Fara í efni
Pistlar

Framlenging, 18 víti og aukastigið norður

Ormur Jónsson (fyrir miðju) jafnaði í 3-3 þegar rúm mínúta var eftir af leiktímanum og Unnar Hafberg Rúnarsson (til hægri) kláraði dæmið þegar hann skoraði úr níunda víti SA eftir maraþonviðureign. Mynd úr safni: Rakel Hinriksdóttir.

SA Víkingar, karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí, verður á toppnum um jólin eftir sigur á SR í maraþonviðureign sem fór í framlengingu og samanlagt 18 vítaskot. Unnar Hafberg Rúnarsson skoraði í þriðju tilraun sinni og níunda víti SA, tryggði þar með sigurinn, aukastigið og toppsætið um jólin. 

Heimamenn aðgangsharðari

Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrstu lotunni, nema hvað heimamenn í SR skoruðu reyndar mark sem í fyrstu var dæmt gott og gilt en síðan afturkallað, mögulega vegna rangstöðu, en fréttaritara þó ekki kunnugt um það svo óyggjandi sé.

Það var síðan aðeins liðin rétt rúm hálf mínúta af annarri lotu þegar Unnar Hafberg Rúnarsson komst einn á skrið með pökkinn fram miðjuna á undan varnarmönnum SR, lék laglega á markvörðinn og skoraði. Forystan varði þó ekki lengi því rúmri einni og hálfri mínútu síðar skoraði Styrmir Maack fyrsta mark SR og jafnaði í 1-1.

Aftur náðu Akureyringar forystunni um miðja aðra lotuna þegar Hank Nagel skoraði með hnitmiðuðu skoti fyrir utan. Þrátt fyrir sóknarþunga SR-inga sem áttu til dæmis 23 skot á móti sex skotum SA í annarri lotunni náðu Akureyringar að halda eins marks forystu út lotuna, jafnvel þótt þeir hafi spilað þrír á fimm í tæpa mínútu þegar langt var liðið á lotuna, eftir tvær refsingar á leikmenn SA á stuttum tíma sem að hluta sköruðust. 

Jafnt og spennandi til enda

Aftur náðu SR-ingar að jafna þegar um stundarfjórðungur var eftir af þriðju lotunni, Styrmir Maack með sitt annað mark í leiknum. Ekki löngu seinna munaði líklega millimetrum að SA næði forystunni á ný, skot í stöng og pökkurinn virtist renna eftir marklínunni og mögulega í hina stöngina, en þó erfitt að sjá á upptöku. SA sótti þá hart að marki heimamanna í svipaðri stöðu og þeir í annarri lotunni, tveimur fleiri um tíma eftir tvær refsingar á SR. Heimamenn náðu að verjast ágangi þeirra rauðu og aftur var jafnt í liðunum. SR-ingar náðu síðan forystunni í fyrsta skipti í leiknum þegar tæp sex og hálf mínúta var eftir og enn var það Styrmir Maack sem skoraði. Kominn með þrennu.

Leikir þessara liða eru jafnan spennandi og þessi var engin undantekning. Eftir þunga sókn SA þar sem þeir skiptu markverðinum út af og spiuðu sex á móti fimm tókst þeim að jafna í 3-3. Ormur Jónsson var þá fyrstur að átta sig og ýtti pökknum yfir marklínuna eftir marktilraun Unnars. Þá var rúm mínúta eftir á klukkunni. 

Lokamínútan varð auðvitað æsispennandi, en hvorugu liðinu tókst að skora þrátt fyrir góð færi. Liðin voru því komin með eitt stig hvort, en framlengingin segir til um hvort liðið fær aukastigið. Þá er spilað með þrjá útileikmenn í stað fimm eins og gert er í venjulegum leiktíma. Leiknum lauk svo með átökum sem urðu til þess að einn leikmaður úr hvoru liði fékk útilokun frá leiknum. 

Markverðir í aðalhlutverkum í maraþonvítakeppni

Sex fyrstu vítin hjá hvoru liði fóru forgörðum, ýmist varin eða skotið framhjá. Bæði lið skoruðu úr sínu sjöunda víti, fyrst Kári Arnarsson fyrir SR og svo Jóhann Már Leifsson fyrir SA. Báðir misnotuðu svo næsta víti, bæði lið búin fimm víti og svo þrjú í viðbót og komið að bráðabana. Eftir að Róbert Steingrímsson hafði varið níunda víti SR var komið að Unnari Hafberg sem fór þá af stað í sinni þriðju vítatilraun. Þá loks kom markið sem skildi liðin að og tryggði Akureyringum aukastigið.

  • SR-SA 3-4 (0-0, 1-2, 2-1, 0-0, 0-1)

SR
Mörk/stoðsendingar: Styrmir Maack 3/0, Alex Máni Sveinsson 0/2, Gunnlaugur Þorsteinsson 0/2, Kári Arnarsson 0/1, Eduard Kascak 0/1.
Varin skot: Ævar Björnsson 12 af 15 í leik (80%), varði auk þess sex víti.
Refsimínútur: 35.

SA
Mörk/stoðsendingar:  Hank Nagel 1/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 1/1, Ormur Jónsson 1/0, Robbe Delport 0/2, Jóhann Már Leifsson 0/1, Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1.
Varin skot: Róbert Steingrímsson 33 af 36 (91,7%), varði auk þess sex víti.
Refsimínútur: 39.

SA er í efsta sæti Toppdeildar karla núna þegar hlé verður á deildinni fram yfir áramót. SA er með 16 stig eftir átta leiki, en SR með 14 stig, einnig eftir átta leiki. Fjölnir er í neðsta sætinu með þrjú stig.

Leikskýrslan (atvikalýsing).

Staðan í deildinni.

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á upptöku af honum þar.

Þakklæti

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
16. desember 2025 | kl. 06:00

Þegar mamma eyðilagði jólin

Þráinn Lárusson skrifar
14. desember 2025 | kl. 17:00

Orustan um Waterloo

Jóhann Árelíuz skrifar
14. desember 2025 | kl. 06:00

Gefjun skóp ekki annan Játvarð Loðvík

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 12:00

Hvenær kemur flugstöðin?

Sverrir Páll skrifar
10. desember 2025 | kl. 17:00

Gráþröstur

Sigurður Arnarson skrifar
10. desember 2025 | kl. 12:30