Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Áður en lengra er haldið: Séra Jürgen Jamin hafði samband við Akureyri.net vegna umfjöllunar á akureyri.net og langaði að koma eftirfarandi á framfæri:

  • Hrafnagilsstræti 2 hefur aldrei verið notað sem prestssetur (líkt og fram kom í pistli undirritaðs) heldur leigt út til spítalans i mörg ár þar til því var breytt í kirkju.
  • Kapellan var á neðri hæð Eyrarlandsvegar allt þar til Péturskirkja var tekin í notkun. Prestur bjó á efri hæðinni á Eyrarlandsvegi 26. (í pistli undirritaðs mátti líklega skilja sem svo, að allt húsið hafi verið kapella). Er sr. Jürgen þakkaðar þessar ábendingar.
Spítalavegur 9
 

Á síðustu árum 19. aldar hófust landvinningar Akureyrar upp á brekkuna bröttu ofan kaupstaðarins í kjölfar þess, að jörðin Stóra Eyrarland var keypt og lagt undir kaupstaðinn. Árið 1898 reis nýtt sjúkrahús af grunni í hinu nýja „landnámi“ bæjarins. Var það á ávölum brekkubrúnum norðan Búðargils, á svæði sem kallast Undirvöllur. Ári síðar reis læknisbústaður á sama stað. Sjúkrahúsbyggingin er löngu horfin af þessum stað en var endurreist í Hlíðarfjalli og er nú Skíðastaðir. Læknisbústaðurinn stendur hins vegar enn... (Greinarhöfundi er reyndar ekki kunnugt um, hvort sjúkrahúslóðin sem slík var í því landi, sem bærinn hafði keypt árið 1893, eða hvort sá tiltekni blettur hafi tilheyrt bænum fyrir það. Það má þó teljast nokkuð ljóst, að yfirráð og eign Akureyrar á Eyrarlandsjörðinni var forsenda uppbyggingar á þessum slóðum).

Árið 1896 hafði sjúkrahús verið starfrækt á Akureyri í liðlega tvo áratugi, í húsinu J. Gudmanns Minde sem nú er Aðalstræti 14 og jafnan þekkt sem Gamli Spítalinn. Það ár réðist til Akureyrar sem héraðs- og spítalalæknir, Guðmundur Hannesson (1866-1946). Hinum unga lækni (Guðmundur stóð þá á þrítugu) blöskraði aðstæður og aðbúnaður í húsinu, sem orðið var 60 ára gamalt og byggt sem íbúðarhús. Sagði hann húsið „stórum verra en flest privat hús“ og nefndi þar gluggaleysi, loftleysi, súg og ýmislegt annað, auk þess sem lækningatól voru flest úr sér gengin eða úrelt. Þá var því þannig háttað, að sjúkrarýmin voru á efri hæð hússins og mikið verk að koma sjúklingum upp þröngan og snúinn stiga. Það var því strax í janúar 1897 að Guðmundur lagði fram teikningar að nýju sjúkrahúsi og þar var um að ræða mjög fullkomið hús á einni hæð með vatnsleiðslu og miðstöðvarkyndingu (sbr. Magnús Stefánsson 2016:67-68). Um líkt leyti og fyrstu sjúklingar voru lagðir inn á nýja sjúkrahúsið á Undirvelli snemmmsumars 1899 hófst Guðmundur handa við byggingu eigin íbúðarhúss sunnan sjúkrahússins nýja.

Það var vorið 1899, nánar tiltekið þann 20. maí að Guðmundur Hannesson fékk útmælda lóð og byggingarleyfi á þeim bletti á Undirvellinum, sem hann hafði látið slétta. Húsið yrði 17x12 álnir með „framstandandi útbyggingu“ að norðan og austan, 4x8 ½ álnir og „veranda“ sunnan við útbygginguna. Vestan hússins yrði skúr, 4 ½ x 12 álnir. (Lesendur eru kannski farnir að kunna það utanað, að alin var u.þ.b. 63 cm). Bygginganefndin mælti svo fyrir, að húsið skyldi standa í sömu stefnu og sjúkrahúsið og standa 5 álnir frá brekkubrúninni að austan en 6 ½ alin sunnan norðurbrúnar brekkunnar, sem upphlaðin er.

