Fara í efni
Pistlar

Sigmundur geðlæknir

Sigmundur Sigfússon geðlæknir á Akureyri lést þann 29. janúar síðastliðinn og var jarðsunginn frá Akureyrarkirkju 22. febrúar.

Ég kynntist Sigmundi fyrst tvítug að aldri er ég sótti til hans læknishjálp sökum mikils kvíða. Það voru allra fyrstu kynni mín af geðheilbrigðisþjónustunni og þau voru góð og réðu án efa miklu um framhaldið, að maður hefði kjark byggðan á góðri reynslu til að sækja sér meiri hjálp.

Þegar ég hugsa nú til Sigmundar öllum þessum árum síðar, en við áttum líka eftir að eiga góð samskipti á faglegum grunni, þá hugsa ég að hann hafi verið læknir með stórum staf. Það er nefnilega í öllum störfum hægt að vera sérfræðingur en það eru ekki allir sem starfa af hugsjón eins og Sigmundur gerði. Hann var að sjálfsögðu sérfræðingur í geðsjúkdómum með kjarngóða menntun í farteskinu en hann var þó umfram allt læknir. Sigmundur var læknir vegna þess að hann líknaði og læknaði ekki bara með meðölum vísindanna heldur umhyggju og kærleika mennskunnar. Það skipti engu máli hvort ég talaði við Sigmund sem sjúklingur, prestur eða aðstandandi, hann var alltaf hinn sami, maður sem virti fólk og þótti vænt um það.

Ég á líka reynslu af því að hafa fengið símtöl frá Sigmundi þar sem hann bað mig sem prest um að taka á móti skjólstæðingum sínum sem hann taldi að hefðu kannski meira gagn af því að tala við prest en geðlækni, væru ekki endilega að glíma við sjúkdóma heldur bara sammannlega sorg. Þarna kristallaðist líka auðmýkt Sigmundar gagnvart því hlutverki sem honum var falið. Og almáttugur minn hvað ég hef oft setið með fólki inn á skrifstofu minni sem taldi sig eiga honum allt að þakka eftir margra ára stuðning og aðgang sem kannski tíðkast síður í dag.

Eftirlætis litur Sigmundar var grænn eins og mosinn. Grænn er litur gróandans, litur þroska og vaxtar. Í græna litnum er kyrran, staðfestan, hæglætið, traustið, já náttúran í dýpt sinni. Þegar maður hugsar um manninn Sigmund Sigfússon sér maður fyrir sér fjall, mosagróið visku, í andlitinu gilskorningar reynslunnar. Árniður í þögninni, þögn sem segir meira en þúsund orð, þögn sem segir, ég heyri og skil, þér er óhætt. Og svo birtist bros, glettið, bjart, sólríkt en um leið yfirvegað, sposkt, svolítið eins og lítill lækur sem sprettur óvænt fram við fjallsbrúnina.

Það eru svo margir sem sakna Sigmundar og eiga honum mikið að þakka. Við sem störfum í Akureyrarkirkju kveðjum hann með miklum söknuði, í kirkjunni söng hann oft með kórnum sínum Hymnódíu, gnæfði yfir hópinn, hávaxinn, svipmikill, íhugull. Ég man að ég hugsaði oft hvað það hlyti að vera mikil handleiðsla og þerapía fyrir Sigmund að eiga tónlistina samhliða sínu krefjandi starfi og þann góða félagsskap um leið. Maður er svo glaður og þakklátur fyrir að svo gjöfull maður hafi átt sér gott og nærandi athvarf í tónlistinni.

Það er margt að þakka þegar Sigmundar Sigfússonar er minnst. Fólk eins og hann er salt og ljós heimsins. Guð blessi minningu hans.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00