Fara í efni
Pistlar

Neftóbak

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 82

Afar mínir tóku báðir tveir í nefið. Nokkuð oft og hressilega.

Það var sjálfsagt ekki um annað að ræða. Annaðhvort væru menn fullvaxnir og fóðruðu nasirnar með almennilega söxuðu tóbaki, eða væru amakefli sem ættu uppvöxtinn ekki skilið á skinni sínu.

En þannig var nú talað í þá daga. Full til frjálst og óhreinsað.

Sjálfur gat ég aldrei tekið í nefið. Frá barnsaldri var ég þess lags roðhænsni að hnerra út úr mér öllum fínt skornu kornunum sem reynt var troða með nokkrum eftirgangsmunum upp í nasaholurnar á mér, ef það var skammtað svo. Ég hélt engu af því inni. Og angist líkamans varð til þess, í hverjum harða skammtinum af öðrum, að allt fór þar veg allrar veraldar. Andköfin tóku vart enda.

Og sjálfsagt var þar komin ættarskömmin ein og sönn. Kauðinn þyldi ekki tóbak. Hann færi ekki að æðaslætti ættarinnar. Eða hvað það nú hét og haft var að háði, litlum snáða til ævarandi minnkunar.

En á heimili mínu voru trýni karla ausin án athugasemda. Hvernig svo sem gekk á með þeim óhljóðum öllum saman. Menn fengju að snýta sér. Og þannig var fyllt út í horn og sauma á hverjum vasaklúti, eftir því sem leið á kvöldið, og þeim margnotuðu stungið ofan í rassvasann áður en þeir næstu voru bornir slími.

Merkilegast fannst mér að ömmur mínar báðar, ef ég man rétt, straujuðu þá alla, neftóbaksklúta karlanna, en þar væru komin teiknin sem færðu vissu um að verkalýðurinn ætti sér einhverja reisn, og snýtti sér ekki í hvað sem var, og allra síst í einhverjar krumpaðar og velktar dulur.

Stoltið var nefnilega ofar öllu. Það var heimilisfestin. Ásýndin var skjöldur einn.

Og það var í tóbakinu sem öðru.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: LP

Vatnsskaði – Um áhrif flóða og vatnsmettunar jarðvegs á tré

Sigurður Arnarson skrifar
15. október 2025 | kl. 10:00

Hús dagsins: Háls í Eyjafirði

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2025 | kl. 06:00

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00

Við nennum ekki þessu uppeldi

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
11. október 2025 | kl. 06:00

Geðheilbrigðisdagurinn 2025

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2025 | kl. 06:00

Hin einmana eik eyðimerkurinnar

Sigurður Arnarson skrifar
08. október 2025 | kl. 15:00