Fara í efni
Íþróttir

Alfreð var þekktur fyrir sín þrumuskot

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 103

Alfreð Gíslason, kunnasti handboltamaður sem Akureyringar hafa eignast, hefur þjálfað landslið Þýskalands í nokkur ár eins og flestum ætti að vera kunnugt. Lærisveinar hans mættu Íslendingum í vináttulandsleik í Nürnberg á fimmtudagskvöldið og þjóðirnar etja kappi öðru sinni á morgun, þá í München. Þjóðverjarnir skutu „Strákana okkar“ hreinlega á bólakaf á fimmtudagskvöldið, unnu 42:31 og skoruðu mikið með þrumufleygum utan af velli. 

Alfreð var einmitt þekktur fyrir sín þrumuskot á árum áður og meðfylgjandi mynd er því vel hæfi sem sú gamla að þessu sinni. Hann hrellti andstæðingana fyrst með KA, síðan KR, Tusem Essen í Þýskalandi, spænska liðinu Elgorriaga Bidasoa og loks KA á ný, eftir að hann sneri aftur heim árið 1991. Alfreð lék þá með KA í nokkur en hóf jafnframt þjálfaraferilinn, einn þann glæsilegasta sem sögur fara af. Myndin er tekin í „gömlu, góðu“ íþróttaskemmunni – Skemmunni – á Oddeyri í leik KA og Þórs seint á áttunda áratug síðustu aldrei. Alfreð hefur þarna hleypt af og telja verður meiri líkur en minni á því að boltinn sé á leið í netmösvkana á því augnabliki sem ljósmyndarinn smellti af. Þórsararnir eru Gunnar Malmquist Gunnarsson, til vinstri, og Arnar Guðlaugsson.