Spítalavegur 9 er einlyft timburhús með háu risi og stendur á háum steyptum kjallara. Er það þrístafna ef svo mætti segja, það er tvær álmur; sú nyrðri snýr austur-vestur en suður úr henni er önnur álma sem snýr stafni mót suðri. Að norðan er miðjukvistur fyrir miðri þekju en útskot meðfram báðum hliðum suðurálmu. Þá eru smærri kvistir á báðum hliðum suðurálmu. Húsið er klætt láréttri panelklæðningu að utan og stallað bárujárn er á þaki. Á þakskeggjum og rjáfrum eru útskornir sperruendar og skraut í anda sveitserstíls. Lóðréttir bjálkar skeyttir undir hanabjálka á austurstafni, sem ramma inn útskorið skraut á austurstafni norðurálmu og margskiptir skrautsprossar í sólskála austurhliðar setja sérlega skrautlegan svip á húsið. Grunnflötur hússins N-S er 10,32x10,80m (útbygging á vesturhlið meðtalin) en 5,59m breiður austurstafn norðurálmu skagar 2,65m út fyrir austurhlið. Sólskáli að austan 4,51x2,01m (skv. uppmælingarteikningum Finns Birgissonar, 1993)

Smíði hússins mun ekki hafa tekið nema um þrjá mánuði, það er hún hófst í byrjun sumars 1899 og mun hann hafa flutt inn, ásamt fjölskyldu sinni um haustið. Fékk Guðmundur til liðs við sig timburmeistarann Snorra Jónsson á Oddeyri en Guðmundur mun sjálfur hafa ráðið útliti og innra skipulagi hússins að mestu leyti. Snorri og lærlingar hans smíðuðu glugga og hurðir í húsið veturinn áður en Guðmundur mun sjálfur hafa teiknað og sagað út skrautið sem prýðir gafla og þakbrúnir. Mætti ímynda sér, að hann hafi gripið í útskurðinn sér til hugarhægðar frá annríki læknisstarfsins. Svo vill til, að vitað er hver smíðaði upprunalegu hurðirnar í húsi Guðmundar. Hét hann Kristján Sigurðsson og lærði smíðar hjá Snorra Jónssyni árin 1896-98 og voru hurðirnar sveinsstykki hans í iðninni. Kristján lýsir vinnulaginu hjá Snorra á eftirfarandi hátt: [...]hann [Snorri Jónsson] kom við og við til að segja fyrir um herbergjaskipan og mæla fyrir dyrum og gluggum. Aldrei var nokkurt hús teiknað fyrir fram, enda var hér þá enginn iðnskóli og lærðum við því ekkert í teikningu. Þegar byggja átti hús, var aðeins sagt fyrir, hve stórt það ætti að vera. Síðan var grindin höggvin saman og þá um leið ákveðið hvar dyr og gluggar ættu að vera. Því næst var húsið reist, klætt utan og síðan þakið (Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (Kristján Sigurðsson, 1945) 1995:103).

Þá kemur fram, að næst hafi verið settir í húsin gluggar og útihurðir, þá gólf og loft og því næst mælt fyrir innréttingum og veggjum. Var það að jafnaði gert í samráði við húseigendur og strikað með krítarsnúru fyrir veggjum. Þessi merkilega lýsing skýrir það, hvers vegna upprunalegar teikningar finnast sjaldan eða ekki þegar um ræðir íbúðarhús frá þessum árum: Þær voru einfaldlega ekki gerðar!

Í bréfi til konu sinnar, Karólínu Margrétar Ísleifsdóttur, sumarið 1899 segist Guðmundur hafa teiknað „veranda“ sólpall og hann ágætlega smíðaður af Ásmundi nokkrum sem á heima á Eskifirði. En umræddur Ásmundur, var Ásmundur Bjarnason sem nokkrum árum síðar átti eftir að stýra byggingu eins skrautlegasta og veglegasta timburhúss Eyjafjarðarsvæðisins, Grundarkirkju Magnúsar Sigurðssonar. Og einnig segir Guðmundur: „Ég er viss um að húsið verður fallegt, enda þó bæjarbúar sé á annarri skoðun og þyki það ljótt“ (Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:191). Segir Guðmundur, að bæjarbúar telji það eins og tvo samsettir kumbalda, sem fátæklingar hefðu byggt fyrir 100 árum. Kannski var það þessi tvískipta gerð, með stöfnum til þriggja átta sem olli þessu áliti. En Guðmundur bætir einnig við nokkuð áhugaverðum punkti: „Kassi helst sem allra stærstur, það er það sem við fólkið á [...]. Þegar fleiri fallegri hús verða byggð breytist þetta smám saman “ (Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:191). Þessi orð eru einkar áhugaverð í ljósi þess, að um 120 árum síðar komu fram fremur stórkarlalegar hugmyndir um byggingu nokkurra, margra hæða fjölbýlishúsa á þessum sömu slóðum, að heita ofan í lágreistu byggðinni frá aldamótunum 1900.

