Fara í efni
Pistlar

Kunningi frænda míns

ORRABLÓT - XIV

17. júní 1990 var bjartur og fallegur dagur og um margt eftirminnilegur. Þá brautskráðist ég nefnilega sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri, ásamt ríflega hundrað öðrum ungmennum.

Athöfnin sjálf fór fram í sal íþróttahallarinnar og var hátíðleg undir styrkri stjórn Jóhanns Sigurjónssonar skólameistara. Allt gekk samkvæmt bókinni, þar til kom að mér að stíga á svið og veita vitnisburði mínum viðtöku. Nei, ég hrasaði ekki, eins og fegurðardrottningin forðum, heldur var mér gerð fyrirsát, að undirlagi Sverris Páls Erlendssonar, íslenskukennara og goðsagnar.

Aðallega Sverrir Páll Erlendsson. Orra Páli var gerð fyrirsát að undirlagi íslenskukennarans og goðsagnarinnar ...

Forsaga málsins er sú að Sverrir Páll hafði hnotið um það í bókhaldi skólans að fæðingarár mitt hafði misritast; ég var sumsé sagður hafa fæðst 1917 en ekki 1971. Það gerði mig tæplega 73 ára þennan dag, sem þýddi auðvitað að ég væri elsti maðurinn til að útskrifast frá skólanum í meira en 100 ára sögu hans. Þegar Sverrir Páll hafði stigið fram og gert viðstöddum grein fyrir þessu afhenti hann „gamla manninum“ forláta stækkunargler; ekki veitti víst af til að lesa einkunnirnar af blaðinu. Dátt var hlegið í salnum og ég stóð þarna eins og kleina. Ykkur að segja þá á ég þetta stækkunargler ennþá og veifaði því meira að segja framan í Sverri Pál og aðra gesti þegar ég hélt upp á 25 ára stúdentsafmæli mitt í þessum sama íþróttasal. Glerið liggur nú hér á borðinu meðan ég skrifa þennan pistil.

Ég nennti ekki að slá upp veislu í tilefni af stúdentprófinu en Þórður frændi minn Sturluson kíkti í heimsókn í Núpasíðuna, þar sem ég bjó hjá foreldrum mínum á þessum tíma, ásamt kunningja sínum að sunnan, Baldri að nafni. Eins og gengur þegar nýja menn ber að garði þá spurði pabbi Baldur þennan að sjálfsögðu við hvað hann starfaði.

„Ég starfa alfarið við kökuskreytingar.“

Ég gleymi aldrei svipnum á pabba, sem bjóst augljóslega alls ekki við þessu svari, enda framandi í huga bóndasonarins úr Eyjafirði að menn gætu haft fulla atvinnu af slíku. Óborganlegt stöff.

Þórður og Baldur héldu sína leið og við Karl Gústaf Gústafsson, síðar flugstjóri, kíktum í útskriftarveislu hjá bekkjarbróður okkar og vini, Karli Jónssyni, síðar flugstjóra, í Hvammshlíðina. Við vorum bara þrír strákarnir í bekknum síðasta veturinn og ég þar af leiðandi sá eini sem ekki varð flugstjóri. Ég átta mig ekki almennilega á því hvað klikkaði þar.

Vel var veitt í veislunni og þar margt góðra manna.

Karlar þessir eru bráðskemmtilegir menn, hvor á sinn hátt, og mikið hefði nú dvölin í MA orðið leiðinlegri án þeirra. Ég skulda Kalla Jóns ennþá ófáar bílferðirnar en hann sótti mig í heilt ár á Kortínunni sinni áður en ég fékk sjálfur bílpróf.

Um kvöldið var hátíðarmálsverður í Sjallanum, þar sem ég mætti með mömmu og pabba. Eyjólfur rakari, sem pabbi hafði kennt, þjónaði til borðs. Sá ágæti maður skaut upp kollinum á ólíklegustu stöðum á þessum árum. Og gerir ugglaust enn. Stundum hafði pabbi þurft að vísa Eyjólfi (lesist: henda út) úr tímum í Glerárskóla en það var löngu gleymt og grafið. Eyjólfi var kunnugt um að ég ætti fyrir höndum knattspyrnuleik með 2. flokki Þórs daginn eftir og varð fyrir vikið að hafna öllu áfengi þetta kvöld. Ég man að þau örlög kættu Eyjólf.

Á miðnætti marseruðum við, nýstúdentar, eins og hefð var fyrir, sem leið lá frá Sjallanum suður í Hafnarstræti, sem þá var göngugata. Þangað komin hentum við í hinn sívinsæla samkvæmisdans Hókí póki. Gleðin var mikil og almenn. Eins og efni stóðu til.

Í hóki pókíinu miðju kom ég auga á Þórð frænda og kökuskreytingamanninn fyrir utan hringinn sem við höfðum myndað. Þeir veifuðu mér að vonum án afláts og kökuskreytingamaðurinn dró úr pússi sínu myndavél eina mikla. Hann reyndist sumsé líka vera metnaðarfullur áhugaljósmyndari og hóf að smella af – yfirspenntur. Þeirri athöfn lauk með þeim ósköpum að kökuskreytingamaðurinn slædaði á hnjánum inn í miðjan hring okkar nýstúdenta og myndaði mig, bara mig, í gríð og erg – enda var ég eini maðurinn á Akureyri sem hann kannaðist við, fyrir utan Þórð.

Þetta athæfi vakti að vonum undrun og forvitni samstúdenta minna sem spurðu forviða: „Orri, hvaða maður er þetta eiginlega?“

Ég svaraði því eftir bestu getu: Þetta er kunningi frænda míns!

Eftir skemmtilega stund í Stefánslundi ásamt hópnum og bærilegan nætursvefn mætti ég á Þórsvöllinn síðdegis daginn eftir til að spila téðan fótboltaleik. Og enn var mér komið í opna skjöldu.

Fyrir leikinn dró Gassi þjálfari nefnilega fram risastóran blómvönd sem hann afhenti mér, ásamt formanni knattspyrnudeildar Þórs og forseta bæjarstjórnar Akureyrar (nei, nú er ég að grilla í ykkur, forsetinn var fjarri góðu gamni). Ég man ekki nákvæmlega hvernig stóð á þessu en á þessum tíma var ekki svo algengt að Þórsarar lykju stúdentsprófi.

Andstæðingar okkar, sem mig minnir að hafi verið Fylkir úr Reykjavík, störðu furðulostnir á gjörninginn og þegar flautað hafði verið til leiks spurði gaurinn sem dekkaði mig hvers vegna ég hefði fengið blómin. Ég gat ekki stillt mig um að rugla aðeins í honum:

Fyrir hundrað leiki í 2. flokki!

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Apótekaralakkrísinn

Jóhann Árelíuz skrifar
08. september 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Litli-Hamar

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 15:15

Sjálfbærni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
07. september 2024 | kl. 09:00

Hvað er svona merkilegt við það?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 06:00

Samfélagsábyrgð fyrirtækja

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 22:00

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

Orri Páll Ormarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 08:30