Vinir á verðlaunapalli nýkomnir af ÓL 1976
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 111
Eftir hálfa aðra viku verða 50 ár síðan Vetrarólympíuleikar hófust í Innsbruck í Austurríki. Þeir stóðu frá 4. til 15. febrúar 1976. Akureyringarnir þrír á myndinni kepptu þar allir, bæði í svigi og stórsvigi, en myndin er tekin rúmum mánuði eftir að leikunum leik; vinirnir eru þarna á verðlaunapalli að loknu Hermannsmótinu í Hlíðarfjalli, móti sem kennt var við Hermann Stefánsson, íþróttafrömuð og íþróttakennara við Menntaskólann á Akureyri.
Haukur Jóhannsson, á efsta palli, var maður mótsins; sigraði bæði í stórsvigi og svigi, og vann þar með alpatvíkeppnina og Hermannsbikarinn. Haukur lést á dögunum eftir erfið veikindi og var jarðsunginn í gær.
Til vinstri er Árni Óðinsson sem varð annar í svigi og þriðji í stórsvigi. Til hægri er Tómas Leifsson sem varð í öðru sæti í stórsvigi og þriðji í svigi.
Keppni var æsispennandi og til gamans er hér vitnað í frásögn í Akureyrarblaðinu Íslendingi:
Á laugardegi var keppt í stórsvigi: Tómas Leifsson hafði bestan brautartíma eftir fyrri umferðina í stórsviginu, með rúmlega hálfri sek. betri tíma en Haukur. En Haukur vann upp forskot Tómasar í seinni umferðinni, og aðeins betur, því hann sigraði, með aðeins 9 sekúndubrotum betri tíma en Tómas, sem varð annar. Samanlagður tími Hauks var 137.43, Tómasar 137.52 og Árni Óðinsson varð þriðji á 139.89 sek.
Daginn eftir var keppt í svigi: Ólympíufararnir, Haukur, Árni og Tómas, röðuðu sér í efstu sætin og það voru aðeins sekúndubrot sem skildu þá að. Haukur varð fyrstur á 94.30 sek., Árni annar á 94.40 sek. og Tómas þriðji á 95.04 sek.