Fara í efni
Minningargreinar

Þórdís Þorleifsdóttir

31 og hálft ár með Díu ömmu.

Þegar við fjölskyldan bjuggum í Svíþjóð sendi amma okkur upptökur á kasettum þar sem hún talaði við okkur Valgerði systur og las upp úr bókum fyrir okkur. Í bakgrunninum heyrðist í páfagauknum hennar Indu og umgangi á heimilinu í Búðasíðu 3. Þessar kasettur voru viðstöðulaust spilaðar þau ár sem við bjuggum svo langt frá ömmu, og áfram eftir að heim var komið.

Heimsóknir til ömmu og afa á sumrin eru stór hluti af mínum æskuminningum. Ótal samverustundir í Mývatnssveit standa sérstaklega upp úr en þær einkenndust af fjöruferðum, sviss-miss bollum, ólsen-ólsen, soðnum nýveiddum silungi og sólbaði á pallinum.

Að vakna í Búðasíðunni og fá ristað brauð með osti og gúrku í morgunmat var með því besta sem ég vissi. Krakkarnir úr götunni komu svo með inn til ömmu í hádeginu, þar sem við grilluðum bestu samlokur í heimi. Vinir mínir kölluðu hana líka Díu ömmu en börn voru einstaklega hrifin af ömmu. Ég held að það hafi mikið að gera með húmorinn og prakkarastrikin hennar en einnig áhugann sem hún sýndi þeim. Hún var forvitin um hvert og eitt þeirra, vildi vita hverra manna þau væru og spjallaði við okkur eins og jafningja. Fram á síðasta dag spurði hún fregna af þeim.

Þegar við fluttum til Akureyrar bjuggum við í næsta nágrenni við ömmu og afa svo við Sóley systir fórum til þeirra oft í viku. Gistinæturnar í Búðasíðu voru ófáar og þá var dekrað við mann, en fyrstu árin eftir fráfall Valgerðar systur átti ég erfitt með svefn. Þá vakti amma með mér, oft langt fram á nótt, gaf mér nætursnarl, sagði mér sögur og strauk á mér bakið. 

Á Öskudaginn keyrði amma okkur vinkonurnar um bæinn. Ekki var hægt að hugsa sér skemmtilegri bílstjóra en okkur fannst ekki síður gaman að sitja í bílnum með ömmu en að fara í fyrirtæki að syngja. Ég gleymi aldrei hlátrasköllunum í okkur stelpunum þegar maður svínaði fyrir ömmu, hún skrúfaði niður rúðuna og kallaði „Karlrembusvín!“. 

Sundferðir með ömmu og afa eru óteljandi. Amma lét það ekki stoppa sig þó hún hefði fengið stóma, heldur tókst á við það og hélt áfram að fara í sund oft í viku. Hún var ofboðslega vandvirk í einu og öllu og það átti einnig við þegar hún bar á sig krem eftir sundið. Það gat tekið óratíma og barnabörnin voru oft fengin til að bera á bakið á henni. Jafnvel prakkarastrikin voru vönduð. Eitt sinn fór ég í sund á Þelamörk með vinkonu minni. Óvænt (en þó ekkert sérstaklega) hittum við ömmu og afa ofan í lauginni. Amma var greinilega í stuði en þau fóru svo, aldrei þessu vant, upp úr á undan okkur. Þegar við fórum svo upp úr voru fötin mín umvafin lengjum af handþurrkum með fjöldanum öllum af slaufum og dúllum. Vinkona mín var alveg gáttuð en mér var ljóst að hér hafði amma verið að verki. Hinsvegar sá ég að brjóstahaldarinn hennar hékk enn þá á snaganum hennar. Það kom á daginn að hún hafði vandað sig svo mikið að hún fór heim brjóstahaldaralaus.

Elsku Día amma. Nú færum við upptökurnar af kassettunum yfir á stafrænt form og spilum þær áfram fyrir Valgerði litlu.

Oddný Brattberg Gunnarsdóttir

Þórdís Þorleifsdóttir

Lilja Þorsteinsdóttir skrifar
25. nóvember 2025 | kl. 08:00

Þórdís Þorleifsdóttir – lífshlaupið

25. nóvember 2025 | kl. 06:00

Þórdís Þorleifsdóttir

Sóley Brattberg Gunnarsdóttir skrifar
25. nóvember 2025 | kl. 06:00

Anna Jónsdóttir

Kristín Sveinbjörnsdóttir skrifar
20. október 2025 | kl. 18:00

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hulda Einarsdóttir skrifar
08. október 2025 | kl. 06:00

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Helga Björg Jónasardóttir skrifar
05. október 2025 | kl. 12:00