Fara í efni
Pistlar

Serie A

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 78

Skiptimyntin var skýr; leikaramyndir af öllu tagi, en einkanlega af allra þekktustu Hollywoodstjörnunum sem virtust eilíflega geisla af hæfileikum og þokka.

En sjálfur yrði maður aldrei svona fallegur.

Og til að laga það allt saman, sjálfum sér í lið, safnaði maður stjörnunum af meiriháttar kúnst, og hafði til þess regluverk sem jafnaðist á við það alvarlegasta sem fullorðinna manna fjármagnskerfi hafði þróað með sér um áraraðir.

En myndirnar voru sérmerktar – og bókstafirnir sem fylgdu þeim, gáfu til kynna hvað þær voru af skornum skammti, en það merkti náttúrlega dýrmeti og sókn eftir fágætum hlutum.

Á býsna líflegum og löngum söfnunarferli okkar krakkanna á Akureyri, eftir því sem æskuárunum vatt fram, urðu einstaka myndir svo eftirminnilegar að það var haldið í þær eins og ættargripi. Í mínu tilviki voru það Serie A myndirnar af Sophiu Loren og Charlton Heston. Og það tók mig raunar nokkurn tíma að átta mig á því í hvaða fjársjóð ég hafði nælt. Í báðum tilvikum, muni ég það rétt, var skiptimyntin einhverjar ræfilslegar Serie F myndir af Rock Hudson sem öllu yngri vinur minn var svo óheppinn að leggja lag sitt við. Og þótt Rock væri ofurstjarna, hugsaði ég, var hann ekkert á við Loren og Heston. Svo ég fékk þau tvö fyrir tíu Hudsona.

Æ síðan hafa þau verið eign á mínu heimili, Sophia og Charlton, nefnilega Serie A og ekkert minna að vigt og virðingu. Og enda þótt ég hafi ekki fengið löggilta fjármálasérfræðinga til að meta verðgildi þeirra á núvirði, eða þaðan af stærri tryggingamógúla í alla þá tölfræði, hef ég fundið það einhvern veginn með árunum að eignasafnið, þótt lítið sé að vexti, er persónulegra en peningur.

Og það merkir að eiga sínar stjörnur. Út yfir gröf og dauða.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: EXPORT

Uppá eldhússkápnum

Jóhann Árelíuz skrifar
04. maí 2025 | kl. 10:00

Heilbrigt vantraust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. maí 2025 | kl. 06:00

Njósnir í skólastofunni

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
03. maí 2025 | kl. 07:45

Sístöðulaust óhljóð frá hjartanu

Orri Páll Ormarsson skrifar
02. maí 2025 | kl. 11:00

Blágreni

Sigurður Arnarson skrifar
30. apríl 2025 | kl. 16:30

Hús dagsins: Minjasafnskirkjan (Aðalstræti 56)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. apríl 2025 | kl. 13:45