Fara í efni
Pistlar

Hoffíkja – Ljósum prýtt í stofu stendur

TRÉ VIKUNNAR - XXXVI

Mörg okkar þekkja sjálfsagt þann sið að setja upp tré í stásstofum í desember og skreyta þau með litríkum ljósum. Þessi siður er þekktur um allan heim og kallast Bodhi trjádagurinn eða hoffíkjudagurinn eins og allir vita. Eða höfðuð þið einhverja aðra hátíð í huga?

 
Búddamunkar undir skreyttri hoffíkju. Myndin fengin héðan.

Fyrir um 2500 árum settist Siddharta Gátama undir fíkjutré, Ficus religiosa L., á 8. degi hins 12. mánaðar. Í okkar vestræna heimi finnst okkur blasa við að það hljóti að hafa verið 8. desember. Því halda margir búddistar upp á þann dag með því að skreyta tré í híbýlum sínum snemma í desember. Það sama gildir einnig um Japan þótt það ágæta land teljist ekki til Vesturlanda. Þessi dagsetning hentar þó ekki öllum. Víða um heiminn er notað annað dagatal en það sem við notum. Í löndum þar sem búddadómur er hvað mest ástundaður er mun algengara að miða mánuðinn við gang mánans, eins og orðsifjarnar mæla fyrir um. Því getur þessi dagur færst til miðað við okkar almanaksár, rétt eins og páskahátíðin og bóndadagurinn, svo dæmi séu tekin. Samkvæmt kínverska tímatalinu getur 8. dagur 12. mánaðar lent einhvers staðar frá vetrarsólstöðum og fram í febrúar samkvæmt okkar tímatali. Ef við miðum við kínverska árið mun Bodhi dagurinn árið 2070 lenda á 25. desember. Það er aldeilis skemmtileg tilviljun því þá verða allskonar tré skreytt um allan heim sem tilheyra mismunandi trúarbrögðum. Gaman að segja frá því! Samkvæmt þessari heimasíðu verður Bodhi-dagurinn árið 2023 haldinn 18. janúar 2024. Athugið: Þetta er ekki misritun. Svo má auðvitað geta þess að þegar Rómverjar skiptu árinu í 12 mánuði og settu saman forvera þess dagatals sem við notum, þótti upplagt að miða upphaf nýs árs við þann tíma þegar heppilegt var að fara í stríð. Nýtt stríð= nýtt ár. Það var ágætt að fara í stríð á vorin þegar veðrið var farið að skána. Þess vegna var fyrsti mánuður ársins kenndur við stríðsguðinn Mars. 12. mánuðurinn var þá febrúar og var heldur styttri en hinir til að árið væri af heppilegri stærð. Þá fáum við líka botn í það af hverju mánuðirnir sem heita eftir tölunum sjö, átta, níu og tíu (septem, octo, novem og decem) eru númer níu, tíu, ellefu og tólf. Ef árið byrjar í mars gengur þetta dæmi upp. Því mætti sjálfsagt halda Bodhi-daginn í febrúar ef vilji er til þess, rétt eins og gerist stundum í Kína.

Þegar þeir sem ástunda búddadóm halda þessa hátíð er gjarnan slett í smákökur í tilefni dagsins. Sambærilegur siður þekkist á Íslandi í desember þótt hátíðin sé önnur. Eins og tíðkast með piparkökur eru gjarnan búnar til eins konar myndir úr kökunum. Í stað þess að búa til jólatré, stjörnur og snjókarla skera búddistar gjarnan út myndir sem líkjast blöðum hoffíkjunnar. Þennan dag er ekki aðeins boðið upp á smákökur, heldur mælir hefðin fyrir um að þá skuli fólk fá sér hrísgrjón, mjólk og hunang.

 
Hoffíkja. Myndin fengin af sölusíðu Amazon. 

Búddadómur og Bodhi dagurinn

Tölum ber ekki alveg saman um fjölda búddista en þeir gætu verið allt að 500 milljónir í heiminum öllum. Gerir það búddadóm að fjórðu fjölmennustu trúarbrögðum heims, ef við viljum kalla hann trúarbrögð. Sumir segja að nær væri að tala um heimspeki en trúarbrögð. Því tölum við hér um búddadóm en ekki Búddatrú. Sjálfsagt eru margir lesendur ósammála þessu og geta þeir kvartað við Ingólf Jóhannsson, framkvæmdarstjóra SE, alla virka daga á milli kl. 14.30 og hálf þrjú.

