Fjallahjólreiðar og fótbolti fram undan

Fjallahjólahelgi Hjólreiðafélags Akureyrar og Greifans verður haldin dagana 18.-20. júlí, frá föstudegi til sunnudags. Keppni í Enduro og fjallabruni á laugardag er jafnframt Íslandsmót í greininni. Karlaliðin í knattspyrnunni eiga bæði leiki á næstu dögum. Þórsarar sækja HK heim á föstudag og KA tekur á móti ÍA á laugardag.
FÖSTUDAGUR 18. JÚLÍ - fótbolti og hjólreiðar
Yngra hjólreiðafólkið opnar Fjallahjólahelgi HFA og Greifans á föstudag. Keppt er í sex flokkum karla og kvenna, U9, U11, U13, U15, U17 og Junior flokkum. Fyrsti ráshópur fer af stað kl. 18.
- Ungdúrómót HFA, Motul og Greifans
Ræsing við Strýtuskála í Hlíðarfjalli kl. 18
- - -
Fimm leikir af sex í 13. umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu fara fram á föstudag, en sá síðasti á laugardag. Þórsarar sitja í 5. sæti deildarinnar og mæta HK í Kórnum, en Kópavogsliðið er í 3. sæti deildarinnar að loknum 12 umferðum.
- Lengjudeild karla í knattspyrnu
Kórinn kl. 18
HK - Þór
Þór og HK mættust í fyrstu umferð deildarinnar í Boganum í byrjun maí og gerðu þá 1-1 jafntefli. HK vann toppslag gegn ÍR í síðustu umferð, 2-1, en Þórsarar unnu botnlið Leiknis í Boganum, 2-0.
LAUGARDAGUR 19. JÚLÍ - fótbolti og hjólreiðar
Fjallahjólahelgi HFA og Greifans heldur áfram á laugardag og þá er komið að stærstu keppnisgreininni, Enduromóti HFA og Greifans, sem jafnframt er Íslandsmót í greininni.
- Enduromót HFA og Greifans, Íslandsmót
Ræsing við Strýtuskála í Hlíðarfjalli kl. 13
Keppt er í fjórum flokkum fullorðinna, A-flokki, B-flokki, Masters 35+ og rafhjólaflokki, ásamt Junior/U17 flokki. Annars vegar er keppt í Enduro og fjallabruni (downhill) og svo hins vegar eingöngu í fjallabruni í sömu flokkum.
- - -
Heldur hefur sigið á ógæfuhliðina hjá KA í Bestu deild karla í knattspyrnu þrátt fyrir sigur í 14. umferðinni. Tap í 15. umferð og úrslit annarra leikja í deildinni gerðu það að verkum að KA seig niður í neðsta sæti deildarinnar. Skagamenn jöfnuðu KA að stigum og fóru upp fyrir þá á markamun. KA og ÍA eru með 15 stig úr 15 leikjum, en næst fyrir ofan koma KR með 16 stig og svo ÍBV, Afturelding og FH með 18.
Það vill reyndar svo til að það eru Skagamenn sem koma norður á laugardag og mæta KA á Greifavellinum. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi stiganna sem í boði eru í þeim leik, fyrir bæði félögin.
- Besta deild karla í knattspyrnu
Greifavöllurinn kl. 16
KA - ÍA
KA mátti þola stórt tap fyrir FH í Hafnarfirðinum í 15. umferðinni, 5-0, en ÍA vann KR 1-0 og hefur nú unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum. Þessi lið mættust á Akranesi í byrjun maí og höfðu Skagamenn þá betur, 3-0.
SUNNUDAGUR 20. JÚLÍ - hjólreiðar
Hjólreiðaveislan heldur áfram á sunnudag, en þá er komið að Fjallabruni HFA og Greifans, sem jafnframt er Íslandsmót í greininni og þriðja bikarmótið. Keppt er í fjórum flokkum fullorðinna, A-flokki, B-flokki, Masters 35+ og rafhjólaflokki, ásamt ungmennaflokki.
- Fjallabrun HFA og Greifans, Íslandsmót og bikarmótið
Ræsing við Strýtuskála í Hlíðarfjalli kl. 13


Hvernig væri ásýnd Akureyrar án stóru trjánna?

Ólæst

Útí dokk

Pabbi minn, hvers vegna keyptirðu leigubíl?
