Íslenskubrú ný braut við Menntaskólann

Menntaskólinn á Akureyri var settur í 146. sinn á mánudaginn. Nemendur verða 590 þetta skólaár, þar af eru nýnemar hátt á þriðja hundrað.
Í ræðu við skólasetninguna sagði Karl Frímannsson skólameistari frá fyrirhuguðum breytingum á skólastarfinu, að því er fram kemur í frétt á vef skólans. „Breytingunum er ætlað að bæta námsumhverfið í skólanum með því að auka ábyrgð nemenda á eigin námi, hafa námið nemendastýrðara og auka sveigjanleika í skólastarfinu. Þessi nýja nálgun mun birtast nemendum m.a. í breytingum á stundaskrá og markvissari vinnu við gerð vikuáætlana,“ segir í frétt skólans, en skólameistari sagði áskoranir fylgja nýjum áherslum og kvaðst hafa fulla trú á að nýtt fyrirkomulag bæti nám nemendanna og verði þeim til góðs.
Í frétt skólans er einnig sagt frá nýrri braut við skólann, íslenskubrú. „Hún er ætluð nemendum af erlendum uppruna sem ekki hafa náð tökum á tungumálinu. Stefnt er að því að nemendur á íslenskubrú hafi í kjölfarið tök á því hefja nám við aðrar námsbrautir í MA sem og annars staðar.“


Eyrarland, gamla íbúðarhúsið

Strandir

Í hita leiksins

Steinvalan í öldugangi Öskjuvatns