Hús Guðmundar var undir sterkum áhrifum frá norska sveitserstílnum og mun eitt fyrsta einbýlishúsið í þeim stíl hér í bæ. Ekki var það einungis nýstárlegt í útliti heldur einnig frágangur þess og búnaður. Ytri klæðning var tvöföld með þumlung á milli, innri klæðning pappalögð en grindin þétt einangruð með mosa. Þá var húsið kynt með kolaofnum sem drógu að sér loft eftir stokkum og í húsinu var vatnsleiðsla og vatnssalerni. Mun þetta fyrsta íbúðarhús bæjarins, sem búið var slíkum þægindum (sbr. Finnur og Hanna Rósa 2003:192). Guðmundur var að mörgu leyti frumkvöðull í heilsubótum og lækningaaðferðum, hann framkvæmdi t.d. botnlangaskurð fyrstur lækna hérlendis haustið 1902 (sbr. Magnús Stefánsson 2016:78) og gerði hann sér grein fyrir orsakasamhengi húsnæðis og heilsufars. Þannig var hann mjög áfram um bættan húsakost landsmanna og beitti sér óspart á því sviði. Það er því kannski engin tilviljun, að hús Guðmundar læknis skyldi hafa verið svo nýstárlegt hvað varðaði gerð og innri búnað eða þægindi. Ásamt Guðjóni Samúelssyni vann hann ötullega að því, að kynna m.a. kosti steinsteypuhúsa í stað torfhúsa. (Reyndar gerðu fáeinar teikningar Guðjóns af íbúðarhúsum til sveita ráð fyrir torfþökum, t.d. á Kaupangi og Möðrufelli). Guðmundur Hannesson kynnti hugðarefni sitt í blaða- og tímaritsgreinum auk bókarinnar Um skipulag bæja, sem út kom 1916. Þar er um að ræða tímamótarit í skipulagsfræðum þar sem fram koma margar nýjar hugmyndir, sem margar hverjar hafa æ síðan verið helsta leiðarljós í þéttbýlisskipulagi. Guðmundur, sem sat á Alþingi árin 1914-15, samdi frumvarp að fyrstu íslensku skipulagslögunum, sem sett voru 1921 og á næstu árum skipulagði Guðjón Samúelsson svo nokkra þéttbýlisstaði, þ.á.m. fyrsta Aðalskipulag Akureyrar sem samþykkt var 1927.

Guðmundur Hannesson fluttist til Reykjavíkur árið 1907 og tók þar við stöðu héraðslæknis og í húsið fluttist eftirmaður hans, Steingrímur Matthíasson, Jochumssonar. Steingrímur átti hér heima ásamt fjölskyldu sinni en hafði einnig læknastofu í húsinu. Steingrímur var eigandi hússins þegar matsmenn Brunabótafélagsins voru hér á ferð síðla árs 1916. Lýstu þeir húsinu sem einlyftu íbúðarhúsi með porti og háu risi á kjallara og með skúr til norðurs við vesturenda. Á gólfi við framhlið (austanmegin á neðri hæð) voru tvær stofur og forstofa en við bakhlið (vestanmegin) tvær stofur, eldhús og gangur með stiga uppá loftið. Á lofti voru þrjú íbúðarherbergi og fimm geymsluherbergi. Lengd 13,2 m, breidd 10,4 og hæð 6,9m. Þá voru 20 gluggar á húsinu og tveir skorsteinar, sem tengdust fjórum kolaofnum, eldavél og þvottapotti (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. ) Ekki er minnst á vatnssalerni í brunabótamatinu, en ekki ósennilegt, að það hafi verið í einhverju geymsluherbergja í kjallara. (Kannski hafði það aðeins verið virkt í tíð Guðmundar?)

