Fara í efni
Pistlar

Sú mikla kúnst að æsa fólk upp

Ég ólst upp í stórri fjölskyldu. Þegar ég var sjö ára bættist Helgi við er móðursystir mín giftist honum. Það voru oft fjörugar umræður við eldhúsborðið, ég sat alltaf og hlustaði. Þegar Helgi bættist í hópinn jókst fjörið til muna. Áður en að hann kom inn í fjölskylduna þá var það alltaf mamma sem átti síðasta orðið í öllum rökræðum. Helgi hafði undarlegt lag á að æsa mömmu upp, hann var rökfastur en skipti aldrei skapi, oft fór það svo að mamma rauk út og skellti hurðum. Helgi sat þá eftir og glotti.

Þannig leið tíminn. Þar til að kom að kosningum. Á kosningadaginn fóru mamma og Helgi á fjölmennan kosningafund. Þegar mamma kom til baka var hún í afar góðu skapi, sagðist aldrei hafa skemmt sér jafn vel á kosningafundi. Hún sagði að hún hefði fylgt Helga eftir þar sem að hann rökræddi við fólk úr öllum flokkum og var ekki sammála neinum. Og alltaf tókst honum að gera alla brjálaða en glotti bara sjálfur. Mamma og Helgi rökræddu aldrei eftir þetta, mamma hafði lært sína lexíu.

Málið var að Helgi er stríðinn með afbrigðum og ekkert finnst honum skemmtilegra en að stríða fólki með eldheitar pólitískar skoðanir. Þannig fólk æsist auðveldlega upp og þegar maður verður æstur hverfur dómgreindin oft. Mér verður oft hugsað til Helga þegar ég les pistla eftir einn þingmann. Hann er laginn við að æsa fólk upp. Sjálfur var ég nærri því að svara honum en tókst að forða mér frá að falla í gildru hans. Nú les ég skrif hans mér til skemmtunnar, ekki það að ég sé sammála honum, það er ég nánast aldrei, en tilhugsunin um að hann glotti yfir viðbrögðum fólks finnst mér skondin.

En hvað varðar Helga sem er giftur frænku minni, þá er hann einn vandaðasti maður sem ég hef kynnst, þrátt fyrir stríðnina. Líklega er þingmaðurinn stríðni ekki svo slæmur heldur.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Kvenfélagið Hlíf

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
19. mars 2024 | kl. 06:00

Lagning

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. mars 2024 | kl. 11:30

Í leikhúsi hugans

Jón Óðinn Waage skrifar
17. mars 2024 | kl. 11:50

Hvar fær maður svona engisprettu?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:00

Hin evrópska olía: Olea europaea L.

Sigurður Arnarson skrifar
13. mars 2024 | kl. 10:25

Siginn fiskur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. mars 2024 | kl. 11:30