Trjávernd

TRÉ VIKUNNAR - 122
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Jónatan læknir leit á tréð í garðinum sínum og sá að það var ljótt og passaði ekki lengur við annan gróður. Hann á margar góðar minningar um þetta tré sem eitt sinn var fagurt. Hann minnist allra góðu stundanna undir því. Var það ekki undir þessu tré sem Jónatan læknir og Jóna tannlæknir áttu sinn fyrsta ástarfund? Nú er það orðið ljótt og úr sér sprottið. Það er fyrir í garðinum. Þess vegna hendir hann því og fær sér nýtt. Eða sleppir því að fá sér nýtt.
Í þessum stutta pistli veltum við því fyrir okkur hvort alltaf sé eðlilegt að fjarlægja tré úr görðum. Við skiptum okkur ekkert af sófanum en notum hann til samanburðar.

Regluverk
Hvert sveitarfélag á Íslandi getur sett sér almennar reglur um trjáfellingar. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík gilda þær reglur að sækja þarf um leyfi til að fella tré ef þau eru yfir 8 metrar á hæð eða eldri en 60 ára. Oftast eru slík leyfi auðfengin en þó ekki alltaf. Ef um er að ræða sérstök tré sem setja mikinn svip á umhverfi sitt og hafa áhrif á götumyndina er ekki víst að leyfið fáist. Sama á við ef tréð þykir einstaklega merkilegt, einhverra hluta vegna. Sum tiltekin tré skipa stóran sess í ræktunarsögu Íslendinga og sorglegt er að fórna þeim arfi án veigamikilla ástæðna. Í slíkum tilfellum er ekkert óeðlilegt við að reynt sé að telja garðeigendum hughvarf.
Sambærilegar reglur giltu í eina tíð á Akureyri en nú eru engar reglur í gildi um trjáfellingar í bænum. Hverjum og einum er í sjálfsvald sett hvort hann, burt séð frá kyni, fellir eða lætur fella tré í sínum garði. Það stendur þó vonandi til bóta með gerð sérstakrar trjáverndarstefnu.
Hver kom fyrst?
Stundum kann að vera rétt að staldra aðeins við og íhuga aðra möguleika, því trjáfelling er varanleg aðgerð. Skulu hér tilnefnd fáein atriði sem kunna að skipta máli.
- Gott er að hafa í huga að tré geta orðið gamlar lífverur. Það tekur ekki langan tíma að fella tré, sem veitt hefur allskonar vistþjónustu, jafnvel í marga áratugi.
- Var tréð þarna þegar íbúar hússins fluttu í það?
- Er það búið að vera lengur á þessum stað en íbúarnir?
- Kom það nýjum íbúum á óvart að tréð var þarna?
Ef svarið er já við þessum spurningum kann að vera rétt að velta fyrir sér hvort aðrar leiðir séu færar og ef til vill heppilegri. Þetta á einkum við um gömul og virðuleg tré, sem í sumum tilfellum eiga sér merka sögu. Þau geta sem best verið hluti af mikilvægum arfi viðkomandi sveitarfélags. Ef til vill er þetta elsta eða stærsta tré sinnar tegundar í bænum. Skiptir það ekki máli? Ef til vill er þetta eina tré sinnar tegundar í bænum, eða formóðir margra afkomenda, jafnvel um land allt. Skiptir það máli?

Árið 2005 gaf Skógræktarfélag Eyfirðinga út bækling um merk tré á Akureyri í tilefni 75 ára afmæli félagsins. Því miður hafa mörgum þeirra verið fórnað. Nú heldur félagið úti vefsjá um merk tré í bænum. Hana má skoða hér. Við höfum stundum skrifað pistla um einstök, falleg og merkileg tré á Akureyri og birt á heimasíðunni okkar. Má nefna sem dæmi þennan pistil um ösp, pistil um eikina í Dalsgerði, hið fágæta degli við Bjarmastíg og pistil um eitt glæsilegasta lerkið í bænum. Öll þessi tré eru nú horfin. Ýmsar ástæður geta legið að baki þessum trjáfellingum. Má nefna sem dæmi að eitt þeirra skyggði á sólpallinn hjá nágrönnum trésins. Þeir vissu þó vel af trénu þegar pallurinn var byggður. Í öðru tilfelli var skyndiákvörðun að fella gamalt tré svo auðveldara væri að mála húsið. Rétt er þó að minna á að í öllum tilfellum voru íbúar í lagalegum rétti til að fella sín tré, enda eru engar reglur til á Akureyri sem vernda gömul, falleg og virðuleg tré.
Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Ólæst

Útí dokk

Pabbi minn, hvers vegna keyptirðu leigubíl?

Stari