Förum nú hratt yfir sögu. Húsið hefur að mestu haldið sinni upprunalegri gerð, kvistur var settur á það árið 1938 og einhvern tíma var skraut fjarlægt af þakbrúnum. Þá var húsið klætt asbestplötum á tímabili en árið 1992 hófust endurbætur sem miðuðu að því, að færa húsið til upprunans. Voru þær gerðar eftir teikningum Finns Birgissonar. Á tímabili var húsið tvíbýli, ein íbúð á hvorri hæð. Í Húsakönnun Hjörleifs Stefánssonar frá árinu 1986 er nokkuð ítarlegur eigendalisti hússins: Næsti eigandi á eftir Steingrími Matthíassyni er Þorsteinn M. Jónsson árið 1937 og tveimur árum síðar er eigandi Ingibjörg Kristófersdóttir. Haukur Snorrason eignast svo húsið 1941 og Ásgeir Árnason ári síðar. Ekki kemur fram hver á hvaða hæð eða hvort umrætt fólk eigi allt húsið en árið 1958 er Kjartan Ólafsson eigandi neðri hæðar og Stefán Reykjalín eigandi efri hæðar frá 1965. Þá er Sigurður Sigurðsson sagður eigandi 1971 (ekki getið fleiri eigenda) (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:152). Um áramótin 1980-81 fluttu þau Ólafur Tryggvi Ólafsson og Þorbjörg Ingvadóttir á efri hæð hússins og síðar eignuðust þau allt húsið. Árið 2016 heimsótti Kristín Aðalsteinsdóttir þau Ólaf Tryggva og Þorbjörgu (sem búa hér enn þegar þetta er ritað síðla vetrar 2024) og tók við þau viðtal. Sögðu þau m.a. frá tveimur giftingarhringum sem fundust, annar milli þils og veggjar og hinn í garðinum. Annar þeirra var merktur St.gr. Hlaut það að standa fyrir Steingrímur, og hringarnir þannig tilheyrt þeim Steingrími Matthíassyni og Kristínu Þórðardóttur. Þá fundu þau Ólafur og Þorbjörg m.a. kínverska peninga milli þilja, við endurbætur á húsinu (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir, 2017:155).

Spítalavegur 9 er reisulegt og skrautlegt hús í mjög góðri hirðu. Það stendur á einkar skemmtilegum og áberandi stað, hátt á brekkuhorni norðan og ofan Búðargils. Lóðin er mjög gróin og prýdd gróskumiklum trjám. Þetta svæði við Spítalaveginn og Tónatröðina er einkar geðþekkt og gróið og prýtt lágreistum húsum. Mikil prýði er af þessari spildu á brekkubrúninni, sem blasir skemmtilega við úr Innbænum, af Leiruvegi og frá vinsælum útsýnisstað á Naustahöfða, norðan Kirkjugarðs. Húsið Spítalavegur 9 er aldursfriðað og einnig hluti varðveisluverðrar heildar og fær þessa umsögn í húsakönnun, sem unnin var um svæðið árið 2009: Spítalavegur 9 er eitt glæsilegasta sveitserhús landsins og er um margt sérstakt. Húsið hefur mikið varðveislugildi af þessum sökum. Þar að auki er það einn mikilvægasti hluti þeirrar heildar sem sjúkrahúsbyggingarnar mynda og er gildi þess þeim mun meira (Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2016: 22). Látum það vera lokaorð þessarar umfjöllunar.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 31. júlí 2010 og 26. febrúar 2023. Myndirnar, sem sýna Undirvöll og „Spítalabrekkuna“ eru teknar 15. maí 2016 og sl. páskadag, 31. mars 2024.

Heimildir: 

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917.

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 175, 20. maí 1899. Fundur nr. 314, 14. júlí 1906. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2003. Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 2016. Byggða- og húsakönnun við Spítalaveg. Minjasafnið á Akureyri. Pdf skjal á slóðinni https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_160.pdf

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins.

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Saga og fólk. Akureyri: Höfundur.

Magnús Stefánsson. 2016. Svipmyndir úr sögu sjúkrahúss í eina öld. Akureyri: Völuspá útgáfa.

ES. Hér að ofan er vitnað í bók Kristínar Aðalsteinsdóttur, Innbær. Hús og fólk. Þá er rétt að minna á sambærilega bók um Oddeyrina, sem hún og undirritaður sendu frá sér sl. ár. Hana er hægt að kaupa af höfundum eða í Eymundsson- sjón er sögu ríkari. Upplögð tækifærisgjöf m.a. sem sumargjöf!

Dagur læknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
17. maí 2024 | kl. 18:00

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:00

Þúfnaganga

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. maí 2024 | kl. 13:30

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30

Heilsukvíði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
09. maí 2024 | kl. 10:00