Fara í efni
Pistlar

Rúningsrólan

Mig langar að þakka kærlega fyrir góðar viðtökur við pistlinum sem ég skrifaði um daginn. Þær fóru fram úr væntingum. Að vísu voru nokkrir sem sögðust vera móðgaðir fyrir mína hönd yfir titlinum „miðaldra kona á Brekkunni“ en þeir voru nú á aldur við mig þannig að þeir eru ekki alveg hlutlausir.

Í rúmlega 12 ár hef ég verið starfsmannastjóri hjá Norðlenska sem er, eins og allir ættu að vita, fyrirtæki í eigu bænda á Norður- og Austurlandi. Í starfinu hef ég kynnst mörgum bændum og verð að segja að bændur eru skemmtilegasta fólk sem ég þekki. Þeir kunna fullt af sögum, eru sérvitrir, hlægja mikið, borða mikið, vinna mikið, sumir drekka mikið og allir sem ég þekki hafa gaman að nettri tvíræðni.

Um þetta leyti árs fyrir nokkrum árum var ég á jólahlaðborði með samstarfsfólki mínu á Höfn í Hornafirði. Ég sat til borðs með ungum og bráðmyndarlegum bóndasyni sem ég var aðeins málkunnug og fannst ég þurfa að brydda upp á einhverju umræðuefni við hann. Ég vildi helst ekki koma upp um hvað ég veit lítið um umhirðu búfénaðs svo nú var mikilvægt að vanda sig.

Þó það væri „þessi tími ársins“ hjá bændum kunni ég ekki við að spyrja hvort hann væri eitthvað farinn að hleypa til. Það gæti leitt samtalið út á hálan ís. Þannig að ég valdi skothelt umræðuefni sem ekki var hægt að misskilja og spurði hvort hann væri ekki að taka þátt í rúningi með sveitungum sínum og hvort þetta væri ekki hunderfitt djobb. „Jú“ sagði hann „en þetta er allt orðið mikið auðveldara eftir að ég fékk rúningsróluna“. Ég þagnaði ... hafði aldrei heyrt um rúningsrólu og varð því líklega frekar skrítin á svipinn. Þetta var greinilega maður með metnað, svona rúningsróla var örugglega rándýr! Í hausnum á mér hringsóluðu myndir af þeim rólum sem ég hafði kynnst, barnarólum og svo rólum fyrir fullorðna sem ég hef reyndar bara séð á mynd en hef enga reynslu af, miðaldra konan. Í hvelli þurrkaði ég myndir af þessum rólum úr hausnum á mér svo ég kæmi ekki upp um mig. „Já, þú segir nokkuð“ sagði ég til að kaupa mér tíma. „Hvernig virkar svona rúningsróla?“ „Festirðu kindina í henni? Ekki geturðu rúið hana ef hún er á fleygiferð, sparkandi og spriklandi!“ Hann horfði á mig smá stund þangað til hann fattaði hvað ég hafði verið að hugsa. Sagði svo, sallarólegur en glottandi: „Jóna, rólan er fyrir mig, ég leggst í róluna – ekki rollan.“

Já maður er ekki alltaf gáfulegur þótt hámenntaður og reynslumikill sé. En þá er gott að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Maður lærir nefnilega ekkert nema maður spyrji stundum heimskulega.

Jóna Jónsdóttir er „miðaldra kona á Brekkunni!“

Hrossakjöt í þriðja hvert mál

Orri Páll Ormarsson skrifar
20. september 2024 | kl. 06:00

Skógar sem vatnsdælur

Sigurður Arnarson skrifar
18. september 2024 | kl. 10:30

Temjum tæknina III: Uppfærð kortasjá og ný heimasíða

Magnús Smári Smárason skrifar
17. september 2024 | kl. 14:15

Skemman

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. september 2024 | kl. 13:00

Víti til varnaðar

Jóhann Árelíuz skrifar
15. september 2024 | kl. 06:00

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00