Fara í efni
Pistlar

Mikil óvissa í aðdraganda kosninganna

Nú dregur að lokum í kosningabaráttunni anno 2021. Frambjóðendur hafa verið á faraldsfæti um þetta stóra og fjölbreytta kjördæmi sem Norðausturkjördæmi er og sjálfsagt að verða ferðalúnir nú þegar kjördagur rennur brátt upp.

Óvissan er enn mikil og margir kjósendur gera ekki upp hug sinn fyrir en á eða rétt fyrir kjördag. Enn er því til staðar vænt safn af fólki sem við vitum ekki hvað mun á endanum kjósa. En hvað vitum við? Við höfum eitthvað viðmið út frá niðurstöðum þeirra kannana sem gerðar hafa verið uppá síðkastið. En munu þær spár ná því að hitta á úrslitin sem síðan koma upp úr kjörkössunum? Oftast hefur kannanaaðilum tekist vel upp hvað þetta varðar en það eru líka dæmi um að slíkt hafi tekist miður. Alræmdur skekkjuvaldur er unga fólkið. Það er þekkt staðreynd að kjörsókn yngri hópanna er mun minni en þeirra eldri. Í kosningunum 2017 var kjörsókn í heild yfir landið rúmlega 81%. Í aldurshópnum 18-29 ára var hún mun lægri, eða tæp 72% og hjá fólki eldra en 40 ára heil 86%. Þarna munar því verulega. Í úrtakskönnununum sem birta okkur kosningaspárnar byggja niðurstöðurnar á jafnri dreifingu milli aldurshópa. Þegar á hólminn er komið geta þeir flokkar sem njóta meiri hylli unga fólksins umfram aðra í könnunum átt von á því að stuðningurinn í gegnum þær skili sér ekki að fullu í kjörklefann. Það er því ákveðin óvissa til staðar hvað þetta varðar. Rýni í gögn um stuðning við flokka eftir aldri sýnir að á meðal yngsta hópsins séu Píratar, Samfylking og jafnvel Viðreisn vinsælli en meðal þeirra sem eldri eru. Hvort þessir flokkar reynist á endanum vera ofmetnir er þó ekki víst. Píratar voru til dæmis hraustlega ofmetnir fyrir kosningarnar 2016 en sú var ekki raunin 2017. Vera kann að kannanafyrirtækin beiti einhverjum aðferðum til að leiðrétta fyrir skekkjur vegna kjörsóknar. Gleymum því heldur ekki að margir eru óákveðnir og það getur á endanum vegið þungt hvað óákveðnir gera.

Þegar þetta er ritað eru þær helstar hreyfingar á mældu fylgi að Flokkur Fólksins virðist vera að bæta við sig. Framsókn og Samfylking hafa virst vera að bæta einhverju við sig á meðan leiðin liggur niðurá við hjá stjórnarflokkunum Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki. Þessi þróun bendir því til þess að lífslíkur ríkisstjórnarinnar fara þverrandi. Og margt bendir til að 9 flokkar verði á næsta þingi og allt að helmingur þeirra sitji í ríkisstjórn.

Grétar Þór Eyþórsson er stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Fóa og Fóa feykirófa

Pétur Guðjónsson skrifar
08. október 2024 | kl. 16:30

Danstímar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. október 2024 | kl. 11:30

Heljarstökk í lestri

Jóhann Árelíuz skrifar
06. október 2024 | kl. 11:30

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00