Fara í efni
Pistlar

Lausnin 5/7

Góðir hálsar, nú er blúsinn við völd. Þessi fimmti hluti er í raun saminn sem tregafullur blús og það er vitaskuld ekkert nýtt að fíkn og blús fléttist saman. Hér greinum við einstök hljóðfæri og ráma rödd, hér þarf gott gítarsóló og vímukennda hrifningu með gæsahúð og öllu tilheyrandi. Á hinn bóginn er það engin afsökun þótt margir blúsarar hafi drukkið sér til óbóta og samið um dapurlegt líf sitt.

Ljóðmælandinn freistar þess að láta tónlistina hreinsa hugann og bægja sorgum burt og byggja svo á nýjum grunni. Það sindrar einhver vonarglæta í sálu hans þrátt fyrir allt og þrautirnar gætu skolast burt með farvegi tónanna þótt tregahjólið sé sundursorfið.

Lausnin falin, lífið mjakast,
lygn er áin fagurbláa.
Bráðum öldur skella, skakast,
skæra drauma áttu fáa.

Blúsinn gítar blakkan spilar,
blæða hjartans mörgu sárin.
Bassinn góðum grunni skilar
glitra brátt í augum tárin.

Hammond gefur höfga tóna,
heyrast nótur stíga þungar.
Stilltar trommur takti þjóna,
tilfinningar verða ungar.

Rýfur gáttir röddin hrjúfa
rótin er í blúsnum fólgin.
Stundin áfram líður ljúfa;
lífsins bikar tæmir sólginn.

Gæsahúðin grátt þig leikur
gítarsóló magnað hljómar.
Síðan liðast rammur reykur,
ryðgað org frá sviði ómar.

Þessi tónlist þínar sorgir
þungar hreinsar, burtu fjúka.
Traustar þú nú byggir borgir,
betur skaltu feldinn strjúka.

Þannig gætu þrautir horfið,
þíða myndi sálu bæta.
Tregahjólið sundur sorfið,
sindrar hugans vonarglæta.

Einhverjir gætu séð fyrir sér blústónleika, t.d. Sigurgeir Sigmundsson að spila Gary Moore á Græna hattinum þar sem ljóðmælandinn er í góðum fílingi með fullum sal af blúselsku fólki. Samhljómur, samkennd, samvera. Ég veit það ekki. Ég sé frekar fyrir mér einsamla gardínubyttu mjólka rauðvínsbelju fyrir framan tölvuskjáinn heima að horfa á Joe Bonamassa, Beth Hart, Eric Clapton, Steve Ray Vaughan eða áðurnefndan Gary Moore á tónleikum á YouTube. En hvað veit ég?

Sjáum til hvernig málin þróast á morgun.

Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og rithöfundur.

Sópaði Strákunum okkar út á fimm sekúndum

Orri Páll Ormarsson skrifar
09. janúar 2026 | kl. 14:00

Lausnin 4/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
08. janúar 2026 | kl. 06:00

Runnkennt elri til landgræðslu - Fyrri hluti: Almennt

Sigurður Arnarson skrifar
07. janúar 2026 | kl. 10:00

Lausnin 3/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. janúar 2026 | kl. 09:00

Lausnin 2/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
06. janúar 2026 | kl. 09:00

Lausnin 1/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. janúar 2026 | kl. 09:00