Fara í efni
Pistlar

Jesús

Vinur minn hitti nágranna sinn nýlega og nágranninn sagði honum eftirfarandi sögu:

„Þegar ég var ungur og bjó heima hjá foreldrum mínum í sveitinni kom eitt sinn föðurbróðir minn í heimsókn. Hann lagði Landróvernum og kom svo inn í bæinn til að þiggja kaffi og kleinur. Ég tók eftir því að í bílnum sat afabarn föðurbróður míns, drengur sennilega svona fimm ára. Drengurinn fylgdi ekki afa sínum inn í bæinn og sat eftir í bílnum. Mér þótti þetta undarlegt og opnaði því bílinn og spurði drenginn hvort að hann vildi ekki koma inn líka. Drengurinn svaraði ekki, hann leit ekki á mig, hann bara starði fram fyrir sig. Ég reyndi að ná sambandi við drenginn en það tókst ekki, hann bara starði fram fyrir sig og var gjörsamlega hreyfingarlaus. Ég gafst upp og fór inn og settist að kaffidrykkju með hinum. Ég nefndi það við föðurbróður minn að ég hefði reynt að spjalla við afabarnið hans. Hann glotti þá bara og sagði að það hefði nú líklega ekki gengið vel. Eftir kaffið rölti föðurbróðir minn með okkur í fjárhúsin og fjósið til að skoða skepnurnar. Honum virtist ekkert liggja á en alltaf sat drengurinn stjarfur í Landróvernum. Mér fannst þetta mjög vandræðalegt, drengurinn var búinn að sitja einn lengi svo ég gerði aðra tilraun. Ég settist inn í Landróverinn við hliðina á drengnum og fór að spjalla um hitt og þetta í von um að ná einhverju sambandi við hann. En hann sýndi engin viðbrögð, starði bara fram fyrir sig og svaraði engu. Ég gafst upp, fór út úr bílnum en þegar ég var að loka hurðinni sagði drengurinn allt í einu: „Ég ætla að verða prestur“. Svo steinþagnaði hann aftur og varð jafn stjarfur sem áður og svaraði engu.“

Þessi drengur var ég. Afi var úr sveit og þar bjuggu öll systkini hans. Það var því oft farinn rúntur i fjörðinn eins og afa kallaði það. Fyrir barn eins og mig sem barðist við kvíða og angist og var hræddur við allt þá voru þessar ferðir engar skemmtiferðir, sveitin með öllum sínum stórhættulegu dýrum og grófsnittuðu frændum var í mínum huga stórhættuleg . Ég sat því alltaf sem fastast í Landróvernum og afi virti það. Fyrrgreindur frændi var ekki sá fyrsti sem reyndi að ná mér út úr bílnum og ekki sá síðasti. Engum tókst það.

En þetta með að verða prestur stemmir alveg. Ég trúði heitt og innilega á Jesú en minna á föður hans. Mitt eina haldreipi í angist minni var að spjalla við Jesú, einhverjir myndu kalla það bænir en ekki ég, ég var bara að spjalla við Jesú því að sögurnar sem amma sagði mér af honum sannfærðu mig um að hann fær fínn náungi. Svo leið mér alltaf vel í kirkju, þar var ég ekki eins hræddur. Ég reyndar sofnaði alltaf eftir fyrstu bæn prestsins, kannski vegna þess að ég var vanur því að eftir bænir ætti maður að sofna. Þannig að ég sá allt gott við það að verða prestur, þá gæti ég verið óhræddur í vinnunni og spjallað við vin minn Jesú án þess að vera truflaður.

Þegar ég var tíu ára tapaði ég trúnni, þá var ég búinn að skipta út angist fyrir reiði svo þörfin fyrir þykjustuvin hvarf. En þrátt fyrir trúleysið þá finnst mér enn í dag maðurinn Jesús magnaður náungi og hegðun hans og skoðanir magnaðar. En ef ég hef nú rangt fyrir mér og Jesús var sonur Guðs og sá gamli teldi þörf á senda son sinn til okkar aftur til að taka aðeins til þá held ég að hann ætti kannski að drífa í því.

En myndum við krossfesta hann aftur? Það held ég ekki, ætli við myndum ekki einkavæða hann og selja aðgang.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00