Fara í efni
Pistlar

Er hnúðlax betri en enginn?

VEIÐI –

Hnúðlax virðist kominn í íslenskar ár til frambúðar. Nokkuð hefur borið á því að veiðimenn eru að birta myndir af slíkum úr veiðiferðum sínum á samfélagsmiðlum og víða má lesa um hnúðlaxa í íslenskum ám á fréttamiðlum, jafnvel í torfum. Fyrir nokkru birti mbl.is frétt úr Miðfjarðará í Bakkafirði þar sem vart varð við hnúðlaxatorfu í ánni og þegar dregið var fyrir með nót náðust 20 hnúðlasar og annað einn slapp. Svipuð frétt birtist úr Selá í Vopnafirði fyrir nokkrum dögum. Í norður Noregi er ástandið það slæmt að búið er að loka þremur vinsælum laxveiðiám vegna ágangs þessarar laxategundar. Um 7.000 hnúðlaxar hafa gengið í eina þeirra.

Hvað er hnúðlax?

Hnúðlax – Oncorhynchus gorbuscha – sem einnig er nefndur bleiklax, tilheyrir ættkvísl Kyrrahafslaxa. Náttúrleg heimkynni tegundarinnar er við strendur norðanverðs Kyrrahafs og við strendur Norður-Íshafsins. Hnúðlaxinn er fremur ófrýnilegur og dregur nafn sitt af stórum hnúð á baki hænganna. Hrygnurnar eru öllu fríðari, án hnúðs og minna nokkuð á sjóbleikju. Sporður þeirra er þó dröfnóttur ólíkt sporði sjóbleikjunnar. Hnúðlaxinn er smávaxinn af laxi að vera eða á bilinu 1,75 til 2,5 kg að þyngd og 45-60 cm á lengd. Þeir eru tvö ár að þroskast úr hrogni í kynþroska einstakling. Hnúðlaxinn hrygnir neðarlega í ánum og seiðin ganga fljótt til sjávar þar sem þau dvelja í um 18 mánuði áður en þau ganga í árnar fullvaxta á nýjan leik. Að hrygningu lokinni er ævi hnúðlaxsins öll. Þessi sérstaki tveggja ára lífsferill veldur því að í sumum vatnakerfum hafa myndast hnúðlaxagöngur sem koma annað hvert ár.

Hvað varð til þess að hnúðlaxinn lagðist í ferðalög til Íslands ?

Útbreiðsla hnúðlaxa hófst þegar Rússar fluttu frjóvguð laxahrogn frá Norður Kyrrahafi til Rússlands og slepptu hnúðlaxaseiðum í rússneskar ár. Síðan þá hafa náttúrulegir hnúðlaxastofnar myndast í ám í norðvestur Rússlandi og einnig í fjölmörgum norskum ám. Hnúðlaxar hafa af og til komið fram sem flækingar í íslenskum ám en hefur fjölgað verulega undanfarin ár. Til að mynda veiddust um 70 hnúðlaxar á Íslandi árið 2017, árið 2019 var fjöldi veiddra yfir 90 og í ár stefnir í enn hærri tölur. Ártölin segja til um fyrrnefndar göngur á tveggja ára fresti og standa á oddatölu.

Hefur tilvist hnúðlaxsins hér við land áhrif á íslenska laxastofninn ?

Ég heyrði í Guðna Guðbergssyni, sviðsstjóra ferskvatnssviðs hjá Hafrannsóknastofnun. Hann óttast að hnúðlaxinn sé kominn til að vera. Laxinn hefur þegar hrygnt en viðkoma ekki verið mæld. Hann segir það erfitt þegar um fáa og dreifða fiska sé að ræða. Guðni telur áhrif hnúðlax á Atlantshafslaxinn líklega ekki mikil en hann geti þó yfirskyggt aðra stofna ef hann verður í hundraða eða þúsunda tali og þá hefur hann meiri áhyggjur af bleikju og sjóbirtingi. Guðni telur mikilvægt að auka þekkingu á áhrifum hnúðlaxsins. Vitað er að hann hrygnir fyrr en laxinn og þessir stofnar blandast því ekki og lítil skörun er á hrygningarsvæðum.

En hver er upplifun veiðimanna ?

Ef við horfum til norður Noregs, þar sem ástandið er verst, þá er upplifunin ekki góð. Veiðimenn eru hættir að kaupa veiðileyfi í stærstu ánum í norður Noregi af því þær eru fullar af hnúðlaxi á sama tíma og stofnar Atlantshafslaxins eru í lágmarki. Ekki er vitað með vissu hvort tengsl séu þarna á milli.

Hér á Íslandi er ástandið auðvitað langt frá því að vera orðið svona slæmt og verður vonandi ekki. Menn kippa sér ekki upp við að fá einn og einn hnúðlax en auðvitað vilja veiðimenn fá eitthvað annað á krókinn þegar fjárfest hefur verið í dýrum laxveiðileyfum. Það er stór munur á því að landa 5-10 kg laxi eða hnúðlaxi sem vegur 1-2 kg. Fyrrnefnt útlit hnúðlaxahænga er líka fráhrindandi og ef menn eru að veiða sér til matar eru gæði kjöts hnúðlaxa síðri. Fræðin segja jafnvel að þeir séu óætir eftir að þeir ganga kynþroska í árnar. Veiðimenn fara því margir hverjir ófögrum orðum um umræddan lax, kalla hann „ófögnuð“ eða „viðbjóð“ svo einhver dæmi séu nefnd. Svarið við spurningunni sem sett var fram í fyrirsögn þessa pistils er því nei! En við gætum þurft að læra lifa með hnúðlaxinum í ánum okkar.

Nauðsynlegt er að auka þekkingu á hnúðlöxum, líferni þeirra og útbreiðslu hér við land. Þess vegna er mikilvægt að stangveiðifólk viti hvernig hnúðlaxar líti út og skrái í veiðibækur ef þeir veiða slíka fiska. Þá hefur Hafrannsóknarstofnun biðlað til veiðimanna að senda sér sýni úr hnúðlöxum. Best er að fá fiskana í heilu lagi og þeir mega vera frosnir.

Guðrún Una Jónsdóttir er formaður Stangaveiðifélags Akureyrar.

Regnbogagífur og börkur gífurtrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
19. júní 2024 | kl. 11:00

Samtalsráðgjöf við spunagreind, leiðbeiningar fyrir mannfólk

Magnús Smári Smárason skrifar
18. júní 2024 | kl. 12:00

Stillansar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. júní 2024 | kl. 11:30

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00