Fara í efni
Pistlar

Nenni ekki þessu kennaravæli

Þá er sami söngurinn byrjaður enn á ný. Kennarar eru fórnarlömb. Þeir njóta ekki virðingar. Störf þeirra eru ekki metin til launa. Almenningur skilur ekki eðli starfsins. Viðsemjendur gera sér ekki grein fyrir kröfum þeirra. Menntað fólk á almennum markaði er með hærri meðallaun en kennarar. Hvað er þá til ráða? Jú, væla og skæla og boða verkföll, klappa og stappa, kyrja Nallann og flykkjast á samstöðufundi og manna verkfallsvaktir. Æ, ég nenni þessu varla lengur.

Nú fyllast samfélagsmiðlar af slagorðum á borð við „Fjárfestum í kennurum“ og „Ég styð kennara“ og þar fram eftir götunum. Sjálfsvorkunnar- og stuðningsgreinar flæða yfir fjölmiðla og harmagrátur yfir því að hafa steypt sér í tugmilljóna námslánaskuldir í því skyni að uppfræða æsku vora og bæta heiminn. Síðan þegar á hólminn er komið er erfitt að ná endum saman því kennaralaunin eru vel undir meðallaunum í landinu og þá dúkkar upp krafan um að milljón á mánuði sé algjört lágmark og sanngjarnt í meira lagi.

Milljón í byrjunarlaun? Oft hef ég á tilfinningunni að kennarar séu kennurum verstir og þeir virðast hafa einstakt lag á því að fá almenning upp á móti sér. Ég meina, hver nennir að hlusta á væl og endalausa sjálfhverfu og hvaða tilgangi þjóna verkföll, þetta eldgamla baráttutæki kúgaðs verkalýðs? Á hvaða tímum lifum við?

Sjálfur hef ég verið kennari í 30 ár og þrátt fyrir alla þessa reynslu og nokkrar háskólagráður hafa heildarlaun mín sjaldan eða aldrei náð meðallaunum þrátt fyrir einhverja yfirvinnu. Hví ætti það að breytast núna? Staðreyndin er bara greinilega sú að fjölmörg önnur störf virðast mun verðmætari eða mikilvægari og þeir sem gerast kennarar ættu að hafa rænu á því að átta sig á þessu.

Mér finnst starf mitt ekkert merkilegra en önnur störf og geri engar kröfur um forréttindi. Ég hef staðið mig alveg ágætlega lengst af ef marka má mælingar sem reglulega eru gerðar skv. ákveðnu gæðamati. Ekki fer ég að krefjast kauphækkunar þegar ég kem sérlega vel út úr slíku mati enda er ég bara ríkisstarfsmaður og hálfgerð afæta í augum kapítalista því starf mitt skilar ekki arði í beinhörðum peningum. Og kennarar eru bara venjulegt fólk, þverskurður samfélagsins, sumir latir og leiðinlegir og aðrir skapandi og skemmtilegir og allt þar á milli.

Nei, hef aldrei álitið mig of góðan fyrir að þurfa að taka að mér aukastörf. Til að vega upp á móti lágum launum fyrstu tvo áratugina þýddi ég helling af bókum, sinnti fjarkennslu, var íþróttafréttamaður á Mogganum í 12 ár og kenndi í Símey og hjá Keili í ein sjö ár svo eitthvað sé nefnt. Eftir það hefur helsta sumarvinnan verið ræstingar á orlofsíbúðum en allra síðustu árin hef ég bara verið á hliðarlínunni, verið reddari og tekið þrif í forföllum enda hefur hagurinn eitthvað vænkast og þörfin fyrir aukavinnu minnkað.

Þessi mikla vinna hefur bara gert mér gott, held ég. Að vísu get ég ekki státað af neinu ríkidæmi en við komumst ágætlega af núorðið. Það er helst að þetta hafi bitnað á heilsunni, félagslífinu og tengslum við ættingja og vini en ég hef hvort eð er verið greindur með félagskvíða og flestir sem maður umgekkst hér áður fyrr eru ekki lengur til staðar. Þetta er því sjálfsagt bara eitthvað óhjákvæmilegt og ekkert sem segir að ég væri hamingjusamari eða betur á mig kominn ef ég hefði haft hærri laun fyrir minni vinnu.

Góðir hálsar. Það ætti að vera gustukaverk að semja við kennara um sömu kauphækkanir og aðrir hópar hafa fengið plús einhverja leiðréttingu sem hefur verið í farvatninu frá 2016. Þar stendur hnífurinn sennilega í kúnni. Til að hífa upp kjör sín hafa kennarar gjarnan selt einhver gömul og gild réttindi fyrir fáeina silfurpeninga og síðast var það skerðing á lífeyrisréttindum, skilst mér, sem samið var um að bæta fyrir en ekki hefur verið gert þrátt fyrir bókanir og ályktanir.

Hvernig væri að viðsemjendur myndu þá bara hysja upp um sig buxurnar? Orð skulu standa. Misræmi skal leiðrétta – en við þurfum ekki að vera í endalausum samanburði við einhverja óljósa háskólamenntaða hópa á almennum vinnumarkaði eða væla um milljón á mánuði. Ég er enn prýðilega sáttur við starfið eftir þessa þrjá áratugi, þótt launin mættu vera hærri. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að staða kennara er afar misjöfn og mér sýnist sem álag í mörgum leikskólum og grunnskólum sé komið út fyrir öll velsæmismörk, iðulega vegna hinna hröðu samfélagsbreytinga sem við höfum ekki höndlað, hvað svo sem launakjörum líður.

Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30