Fara í efni
Pistlar

Bjargráð

Bjargráð er fallegt orð. Það er eitthvað traust, umhyggju- og kærleiksríkt við þetta orð. Bjargráð, „á bjargi byggði hygginn maður hús,“ segir í frægum sunnudagaskólasöng, bjargið bifast ekki, veitir góðan grunn og skjól.

Trúin er mörgum bjargráð og einnig hreyfing, jóga, hugleiðsla, sköpun, náttúruskoðun. Árið í ár, er ár bjargráðanna. Sem þjóð eða öllu heldur heil veröld höfum við þurft að virkja öll okkar helstu og bestu bjargráð til að halda höfði í krefjandi og framandi aðstæðum. Bjargráð byggjast upp af lönguninni til að taka ábyrgð á eigin líðan, eigin tilfinningum og síðan af reynslunni af því hreinlega að vera til. Bjargráð geta verið allskonar. Sálfræðingar, prestar og ráðgjafar af ýmsum toga hjálpa fólki gjarnan að koma auga á bjargráð, bæði þau sem búa í raun innra með manneskjunni en líka þau sem hún hefur aldrei komið auga á. Fagaðilar skapa ekki bjargráð handa skjólstæðingum sínum heldur hjálpa þeim að sjá þau yfir og allt um kring í lífinu. Lífið er nefnilega fullt af bjargráðum og þar sem eru áskoranir, sorgir, angist og erfiðleikar, þar eru yfirleitt líka bjargráð. Að þessu leyti er lífið í raun frekar sanngjarnt, það gerir kröfur til okkar en er um leið fullt af leiðum, stígum og vegum sem bjóða upp á allskonar stuðning, úrvinnslu, líkn og frið.

Í upphafi nóvembermánaðar var ég á mínum daglegu hlaupum um brekkuna þegar ég rakst á vinafólk mitt á göngu, hjón á miðjum aldri. Ég og konan sem um ræðir höfum báðar verið í veikindaleyfi á þessu ári og þarna var hún á göngu með sínum góða manni en haustið hefur reynst henni þungt í erfiðum veikindum. Sem ég staldra við á hlaupunum til að kasta á þau kveðju geri ég mér grein fyrir að í augum vinkonu minna er þreyta og sorg. Í vitneskjunni um hve mikið jólabarn hún er spyr ég hvort hún sé ekki eitthvað farin að skreyta heima hjá sér, þá birtist blik í auga og hún svarar mér að hún sé aðeins farin að setja upp seríur. „Blessuð góða, ég er byrjuð að skreyta stofuna,“ segi ég og sé um leið örvæntingarsvipinn í andliti eiginmannsins. Við kveðjumst og ég held mína leið. Síðar um daginn fæ ég skilaboð frá umræddri vinkonu, þar stingur hún upp á að við sendum hvor annarri mynd af einhverju jólaskrauti á hverjum degi út nóvembermánuð og meðfylgjandi sögu skrautsins ef einhver er.

Nú er nóvember búinn en áskorunin hélt alla daga mánaðarins utan eins sem var til marks um að hugur okkar beggja var upptekinn við annað, sem geta verið góðar fréttir. Í stuttu máli var þetta orðið tilhlökkunarefni hvers dags því téð vinkona á svo ævintýralega mikið og fallegt skraut að fyrir jólabarn eins og mig var þetta dálítið eins og verða skyndilega pennavinur jólasveinsins. Og svo fylgdu allskonar sögur og útskýringar og minningar af fólki lífs eða liðnu sem hafði gefið okkur skrautið eða tengst á einhvern hátt kaupum þess. Og allt í einu vorum við farnar að minna okkur á allskonar dýrmæt mannleg tengsl með þessum gjörningi sem á engan hátt var viðamikill eða flókinn. Og þótt skrautið væri vissulega fagurt var vitneskjan um að tilheyra öðru fólki bjargráðið í þessu öllu. Bjargráðin eru nefnilega allstaðar, þau eru oft ekki mjög flókin.

Ein svona áskorun getur á endanum reynst bjargráð, viljinn til að leita tilgangs og tengsla er sigurinn í öllum erfiðleikum. Að hafa skapandi huga og skapandi vilja er allt sem þarf. Ég þakka ónefndri vinkonu sálfræðiþjónustuna í gegnum jólaskrautið, hún veit hvað ég meina.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Ólæsir drengir og greindar stúlkur

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
27. júlí 2024 | kl. 06:00

Þræll þeirra Dufgussona?

Orri Páll Ormarsson skrifar
26. júlí 2024 | kl. 11:00

Afleiðingar hins græna lífsstíls

Sigurður Arnarson skrifar
24. júlí 2024 | kl. 10:00

OpenAI: Gervigreindarbyltingin á hraðferð – er kapp best með forsjá?

Magnús Smári Smárason skrifar
23. júlí 2024 | kl. 20:00

Er unga fólkið döngunarlaust?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
23. júlí 2024 | kl. 06:00

Þjóðvegir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. júlí 2024 | kl. 11:30