Fara í efni
Pistlar

Kosningarnar handan við hornið

Nú styttist verulega í kosningar til Alþingis. Kosningabaráttan er í algleymingi og við verðum vör við frambjóðendur í útvarpi og sjónvarpi en í sívaxandi mæli á samfélagsmiðlunum. Frambjóðendur eru líka á faraldsfæti um þetta stóra og fjölbreytta kjördæmi sem Norðaustur er.

Stóru kannanafyrirtækin hafa gert nokkuð af því að sýna niðurbrot eftir kjördæmum úr sínum könnunum sem gerðar eru á landsvísu. Þetta hefur þýtt að verið er að spá í þingsætaskiptingu út frá afskaplega fáum svörum – oft vel undir 100 fyrir t.d. Norðausturkjördæmi.

Svo bar hinsvegar við að fyrir síðustu helgi birtust hér á akureyri.net niðurstöður úr könnun sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri gerði í kjördæminu. Byggja niðurstöður hennar á um 750 svörum og er hún því nær tífalt stærri en úr niðurbroti kannanafyrirtækjanna. Má því fullyrða að úr þessari könnun fáist mun áreiðanlegri upplýsingar.

Ég ætla því að leggja aðeins út af því hvað hún sýnir. Hún sýnir Sjálfstæðisflokkinn með 3 kjördæmakjörna menn, Framsókn 2, Vinstri græn, Pírata, Samfylkingu og Miðflokkinn með 1 mann hver. Annar maður Vinstri grænna og efsti maður Sósíalista eru hinsvegar skammt undan og anda ofaní hálsmálið á Píratanum og þriðja manni Sjálfstæðisflokksins.

Gefi könnunin rétta mynd af því sem síðan verður í kosningunum stefnir því í spennandi kosninganótt í kjördæminu. Nokkur atriði geta orðið til þess að þessi spá spegli ekki fyllilega endanleg úrslit. Tæplega 40% sögðust óákveðnir og meðal kvenna var hlutfallið 50%. Það er því ljóst að það sem allt þetta óákveðna fólk á endanum gerir getur haft áhrif á endanleg úrslit. Þá er að nefna unga fólkið. Það er þekkt staðreynd að unga fólkið skilar sér verr á kjörstað en þeir eldri. Sú skekkja í þátttöku er hinsvegar ekki til staðar í úrtakskönnunum. Þessvegna geta þeir flokkar sem njóta hylli unga fólksins umfram aðra, átt von á því að stuðningurinn í gegnum kannanir skili sér ekki í kjörklefann. Það er því ákveðin óvissa til staðar. Fróðlegt verður engu að síður að sjá hversu nálægt þessi könnun, framkvæmd 3-4 vikum fyrir kosningar kemst endanlegum úrslitum. Og svo getur kosningabaráttan á lokametrunum líka skipt máli.

Grétar Þór Eyþórsson er stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Kvenfélagið Hlíf

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
19. mars 2024 | kl. 06:00

Lagning

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. mars 2024 | kl. 11:30

Í leikhúsi hugans

Jón Óðinn Waage skrifar
17. mars 2024 | kl. 11:50

Hvar fær maður svona engisprettu?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:00

Hin evrópska olía: Olea europaea L.

Sigurður Arnarson skrifar
13. mars 2024 | kl. 10:25

Siginn fiskur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. mars 2024 | kl. 11:30