sjá afstöðu smáhúsareitsins við verslunarmiðstöðina Norðurtorg til vinstri og Síðuhverfið til hægri. Næst reitnum má sjá raðhús við Rimasíðu. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Í svari Akureyrarbæjar við athugasemdunum kemur meðal annars fram að vanda þurfi staðsetningu á slíkum búsetuúrræðum sem þurfi að vera í göngufæri við almenningssamgöngur, verslun og þjónustu, en samt sér, auk þess sem bæjarstarfsmenn þurfi með einföldum hætti að geta sinnt þjónustu við íbúana.

Svar Akureyrarbæjar við þeim neikvæðu athugasemdum og mótmælum sem bárust við tillöguna var samþykkt af bæjarráði í liðinni viku og er svohljóðandi:

Það liggur fyrir að Akureyrarbær þarf að sinna þjónustu við fjölbreyttan hóp fólks og er eitt verkefnum sveitarfélagsins að útvega húsnæðisúrræði fyrir heimilislaust fólk með fjölþættan vanda. Vanda þarf staðsetningu á slíkum búsetuúrræðum þar sem það þarf að vera í göngufæri við almenningssamgöngur og verslun og þjónustu, en samt sér, auk þess sem Akureyrarbær þarf með einföldum hætti geta sinnt þjónustu við íbúana.

Að mati Akureyrarbæjar hentar svæðið norðan Síðubrautar mjög vel til þessara nota þar sem það er tiltölulega nálægt allri nauðsynlegri þjónustu við Norðurtorg en er samt sér og í litlum tengslum við núverandi íbúðarsvæði, skóla eða önnur barnmörg svæði.

Til viðbótar við þetta svæði er nú unnið að skipulagningu sambærilegs svæðis við Hlíðarfjallsveg og við Baldursnes. Þá er stefnt að því að vinna við gerði nýs deiliskipulags fyrir íbúðarsvæði á svæði milli Kjarnagötu og Naustaborga og að þar verði einnig gert ráð fyrir svona búsetuúrræðum.

Eins og áður hefur komið fram í fréttum akureyri.net er nú þegar hafin skipulagsvinna vegna byggingar sams konar smáhýsa á tveimur öðrum stöðum í bænum, við Baldursnes norðan við verslun BYKO og sunnan við Hlíðarfjallsveg á móts við Rangárvelli. Þá er fjórði staðurinn einnig kominn í vinnuferli, eins og fram kemur í svari Akureyrarbæjar, það er á svæði milli Kjarnagötu og Naustaborga þar sem einnig er gert ráð fyrir sams konar búsetuúrræðum.

Stari

Sigurður Arnarson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Smíðahúsið á Skipalóni

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 06:00

Klukkustrengir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. júlí 2025 | kl. 11:30

Siggi póstur

Jóhann Árelíuz skrifar
06. júlí 2025 | kl. 06:00

Að baka brauð

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
04. júlí 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Nonnahús (Aðalstræti 54)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
03. júlí 2025 | kl. 06:00