Fara í efni
Minningargreinar

Hilmar Gíslason

„47 kallar“ - Marri Gísla var alveg einstakur maður, maður sem mótaði mig og strákana. Alla tíð kenndi hann öllum sem hann þekktu svo ótalmargt með sinni ljúfu og traustu framkomu.

Ef hægt er að segja að einhver maður hafi verið einstakur þá er það Marri Gísla. Það voru fáir eins duglegir eins og hann, fáir jafn bóngóðir og fáir jafn vel liðnir. Allir þekktu Marra Gísla og allir voru hans félagar — meira að segja KA-menn, þrátt fyrir að Marri hafi verið harður og sannur Þórsari sem alinn var upp í Þórsaravíginu í Fjólugötu. Í hamagangi snjómoksturs svaraði hann öllum og lofaði að senda menn til að opna þessa götu og hina. Alltaf gekk allt upp að lokum.

Marri og Ingibjörg frænka voru órjúfanlegur hluti af minni æsku. Raunar gegndu þau ekki síður stóru hlutverki á fullorðinsárum mínum. Mamma sagði mér fréttir af þeim í hvert skipt sem við spjölluðum saman. Þau fylgdu mér og mínum eftir alla tíð, af umhyggju og áhuga. Jólin komu með jólakortinu frá þeim, meira að segja þegar flestir voru hættir að senda svoleiðis glaðning.

Við guttarnir fórum á sunnudögum með Marra niður í Íþróttaskemmu þar sem hann og hetjur Akureyrarfótboltans spiluðu innanhússbolta af miklum móð. Á meðan lékum við okkur í fótbolta eða handbolta á efri hæðinni. Hreinsi Óskars leyfði okkur að djöflast uppi, en þegar Hreiðar Jóns var á vaktinni var það bannað. Eftir boltann var farið niður í Sana með Valsteini og við fengum Vallash eða Mix.

Nú þegar Marri er farinn í draumalandið koma upp í hugann margar sögur af honum sem margir þekkja eflaust. Þær munu lifa í minningunni. Einhverjar þeirra eru stílfærðar en allar heiðarlegar, og segja frá einstökum manni.

Eitt er mér alltaf minnisstætt. Marri kallaði mig alltaf Gunnlaug, en aldrei Gilla líkt og flestir gera. „Sæll Gunnlaugur, hvað segir þú!“. Það skipti engu hvort ég var smá gutti eða fullorðinn. Mér þykir vænt um það. Þegar við hittumst í síðasta sinn, við jarðarför Ingibjargar fyrir skemmstu, var Marri orðinn þreyttur. Ég tók í hendina á honum og þegar hann áttaði sig kom kveðjan góða, „Sæll Gunnlaugur, hvað segir þú!“.

Hann dreif okkur strákana í fótbolta, á skíði og seinna í golf. Þó mikið væri að gera hjá honum í vinnunni var ekkert mál að keyra okkur á æfingar hingað og þangað í miðju vinnuati. „47 kallar“ hljómaði og hann stjórnaði bænum í gegnum talstöðina. Við sátum löngum stundum með honum í löngum Land Rover, grænum Bronco jeppa og þeim gula. Við vorum sóttir í fjallið í lok dags. Alltaf var pláss fyrir alla og við sátum ofan á skíðunum aftur í, sáttir. Marri kallaði alla með fullu nafni. Það er greipt í huga minn þegar hann kallaði á okkur strákana: „Þorvaldur, Ólafur og Gunnlaugur, Jón Vídalín, Hjörtur, Ásgeir, komið þið“.

Pabbi minn var ekki maður margra orða en hann sagði mér margar sögur af þeim Fjólugötustrákum. Margar hverjar voru krassandi en allar spaugilegar. Þessir strákar voru stoltir af upprunanum og hópurinn hélt saman alla tíð; Bjarni Mogga, Maggi Gísla, Æda, Guðni, Ævar, Diddi Jóns og Marri Gísla. Misfyrirferðarmiklir en góðir drengir.

„Flugbrautina malbikaði Marri Gísla“, sagði pabbi alltaf þegar við skruppum fram á flugvöll. Hann var stoltur af sínum vini. Marri kom oft við hjá pabba á Pétri og Valdimar, greip eina kók, spjallaði við kallana og hló hátt og mikið. Þessir karlar voru áhyggjulausir og góðir vinir.

Nú er komið að kveðjustund. Pabbi og mamma eru farin og nú með nokkurra vikna millibili fóru Ingibjörg frænka og Marri Gísla. Satt að segja var aldrei inni í myndinni að hugsa sér lífið án þessara fjögurra. Við krakkarnir erum orðin elst í fjölskyldunni en samt finnst manni maður vera krakki í samanburði við þetta fólk. Kannski var maður ekki nógu þakklátur hér áður eða þakkaði fyrir hvað maður hafði það gott. Maður gekk að því vísu að allt væri eins og það átti að vera.

Nú eru ferðir norður í jarðarfarir búnar að vera nokkrar á undanförnum árum. Kynslóðin sem ól okkur upp og hafði svo mikil áhrif á okkur, kynslóð foreldra okkar, er að kveðja.

Góðar minningar og þakklæti eru mér efst í huga fyrir að hafa alist upp með þessu gæðafólki, í sólinni og góða veðrinu á Akureyri.

Marri Gísla var jarðsunginn frá Akureyrarkirkju þann 16. apríl 2021.

Blessuð sé minning Marra Gísla og strákanna úr Fjólugötunni.

Gunnlaugur Þráinsson

Guðmundur Tulinius

Jón Hlöðver Áskelsson og Sæbjörg Jónsdóttir skrifa
28. mars 2024 | kl. 12:05

Guðmundur Tulinius – lífshlaupið

28. mars 2024 | kl. 12:00

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen skrifa
04. mars 2024 | kl. 09:30

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
04. mars 2024 | kl. 06:00

Hermína Jónsdóttir

Daði, Freyr og Katrín skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05