Sigurður Ólafsson
Í dag kveðjum við gamlan félaga og kollega, Sigurð Ólafsson. Við kynntumst eiginlega fyrir alvöru í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar þegar ýmsir fóru til útlanda eftir menntaskóla til að víkka sjóndeildarhringinn. Íslenskir stúdentar með róttækar skoðanir, einkum á Norðurlöndum og Þýskalandi, höfðu þann sið um tíma að hittast til að ræða um róttæku málefnin og voru þá haldnir eftirminnilegir fundir í ýmsum borgum. Þegar þessi fundur var haldinn í Árósum var gist hjá Sigga. Þá styrktust tengslin og ekki síður þegar Siggi fór í sínar miklu reisur á mótorhjóli um Evrópu og gerði stans í Freiburg í einhver skipti. Þá var alltaf fagnaðarfundur. Sérstaklega er minnisstætt þegar hann kom í heimsókn í sumarbyrjun 1980. En daginn eftir fór Íslendingahersingin, og þar með Siggi, til Strassborgar til að kjósa Vigdísi til forseta. Svo hélt hann áfram ferð sinni um Frakkland.
Heimkominn til Íslands gerðist Siggi kennari við Framhaldsskólann á Húsavík sem var tilefni góðra heimsókna til þess ágæta bæjar. Þegar Siggi flutti svo til Akureyrar og hóf að kenna við MA varð samgangurinn auðvitað meiri. „Margt eitt kvöld og margan dag“ sátum við saman með góðum vinum og ræddum um allskyns hluti milli himins og jarðar, pólitísk og heimspekileg álitaefni, og auðvitað skólamálin, sem voru nú starfsvettvangur okkar. Siggi var töffari, skemmtilegur samræðufélagi, hreinn og beinn og hnyttinn í tilsvörum.
Nú þegar Siggi er svo sviplega fallinn frá rifjum við upp góðar samverustundir og þökkum fyrir þær. Við sendum Klöru og öllum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng lifir með okkur.
Þröstur Ásmundsson og Aðalheiður Steingrímsdóttir
Tryggvi Ingimarsson
Þórdís Þorleifsdóttir
Þórdís Þorleifsdóttir – lífshlaupið
Þórdís Þorleifsdóttir