Fara í efni
Íþróttir

Tryggvi gerði 28 mörk í 18 leikjum KA 1986

Tryggvi Gunnarsson gerir hið fyrsta af þremur mörkum gegn KS á Akureyrarvelli 18. júlí 1986. Mynd: Skapti Hallgrímsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 98

Tryggvi Gunnarsson var í miklum ham með knattspyrnuliði KA í næst efstu deild Íslandsmótsins sumarið 1986. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 28 mörk í 18 leikjum, sem var met í 2. deild (eins og næst efsta deildin nefndist í þá daga). Þegar mótið var gert upp um haustið varð niðurstaðan reyndar sú að Tryggvi hefði gert 17 mörk í leikjunum 18; nánar um það hér að neðan.

KA og Völsungur frá Húsavík fóru þá upp í efstu deild; KA varð í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Völsungi sem sigraði Selfoss í lokaumferðinni á heimavelli og komst upp í deild þeirra bestu í fyrsta skipti. Völsungar léku í efstu deild 1987 og 1988.

Á gömlu íþróttamyndinni að þessu sinni skorar Tryggvi hið fyrsta af þremur mörkum sem hann gerði í 3:1 sigri á KS frá Siglufirði á Akureyrarvelli – gamla íþróttavellinum við Hólabraut – föstudagskvöldið 18. júlí 1986. Sá leikur var sögulegur því tveir Siglfirðingar voru reknir af velli; Hafþór Kolbeinsson á 54. mín. og fyrirliðinn, Jakob Kárason, á 80. mín.

Það var Hafþór sem kom KS í 1:0 í fyrri hálfleik en Tryggvi jafnaði með skalla um miðjan þann seinni eftir fyrirgjöf Friðfinns Hermannssonar. Fyrir aftan Tryggva á myndinni er Hinrik Þórhallsson, sem lagði upp annað markið á 82. mín. og skömmu síðar gerði Tryggvi þriðja markið, úr vítaspyrnu.

Þegar þarna var komið sögu hafði Tryggvi gert 17 mörk í 11 leikjum og þegar upp var staðið hafði hann gert 28 mörk í leikjunum 18 eins og fram kom í upphafi. Þrátt fyrir það skoraði Tryggvi „ekki nema“ 17 mörk í leikjunum 18 samkvæmt opinberri tölfræði. Þannig var mál með vexti að lið Skallagríms úr Borgarnesi tapaði öllum 18 leikjunum og markatala liðsins var vægast sagt skrautleg; Borgnesingar gerðu 4 mörk en fengu á sig 99, í 18 leikjum – en reyndar bara í 17 leikjum! Í síðustu umferðinni átti Skallagrímur að mæta ÍBÍ á Ísafirði en mætti ekki; Borgnesingar gáfu leikinn og skv. reglum KSÍ reiknaðist markamismunur annarra liða ekki í leikjum þar sem viðkomandi lið á í hlut, eins og það var orðað. Mótanefnd ákvað einnig að mörk sem skoruð voru gegn Skallagrími um sumarið yrðu heldur ekki talin með, og þar með gufuðu 11 mörk Tryggva Gunnarsson upp á svipstundu!

  • Í fyrri leik KA og Skallagríms, sem fram fór í Borgarnesi 24. júní, gerði Tryggvi Gunnarsson 5 mörk í 9:0 sigri og í þeim seinni bættu bæði KA-liðið og Tryggvi um betur; KA vann 13:0 á Akureyrarvelli 30. ágúst og Tryggvi gerði 6 mörk.
  • Til gamans má geta þess að sá sem þetta skrifar tók viðtal við „markamaskínuna“ Tryggva sem birtist í Akureyrarblaði Morgunblaðsins 5. júlí. Smellið hér til að sjá viðtalið: Meðfæddur hæfileiki!