Fara í efni
Pistlar

Þakklæti

HEILSA – 5

Það er auðvelt að detta í og dvelja í gryfju samanburðar og sjálfsefa á tímum samfélagsmiðla þar sem við fáum daglega innsýn í líf annarra, oft í sinni fallegustu og fáguðustu mynd. Það er hætt við að við berum okkar eigin veruleika, eins og hann er hér og nú, saman við þessar brotakenndu myndir.

Samanburður er sagður vera þjófur gleðinnar og þegar við berum líf okkar saman við líf annarra missum við stundum sjónar á því sem er gott og gleðilegt í okkar eigin lífi. Við erum oftast skynsöm og vitum vel að lífið er alls konar og að ekkert er fullkomið neins staðar. Samt getur þetta stöðuga áreiti haft djúp áhrif á okkar innri líðan. Hjá mörgum kvikna tilfinningar um að vera aldrei nóg og gera aldrei nóg.

Ein leið til að styðja við eigin vellíðan er að rækta með sér þakklæti. Ekki sem kröfu um að vera alltaf jákvæð, heldur sem meðvitaða æfingu í að beina athyglinni að því sem við höfum og hvað er gott í lífi okkar.

Rannsóknir sýna að regluleg iðkun þakklætis tengist aukinni hamingju, betri heilsu, aukinni seiglu gagnvart streitu og dýpri tengslum við aðra. Þakklæti hjálpar huganum að færa fókusinn frá skorti yfir í gnægð, að sjá það sem er til staðar en ekki aðeins það sem vantar.

Þakklæti er ekki persónueinkenni sem maður annað hvort hefur eða ekki. Það er tilfinning og hugarástand sem hægt er að þjálfa. Heilinn er mótanlegur og með endurtekningu styrkjum við þær taugabrautir sem tengjast jákvæðum upplifunum. Þess vegna geta einfaldar æfingar, eins og að skrifa niður það sem við erum þakklát fyrir, haft djúpstæð og varanleg jákvæð áhrif á líðan.

Að staldra reglulega við og skrifa niður stór atriði sem smá, eins og góðan kaffibolla, nærandi samtal, þak yfir höfuðið o.s.frv., eykur næmni okkar fyrir því sem er gott. Smám saman fer hugurinn að taka sjálfkrafa meira eftir því sem gengur vel. Þakklæti hættir að vera verkefni og verður að viðhorfi.

Þakklæti breytir ekki aðstæðum en það breytir upplifuninni af þeim. Þakklæti gerir það sem við höfum nóg. Og stundum er það einmitt það sem við þurfum, ekki meira, heldur aukin meðvitund um það sem við höfum.

Ég hvet þig til að prófa að halda þakklætisdagbók í eina viku. Skrifa á hverjum degi eitthvað þrennt sem þú getur þakkað fyrir í þínu lífi. Ekki til að bæta þig eða laga, heldur til að tengjast þér. Kannski tekurðu eftir aukinni gleði, meiri ró eða einfaldlega meiri nærveru í hversdeginum. Ef þú tekur ekki eftir neinu sérstöku þá er það líka í lagi því það að staldra við og taka eftir er þegar mikilvægt skref í átt að vellíðan.

Guðrún Arngrímsdóttir er þjálfari og markþjálfi með diplómu í jákvæðri sálfræði ásamt því að vera önnur eigenda Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar. Pistlar hennar og Hrafnhildar Reykjalín Vigfúsdóttur birtast annan hvern þriðjudag á akureyri.net.

Þegar mamma eyðilagði jólin

Þráinn Lárusson skrifar
14. desember 2025 | kl. 17:00

Orustan um Waterloo

Jóhann Árelíuz skrifar
14. desember 2025 | kl. 06:00

Gefjun skóp ekki annan Játvarð Loðvík

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 12:00

Hvenær kemur flugstöðin?

Sverrir Páll skrifar
10. desember 2025 | kl. 17:00

Gráþröstur

Sigurður Arnarson skrifar
10. desember 2025 | kl. 12:30

Þannig týnist tíminn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
08. desember 2025 | kl. 10:00