Fara í efni
Íþróttir

Sigurlaug og Sigríður á Þórsvellinum 1984

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 95

Akureyrarfélögin tefldu á árum áður hvort fram sínu liði í meistaraflokki kvenna í knattspyrnu. Gamla íþróttamyndin að þessu sinni var tekin á Þórsvellinum sunnudaginn 24. júní 1984 þegar bæði léku í efstu deild. Það eru Þórsarinn Sigurlaug Jónsdóttir, til vinstri, og KA-maðurinn Sigríður Jóhannsdóttir, sem berjast þarna um boltann. Myndina tók Kristján Arngrímsson og birtist hún í Degi daginn eftir leikinn.

Íslandsmót kvenna fór fram með þeim hætti 1984 að keppt var í tveimur svæðaskiptum riðlum en það fyrirkomulag var einungis reynt þetta eina sumar. Í A-riðli voru lið á vesturhelmingi landsins: ÍA, Breiðablik, Valur, BÍ frá Ísafirði, KR og Víkingur en í B-riðli léku félög í austurhlutanum: Þór, KA, Súlan frá Stöðvarfirði og Höttur frá Egilsstöðum. Efstu lið hvors riðils mættust síðan í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Sigurlaug og samherjar hennar unnu heimaleikinn 1:0 með marki Önnu Einarsdóttur úr vítaspyrnu en KA vann síðan 1:0 á heimavelli þar sem Hrefna Magnúsdóttir gerði eina markið.

Þór vann Hött og Súluna örugglega, bæði heima og að heiman og KA var heldur ekki í neinum vandræðum með Súluna, hvorki á Akureyri né Stöðvarfirði, og vann Hött örugglega á Egilsstöðum. KA-stelpurnar urðu hins vegar að gera sér jafntefli að góðu gegn Hetti á heimavelli og Þór sigraði því í riðlinum.

Þórsarar mættu Akurnesingum í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Valbjarnarvelli í Laugardal 25. ágúst og Skagamenn höfðu betur. Anna Einarsdóttir kom Þór yfir snemma leiks en ÍA vann 4:1 og varð þar með Íslandsmeistari í fyrsta skipti í kvennaflokki.