 

Siddharta Gátama íhugar undir fíkjutré. Takið eftir gerð laufanna. Myndin er héðan. 

Í búddadómi er haldið upp á ýmsar hátíðir eins og vera ber. Bodhi dagurinn er ein þeirra hátíða. Hann er helgur dagur meðal búddista en langt frá því að vera þeirra vinsælasta hátíð. Haldið er upp á hann til að minnast þess þegar Siddharta Gátama sat undir hoffíkjutrén og fékk uppljómun. Af því hlaut hann tignarheitið Búdda, sem merkir „hinn upplýsti“. Dagurinn gengur undir ýmsum nöfnum og er ekki endilega haldinn á sama tíma allstaðar eins og að ofan greinir. Sennilega er algengast að kalla daginn Bodhi daginn. Í Japan kallast dagurinn Rōhatsu eða Rōhachi (成道会) og á kínversku Laba (臘八). Í báðum tilfellum vísar heitið í áttunda dag tólfta mánaðar (Wikipedia).

Í næsta kafla skoðum við þessa sögu aðeins nánar en hér eru upplýsingar um hvernig halda ber upp á daginn, ef þið viljið bæta við einni hátíð.

 
Útbreiðsla búddadóms samkvæmt Pew Research Center.

Tengsl við búddadóm

Einhvern tímann á 5. eða 6. öld fyrir okkar tímatal, eða fyrir um það bil 2500 árum fæddist prins einn í norðurhluta Indlands á því svæði sem nú tilheyrir Nepal. Hét hann Siddharta Gátama. Hann ólst upp við góðan kost og hélt að allur heimurinn væri eitt alsherjar ríkidæmi. Einn daginn varð hann vitni að fátækt og þjáningu. Sú upplifun breytti öllu. Hann vildi skilja þjáninguna og lagði því land undir fót og prófaði nokkrar aðferðir til að komast að hinu sanna. Þegar hann var um það bil 35 ára settist hann undir fíkjutré og hóf að hugleiða. Hversu lengi hann dvaldi undir trénu er ekki alveg ljóst. Hér er farið eftir sögunni eins og hún er sögð í hlaðvarpsþættinum My Favorites Trees. Sá þáttur er helsta heimild þessa pistils.

Siddharta Gátama sat undir hoffíkjutrénu og fastaði í sjö vikur eða 49 daga. Þegar hann stóð loks upp hafði hann orðið fyrir uppljómun og var orðinn að Búdda, eða hinum upplýsta. Mismunandi er hvort búddistar segi hann hafa þurft allar sjö vikurnar til að ná þessari hugljómun eða hvort hann fékk hana eftir eina viku og notaði svo hinar sex til frekari íhugunar. Þeir sem tilheyra seinni hópnum segja gjarnan að í 2. viku hafi hann varið drjúgum tíma til að þakka trénu fyrir það skjól sem það veitti til íhugunarinnar.

Þegar Búdda stóð upp eftir sína löngu íhugun var hann orðinn nokkuð svangur. Hann fékk hrísgrjón, mjólk og hunang að gjöf frá ferðamönnum. Síðan þykir það tilhlýðileg hátíðarmáltið á Bodhi deginum (Spadea 2021). Rétt er að geta þess að samkvæmt lauslegri yfirferð á fjölbreyttum þráðum alnetsins er fastan gjarnan töluvert styttri en Tomas Spadea greinir frá. Látum það liggja á milli hluta en höldum því til haga að mismunandi hópar hafa mismunandi túlkanir. Þar sem enginn úr stjórn Skógræktarfélagsins var vitni að þessari föstu fyrir 2500 árum getum við ekki kveðið upp neinn dóm um málið.

 
Búddalíkneski í rótum hoffíkju í Taílandi. Myndin fengin héðan.

