Leikfimisýning á gamla KA-vellinum á Eyrinni
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 108
Hópur KA-stúlkna sýndi leikfimi á Alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930 undir stjórn Hermanns Stefánssonar. Gera má ráð fyrir að þessi gamla íþróttamynd dagsins sé tekin á svipuðum tíma því stúlkurnar eru í samskonar búningum hér og á mynd sem til er af hópnum sem sýndi á Þingvöllum 28. júní 1930. Þremur árum síðar „sótti stjórn K.A. um löggildingu á fimleikabúningi fyrir kvenfólkið; – bláum ermalausum kjól með félagsmerki K.A. í brjósti,“ segir Jón Hjaltason í bókinni Knattspyrnufélag Akureyrar – Saga félagsins í 60 ár í máli og myndum, sem kom út 1988.
Þessi mynd er tekin á gamla KA-vellinum á Oddeyri, þar sem nú er lóð Oddeyrarskóla; er hugsanlegt að þetta sé á þjóðhátíðardaginn sama ár, sýning og um leið einskonar æfing fyrir stóru stundina á Þingvöllum? Gaman væri ef lesendur gætu gefið upplýsingar um það. Hópurinn sem fór á Alþingishátíðina var að vísu fámennari, þar sýndu 12 KA-stúlkur undir stjórn Hermanns Stefánssonar.
Jón Hjaltason segir frá því í áðurnefndri bók að leikfimihópurinn hafi gengið frá Álafossi (í Mosfelssveit) að Þingvöllum, um 35 kílómetra leið!
Í bók Magnúsar Jónssonar, Alþingishátíðin 1930, sem kom út 1943, segir: „Í eftirmiðdag laugardagsins 28. júní fór fram leikfimisýning 125 leikfimimanna á íþróttapallinum. Þetta var þá lang stærsta íþróttahópsýning sem fram hafði farið á Íslandi og þótti áhorfendum mikið til þess koma hve samhæfðir og glæsilegir leikfimimennirnir 51 voru í æfingum sínum. Að þessari sýningu lokinni kom fram á íþróttapallinn fámennari hópur leikfimikvenna frá Akureyri og sýndi listir sínar. Var þeim einnig afar vel tekið af áhorfendum.“
KA-konurnar sem sýndu á Þingvöllum voru: Guðfinna Bjarnadóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Hulda Kristjánsdóttir, Ingibjörg Steingrímsdóttir, Ingileif Jónsdóttir, Jóna Kristín Baldvinsdóttir, Kristjana Austmar, Margrét Steingrímsdóttir, Nanna Guðmundsdóttir, Nanna Tuliníus, Sigurveig Guðmundsdóttir og Þórhildur Steingrímsdóttir.