Fara í efni
Pistlar

Langir og góðir Idol föstudagar – allir nema einn

Föstudagar eru Idol-dagar, eða svo hefur það verið síðustu sex föstudaga. Þetta eru langir föstudagar, ég fer á æfingu klukkan fimm, vinnuna klukkan hálfátta, legg af stað akandi til Stokkhólms upp úr klukkan tvö og er mættur í Idolstúdíóið um klukkan átján. Þar sit ég svo framundir miðnætti og keyri svo aftur heim eða staulast inn á ódýrasta hótelið sem ég finn. Sem sagt mínir föstudagar eru langir, en alltaf góðir. Nema í gær.

Ég vinn með krakka sem passa ekki inn í skólakerfið. Þar eru þau búin að vera öllum til ama og leiðinda í sjö ár áður en þau koma til mín, ekki síst sér sjálfum. Þeim líður öllum hræðilega illa, öll börn vilja gera vel en þegar kerfið er þannig að þér er gert það ómögulegt þá er ekki von á góðu. Ég veit hvernig þeim líður, ég var eins og þau þegar ég var á sama aldri. Þess vegna skil ég þau og þau mig. Það er ekki hægt að ætlast til að alltaf geti allir skilið hvernig öðrum líður. Þess vegna verða árekstrar.

Íslenski Ódi var sérfræðingur í árekstrum, hann bakkaði aldrei og hafði alltaf rétt fyrir sér og kom því alltaf rækilega til skila. Sá Ódi var erfiður í umgengni. Sænski Ódi er hinsvegar ekki þannig, hann kemur sér alltaf hjá árekstrum, reynir að ná sáttum og segist hafa haft rangt fyrir sér, þó að hann að sjálfsögðu hafi haft rétt fyrir sér. Hann þykir afar þægilegur í umgengni, alveg satt.

En ég er samt alltaf Ódi sem eftir nokkra athugun er búinn að komast að því að hann er með bullandi ADHD og þarf að eyða gríðarlegri orku í að verjast erfiðum hugsunum sem sækja stöðugt á hann úr öllum áttum og hafa alltaf gert. Það tekur á en eins og með allt annað sem maður æfir mikið þá verður maður ansi þolinmóður, þessi barátta virkar þannig. Eða eins og Hulk segir: „Ég er alltaf reiður, það er leyndarmálið“.

Þessi útúrdúr er gott dæmi um mitt ADHD.

En sem sagt, í upphafi skóladags í gær var einn kennari erfiður við mína nemendur, það gerist nánast daglega, því þeir skilja þá ekki og það er skiljanlegt. Þetta tekst mér alltaf að leysa, segi þetta vera mína sök og er voða auðmjúkur. En í gær nennti ég þessu ekki, baðst ekki afsökunar á neinu. Kennarinn varð mjög fúll og er það örugglega enn. Svo leið tíminn og um hádegi fann ég að ég var að tapa bardaganum í hausnum á mér við vondu hugsanirnar, að hafa mistekist að leysa áreksturinn um morguninn gerði mig alveg æfan við sjálfan mig. Svo ég tapaði og vondu hugsanirnar tóku völdin. Fjandinn var laus.

Við vorum bara rétt lögð af stað til Stokkhólms þegar ég bað Ingu mína um að taka við akstrinum því það var mikil umferð og mér fannst allir þar vera hálfvitar. Fósturdóttir mín og kærastinn hennar voru með okkur og eftir að hafa ítrekað urrað á þau öll ákvað ég að reyna að sofna. Það tókst en þegar ég vaknaði vorum við næstum komin til Stokkhólms og það miklu fyrr en ég hafði gert ráð fyrir. Það var vegna þess að Inga mín breytist í kappaksturshetju þegar ég hef ekki stjórn á henni svo ekki bætti það bálið í hausnum á mér.

Útsending Idol byrjar klukkan tuttugu en maður þarf að vera kominn um klukkan átján. Þá stekkur upp á svið gaur sem sér um að koma öllum í stuð. Það gerir hann með því að segja sömu brandarana viku eftir viku, sem er alltaf í lagi fyrir þá áhorfendur sem koma bara einu sinni, en fyrir okkur aðstandendur sem mætum alltaf þá er það ekki eins fyndið. Reyndir finnst mér það alltaf bara krúttlegt og svo er klappað endalaust sem mér finnst vanalega allt í lagi. En ekki í gærkvöldi. Svo ég krosslagði hendur, hausinn þrýstist niður á milla axlanna og skeggið nánast rann saman við augabrúnirnar.

Eitt af því sem gert er til að halda upp stuði er að myndavél sveiflast um salinn og myndar áhorfendur sem fagna ógurlega þegar mynd af þeim birtist á risaskjá. Og þar sem ég sat þarna eins og áður er lýst þá staðnæmdist myndavélin á mér og ég birtist í öllu mínu veldi. Og þar sem ég birtist þarna sjálfum mér og öllum öðrum þá mundi ég að það var hrekkjavaka og ég hafði snemma um morguninn, áður en fjandinn varð laus, ákveðið að taka þátt með því að setja upp jólasveinahúfu sem ennþá sat sem fastast á hausnum á mér.

Á þessu augnabliki sem að mynd mín var á skjánum rústaði ég jólum allra barna í salnum.

Svo byrjaði Idol, tíu keppendur sem hver á fætur öðrum voru kallaðir fram, þó með löngum auglýsingahléum á milli. En ekki var Birkir minn kallaður upp og þegar gert var klukkutímahlé til að koma að fréttum og bara fjórir keppendur sem ekki höfðu verið kallaðir fram, þar á meðal Birkir minn, þá var ég nánast orðinn hættulegur. Inga mín þekkir mig og nú hafði hún breyst í varnarmann sem hefur það hlutverk að passa hættulegasta sóknarmanninn. Hún vissi að best var að segja ekkert, en ef ég tók eitt skref til vinstri þá gerði hún það líka.

Svo lauk þessu langa hléi og ég var þess fullviss að Birkir yrðu næstur á svið. En nei, hans nafn var ekki kallað upp. Nú taldi ég þetta orðið gott, þetta væri samsæri hjá bölvuðum Svíunum, Birkir væri alltaf búinn að fá bestu dómana svo nú ætti að koma útlendingnum úr keppni. Ég var sannfærður, ákvað að sækja bara litla strákinn minn og fara með hann heim, aumingja þeir sem reyndu að stoppa mig. Á meðan ég var að gera mig kláran til að sækja strákinn var nafn hans kallað upp.

Birkir steig fram á sviðið, fékk mestu fagnaðarlætin af öllum, flutti lagið á svo magnaðan hátt að áhorfendur, dómnefnd og aðrir keppendur risu úr sætum og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Sá eini sem ekki stóð upp var fúli jólasveinninn, hann sat og grenjaði þannig að tárin flutu um úfið skeggið.

Á mánudaginn ætla ég að knúsa kennarann svo að allt verði gott á ný.

Jón Óðinn er faðir Birkis Blæs, keppanda í sænsku Idol söngkeppninni. Jón Óðinn starfar sem leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og er fyrrverandi júdóþjálfari.

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30