Kyrkingafíkja

Fjölmargar tegundir eru til af fíkjutrjám eins og við höfum áður fræðst um. Þær eru allskonar. Í pistli okkar um hin dularfullu fíkjutré frá því desember árið 2021 segir frá því að tegundir fíkjutrjáa séu yfir 750 talsins. Um helmingur þeirra telst til svokallaðra „kyrkingafíkja“ án þess að það nafn hafi beinlínis grasafræðilega merkingu. Nánar má lesa um þær í áðurnefndum pistli en í stuttu máli má segja að þær byrja sem ásætur í trjám. Fuglar sem éta fíkjur drita fræjum hvar sem er. Ef fræið er svo heppið að lenda á grein eða stofni á öðru tré getur það byrjað að vaxa þar. Þá verður það tré sem vex uppi í öðru tré. Svo sendir það svokallaðar loftrætur til jarðar sem breytast í trjástofna þegar þær ná jarðsambandi. Smám saman leggur það allt hýsiltréð undir sig. Það vefur sig utan um stofn þess og þrengir svo að stofninum að hann hættir að geta gegnt hlutverki sínu við að flytja vatn og næringu um tréð. Að lokum gengur þetta að hýsiltrénu dauðu. Þetta er ástæða þess að þessi hópur fíkjutrjáa er gjarnan kallaður kyrkingafíkjur.

 

Hoffíkjur, líkt og aðrar kyrkingafíkjur, þurfa ekki endilega að styðja sig við önnur tré. Myndin fengin héðan.

Miðað við þennan lífsmáta mætti ætla að tréð væri sníkjuplanta. Sníkjuplöntur eru plöntur sem stela næringu frá öðrum plöntum. Samkvæmt þeirri líffræðilegu skilgreiningu eru kyrkingafíkjur ekki sníkjuplöntur. Þær afla sér sinnar næringar sjálfar en stela henni ekki. Reyndar gengur hún að hýsilplöntunni dauðri með því að kæfa hana en svoleiðis haga sníkjuplöntur sér almennt ekki. Ef þær drepa hýsilplöntur sínar er það gert með því að stela af þeim vatni eða næringu. Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir að kyrkingafíkjur gangi af hýsiltrjám sínum dauðum teljast þær ekki sníkjuplöntur.

Hvað á barnið að heita?

Fíkjutréð sem Siddharta Gátama sat undir og gerðist Búdda er af tegundinni Ficus religiosa L. Nafnið vísar í hversu nátengd tegundin er búddadómi og er ekki annað að sjá en sá sem gaf trénu þetta fræðiheiti telji búddadóm frekar til trúarbragða en heimsspeki. Bókstafurinn „L“ á eftir fræðiheitinu merkir að það var sjálfur Carl Linnaeus, höfundur tvínafnakerfisins sem við notum í allri líffræði, sem gaf trénu nafnið. Annars mun Linnaeus haft það í huga að þessi tegund tengist þrennum trúarbrögðum hið minnsta. Auk búddadóms tengist það Hindúasið og Jainisma. Í þessum pistli látum við þó duga að skoða tengslin við búddadóm enda eru þau mest áberandi. Íslenska heitið á tegundinni tekur mið af þessu og er kennt við hof, enda eru hoffíkjur mjög algengar í og við hof. Alveg væri tilvalið að koma eintaki fyrir í Hofi, hér á Akureyri. Að vísu þarf þá að tryggja að tréð fái næga birtu, því það er ekki mikið gefið fyrir að vaxa í skugga. Þess vegna er svo bráðsnjallt að hefja lífið uppi í trjákrónum frekar en undir þeim.

 
Umfangsmikil hoffíkja. Myndin fengin héðan af hollenskri síðu.

Á ensku þekkjast nöfnin peepal tree, bodhi tree, botree og sacred fig. Síðasttalda heitið er hugsað á svipaðan hátt og latínuheitið. Þjóðverjar eru á sömu slóðum er þeir tala um Heiliger Feigenbaum en þeir nota líka Bobaum og reyndar fleiri heiti ef marka má orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Spánverjar eru á öðrum slóðum og tala um higuera de agua sem mætti útleggjast sem vatnafíkja. Tvær myndir af laufunum hér neðar undirstrika það nafn en ástæða nafnsins er hvernig laufin losa sig við vatn. 

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar
 
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30

Tæknin er að gera frænku gráhærða

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. apríl 2024 | kl. 22:00

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 26; Breiðablik

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
06. apríl 2024 | kl. 18:00

Teipaði sig fyrir dönskutíma

Orri Páll Ormarsson skrifar
05. apríl 2024 | kl. 11:30

Gömlu barrtrén í Vaðlaskógi

Helgi Þórsson skrifar
03. apríl 2024 | kl. 09:00