Fara í efni
Pistlar

Ómegð

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 72

Systkinahópurinn í Espilundinum þótti heldur smár í sniðum. Við vorum ekki nema fjögur börnin þeirra mömmu og pabba, strákar tveir og annað eins af stelpum. Og svona í samanburði við önnur heimili á Syðri Brekkunni, þótti þetta nokkuð vel sloppið frá ómegðinni sem annars staðar þreifst á þeirri torfunni.

Svo þið eruð ekki nema fjögur, var vanalega sagt í vandræðalegum spurnartón, ef heimilisaðstæður okkar bar á góma, en í seimnum sem dreginn var í einni og sömu hnýsninni, lá auðvitað efasemdin og undirtónninn um að eitthvað væri að í hjónalífi foreldra okkar. Þau gætu þá ekki átt fleiri börn.

Því vanalega voru þau sex á hverju heimili um þetta leyti aldarinnar, og ekkert sérlega óviðeigandi þótt þau væru átta á stöku stað, og stundum tíu, en það var þá einmitt til marks um sérlega mikla frjósemi og kraftmikið klan.

En við vorum sumsé bara fjögur. Og það hlaut að vera eitthvað að.

Þess þá heldur að maður yrði svolítið lítill í sér þegar farið var að leika sér inni á heimilum stórvinanna í hverfinu, því vanalega var það svo að ekki var þverfótað fyrir systkinum og leikfélögum þeirra allra. En ef það rigndi, þá sjaldan það henti á Akureyri, og allur mannskapurinn þjappaði sér saman innandyra, var einna líkast því sem útveggirnir væru að sleppa takinu á steypustyrktarjárninu, þvílíkur sem krafturinn var í samanlögðum krakkaskaranum.

Staðan var náttúrlega þessi. Við ólumst upp í fjöldaframleiðslu barna á fyrstu hagsældarárum Íslands þar sem annað tveggja var öruggt, að allir hefðu til hnífs og skeiðar, og enginn færist úr barnapestum fyrri alda. Og bar þar nýrra við.

Við vorum heppnustu börn í heimi, sem voru laus við stríð, um stundarsakir.

Og þótt við værum bara fjögur systkinin, varð bara að venja sig við það.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: RAUÐKÁL

Skáldið Jónas Þorbjarnarson (1960-2012)

Arnar Már Arngrímsson skrifar
16. október 2025 | kl. 08:30

Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré

Sigurður Arnarson skrifar
15. október 2025 | kl. 10:00

Hús dagsins: Háls í Eyjafirði

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2025 | kl. 06:00

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00

Við nennum ekki þessu uppeldi

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
11. október 2025 | kl. 06:00

Geðheilbrigðisdagurinn 2025

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2025 | kl. 06:00