Fara í efni
Pistlar

Af flökkusögum og þrálátum orðrómi

Þegar ég var lítill polli í Kópavogi í gamla daga, uppúr miðri 20. öldinni lærðum við pollarnir fljótt hugtakið „kjaftakerling“. Það fréttist af kerlingum sem báru sögur milli húsa, bæjarhluta eða jafnvel sveitarfélaga. Það var samt þónokkur akstur inn í borgina sem síðar var nefnd Borg óttans af háðfuglum fyrir norðan og ekki var netsamband af nokkru tagi komið til sögu. Kerlingarnar í Kópavogi báru allskyns flökkusögur á milli, til dæmis flutti ein þær fréttir að stjórnvöld hefðu ákveðið að ýta Esjunni í Kollafjörðinn. Þetta varð þó aldrei mjög þrálátur orðrómur og enn blæs og blæs á Kjalarnesi eins og enginn sé morgundagurinn. Og fleiri voru þær sögurnar sem hafðar voru eftir þessum athafnakonum sem gáfu lífinu í Kópavogi lit. Þetta ólst maður upp við í sveitaþorpinu utan við Reykjavík.

En flökkusögur og þrálátir orðrómar hafa lifað af öll hallærin sem frá Bítlaárunum hafa dunið yfir, eins og óðaverðbólgufaraldurinn uppúr 1980, Hrunið og nú síðast kórónuveiru­faraldurinn. Þær hafa heldur en ekki tekið flugið í faraldrinum sem enn stendur, fyrst og fremst þó varðandi fjöldabólusetningarnar sem um daginn voru fyrirhugaðar í öllum helstu íþróttamannvirkjum höfuðborgarsvæðisins að minnsta kosti. Menn nánast byrjaðir að raða þar borðum og stólum í fögnuðinum þegar ótíðindin dundu yfir. Allt reyndust þetta vera að mestu leyti orðrómar og flökkusögur. Mætasta fólk hafði greinilega treyst mætasta fólki fyrir upplýsingum um málið og traustustu heimildir reyndust „allt tómt djöfulsins feik“, eins og Tolli og Megas sungu forðum. Flökkusögurnar fara hraðar á milli manna nú á tímum netsins og hinna einstaklingsbundnu miðla sem hýsa á fjórða hundrað þúsund fréttastofur. Í dag verður ein fjöður að fimm hænum á augabragði. Í samanburðinum blikna kjaftakerlingarnar frá í gamla daga. Umfangið og yfirferðin voru lítil á tímum svarthvítra sjónvarpa og samskipta sem oftar en ekki byggðu á heimsóknum milli fólks. Þær mega sín lítils í samanburðinum við nútímann, þó reyndar hafi áreiðanleiki flökkusagnanna heldur minnkað ef eitthvað er.

Grétar Þór Eyþórsson er stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Sjálfbær lífsstíll og sálfræðilegir þröskuldar

Auður H. Ingólfsdóttir skrifar
24. mars 2023 | kl. 15:00

Keðjuverkanir

Sigurður Ingólfsson skrifar
23. mars 2023 | kl. 06:00

Hús dagsins: Fróðasund 10

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
22. mars 2023 | kl. 09:00

Elsku vinur minn, Arnar

Jón Óðinn Waage skrifar
21. mars 2023 | kl. 11:00

Hvað er svona merkilegt við greni?

Sigurður Arnarson skrifar
21. mars 2023 | kl. 10:15

Ráðgátan um vatnsflutninga

Sigurður Arnarson skrifar
15. mars 2023 | kl. 10:10