Fara í efni
Pistlar

Marengs

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 65

Það þurfti marengs í metravís. Allan ársins hring. Langborðin á enda. En öðruvísi voru veislur ekki haldnar fyrir botni Eyjafjarðar upp úr miðri tuttugustu öldinni þegar kaupfélögin voru allt í einu orðin uppfull af kolvetnaríkum aðföngum.

En þetta var lífið. Hæfilega stökkur botninn af bökuðum eggjahvítum í sykruðu samlífi við sætan rjóma – og þar með gátu fjarskyldustu ættingjar farið að tala saman í sæmilega stórri íbúð á Syðri-Brekkunni.

Þetta voru ættarboðin, maður lifandi, og afmælin, hjúpuð sætindum lífsins, en hæst reis tertan svo í fermingarveislunum, svo marglaga að mann sundlaði.

Því marengs var töfralausnin. Hann fékk fólk til að tala saman, svo sykraður og sveittur sem hann var að eðli sínu og efni. Og svo höfðu allir sitt til málanna að leggja. Marengs fékk ótrúlegasta fólk til að ræða um áferð, lit og herðingu, en vitaskuld líka bragð og áferð undir tungu, og þó aðallega efnismassann, og hver hlutföllinn ættu að vera.

Í sjálfu sér voru þetta trúarbrögð. Og heilu og hálfu sértrúarsöfnuðirnir spruttu upp undir Súlumýrum sem voru beinlínis bókstafstrúar um það hvernig maður safnar efnunum í eina skál og setur þeytuna af stað.

Heima á Akureyri var umræðuefnið líka hvaða ofnar bökuðu hann best. Því þar þótti galdurinn kominn. Hitinn væri á að giska aðalatriðið. Og það varð að dómsniðurstöðu á Syðri-Brekkunni, ef ævi manns er mæld í minningum og orðrómi, að Rafha-vélarnar hafi gyllt hann best og bakað af hvað mestri kostgæfni.

Svo húsmæður voru farnar að panta Marengs hjá Rafha-systrum sínum. Og þær hinar sömu komust í dýrlingatölu ef draga fór að fermingum í bænum. Því það færi enginn lengur að baka Marengs í öðrum ofnum, og allra síst innfluttum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SKÍÐABELTI

Þannig týnist tíminn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
08. desember 2025 | kl. 10:00

Aðventukvíði í rafmagnaðri jólapeysu

Rakel Hinriksdóttir skrifar
07. desember 2025 | kl. 14:00

Segularmböndin

Jóhann Árelíuz skrifar
07. desember 2025 | kl. 06:00

Helstu elritegundir

Sigurður Arnarson skrifar
03. desember 2025 | kl. 09:30

Veldu þinn takt á aðventunni

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir skrifar
02. desember 2025 | kl. 06:00

Hversdagshetjur

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. desember 2025 | kl. 09:00