Veldu þinn takt á aðventunni
HEILSA – 4
Þegar desember rennur í garð verða oft miklar breytingar á daglegu lífi okkar. Jólaljósin kvikna, dagarnir styttast og samfélagið fer í annan gír. Fyrir marga er þetta tími gleðistunda en fyrir aðra er þetta einnig tími streitu og þreytu. Fyrir okkur flest er þetta jafnvel einhver blanda af þessu öllu.
Auglýsingum og kauptilboðum rignir yfir okkur. Eins og kveikt hafi verið á ósýnilegum rofa í samfélaginu sem kallar á „meira, stærra, hraðar“.
Verkefnalistinn, sem var langur fyrir, lengist. Við þurfum að undirbúa, versla og skipuleggja. Við reynum að standa okkur vel í öllu. Sinna fólkinu okkar, halda hefðum á lofti og búa til einhverja ákveðna stemningu. Þetta gerum við líka oftast án þess að láta hefðbundin verkefni sitja á hakanum og bætum bara frekar við verkefnalistann. Hlaupum hraðar og gerum meira. Hugurinn kannski á einum stað en líkaminn á öðrum. Áður en við vitum af erum við jafnvel komin á sjálfsstýringuna og hraðinn orðinn meiri en góðu hófi gegnir.
Það er fullkomlega eðlilegt að verða fyrir áhrifum af þessum breytta takti og undirrituð hefur sjálf oftar en ekki fundið fyrir streitunni sem getur fylgt þessum árstíma. En þegar við gefum okkur augnablik til að staldra við og draga andann djúpt, þá minnir aðventan okkur líka á að hún þarf ekki fyrst og fremst að vera tími verkefna. Hún getur líka verið tími til þess að hlusta inn á við. Tími til þess að velja okkar eigin takt. Að velja það sem nærir okkur. Að setja í forgang það sem passar best fyrir okkur í stað þess að elta tilbúnar kröfur samfélagsins.
Þegar við spyrjum okkur „hvað þarf ég?“ í stað þess að spyrja „hvað á ég að gera?“ þá gerist eitthvað fallegt. Líkaminn andar dýpra. Hugurinn róast. Hjartað fær meira pláss og við finnum betur taktinn sem býr innra með okkur í stað þess að sveiflast með taktinum sem er í gangi fyrir utan okkur.
Hvað skiptir okkur máli?
Þegar lífið fer í of hraðan gír geta mörkin okkar líka orðið óljósari. Okkur hættir þá frekar til að segja „já“ þegar okkur langar í raun til að segja „nei“. Við stökkvum til þegar við hefðum frekar þurft hvíld. Því meiri sem hraðinn og streitan er, því erfiðara verður að greina mikilvæg verkefni frá þeim sem skipta okkur minna máli.
Ég heyrði eitt sinn dæmisögu sem skaut rótum sínum innra með mér:
Kennari stendur fyrir framan hóp nemenda með stóra glerkrukku. Hann fyllir hana fyrst með stórum steinum og spyr nemendurna hvort krukkan sé full. Nemendurnir svara játandi. Þá bætir hann við smærri steinum, síðan sandi og að lokum vatni og allt kemst ofan í.
Kennarinn bendir svo á að ef hann hefði byrjað á sandinum hefði aldrei verið pláss fyrir stóru steinana. „Stóru steinarnir,“ segir hann, „eru það sem skiptir þig mestu máli í lífinu. Settu þá fyrst.“
Þessi dæmisaga er einföld, en hún hittir mann beint í hjartastað. Hún minnir okkur á að ef við fyllum dagana með aukaatriðum, sandinum, þá verður síður rými fyrir það sem raunverulega skiptir okkur máli.
Sagan um stóru steinana er kærkomin áminning um að spyrja sig:
Hvað skiptir mig raunverulega máli á þessum tíma?
Hverjar eru minningarnar sem ég vil skapa?
Flestir sem velta þessum spurningum fyrir sér fá skýr svör.
Eitthvað stendur upp úr.
Hjartað veit.
Að setja mikilvægustu hlutina í forgang og leyfa verkefnum sem skipta minna máli að mæta afgangi. Oft er það eitthvað svo ofur einfalt. Eins og samvera með þeim sem okkur þykir vænt um. Það er auðvelt að gleyma sér í því að gera. Þess vegna er það svo dýrmætt og mikilvægt, sérstaklega á annasömum tímum, að leyfa okkur líka bara að vera.
Veldu þinn takt
Þessi árstími er ekki eins fyrir neinn. Það er engin réttur eða rangur taktur sem þarf að fylgja á aðventunni, frekar en á öðrum tímum ársins. Við þurfum ekki að vera endalaust dugleg, skipulögð eða bjartsýn. Verkefnin eru mörg og þau bætast ofan á þau sem voru þar til staðar fyrir. Tilfinningarnar eru alls konar. Desember þarf ekki að vera fullkominn, hann má bara vera alskonar. Og kannski er það stærsta gjöfin sem við getum gefið okkur sjálfum og okkar nánustu á þessari aðventu: Að muna hvað það er sem skiptir okkur mestu máli og setja það í forgang.
Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir er kennari í markþjálfun, með alþjóðlega PCC vottun og önnur eigenda Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar. Pistlar hennar og Guðrúnar Arngrímsdóttur birtast annan hvern þriðjudag á akureyri.net.
Fjalla-Bensi
Hús dagsins: Aðalstræti 42
Úrillt og ráðvillt trippastóð
Strandrauðviður