Fara í efni
Íþróttir

Harðjaxlinn hugljúfi í Herradeild JMJ

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 106

Því verður fagnað með köku og konfekti í Herradeild JMJ í dag að Ragnar Sverrisson hefur starfað þar í heil 60 ár! Raggi í JMJ er þekktur fyrir glaðværð og þjónustulipurð, þegar hann selur körlum – og konum, í pakkann handa karlinum – jakka og buxur, hálsbindi eða hanska. Þekktur sem lipur og farsæll sölumaður en þegar hann lék handbolta í gamla daga dugðu engin vettlingatök. Raggi var línumaður og grjótharður varnarmaður. Hann var í Þórsliðinu sem sigraði í 2. deild Íslandsmótsins vorið 1973 og komst þar með upp í efstu deild. Það var í fyrsta skipti sem lið frá Akureyri náði því markmiði. Nánar um það hér.

Í tilefni dagsins er vitaskuld tilvalið að gamla íþróttamyndin að þessu sinni sé af Ragnari. Hér er hann í færi gegn Stjörnunni úr Garðahreppi (sem nú heitir Garðabær) í næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta árið 1972. Liðin mættust í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi og Þórsarar unnu stórsigur, 31:11. Ragnar gerði tvö mörk í leiknum.