Fara í efni
Minningargreinar

Tryggvi Ingimarsson

Kveðja frá áhöfninni á Húna II

Í dag stöndum við Húnamenn hnípnir og í huga okkar er söknuður og sorg. Höfðingi úr einvalaliði Húna II er fallinn frá.

Í dag, þriðjudaginn 9. desember fer fram frá Akureyrarkirkju útför Hallgríms Tryggva Ingimarssonar okkar kæra vinar og félaga. Hann var fæddur 6. janúar 1937 og lést 17. nóvember 2025.

Tryggvi hefur verið í áhöfn Húna í mörg ár og sannarlega hefur hann markað spor í þann ágæta félagsskap, það gerði hann á svo margan hátt því manngerðin sem hann hafði að geyma var svo uppfull af kostum sem hverjum félagsskap er heiður að hafa innan sinna raða og nægir þar að nefna glaðværðina, gáskann, hlýleikann, vináttuna og síðast en ekki síst þá einstöku snyrtimennsku sem Tryggvi smitaði út í hópinn og það er alveg ljóst að sú umgengni og snyrtimennska sem við höfum tileinkað okkur um bátinn Húna er fengin úr ranni Tryggva.

Tryggvi var reynslumikill sjómaður enda var sjómennska hans lífsstarf alla tíð, bæði á minni sem stærri bátum og skipum og það var einstaklega gaman að hlusta á frásagnir Tryggva frá hinum ýmsu tímabilum til sjós hjá honum.

Aldrei heyrðist Tryggvi halla máli til nokkurns manns, allir menn sem hann var til sjós með voru góðir, og það einmitt var hans lífsmottó, allir menn eru góðir og þannig kom Tryggvi fram við alla.

Í skólasiglingum Húna hvert haust með krakkana var Tryggvi í essinu sínu og það var dásamlegt að horfa á hann leiðbeina krökkunum og alltaf með þessari einstöku hlýju nærveru og börn minnast Tryggva sem góða gamla mannsins á Húna.

Tryggvi gekk í öll verk af metnaði og áhuga um borð í Húna og það var hverjum manni ljóst er þekkti að Tryggva þótti einstaklega vænt um bátinn.

Skarðið sem Tryggvi skilur eftir sig um borð í bátnum okkar verður ekki fyllt, og þótt einhversstaðar standi maður kemur í manns stað, þá var bara til einn Tryggvi Ingimarsson.

Síðasta ár hefur verið Tryggva erfitt, vissulega hjó sjúkdómurinn í hann sem hann sýndi einstaka baráttu við og ætlaði sannarlega að sigra, en ekki síður var Tryggva það erfitt að geta ekki staðið vaktina í Húna sem hann vildi, og það var áðdáunarvert að sjá, vitandi að heilsa hans var ekki góð þá reyndi hann eins lengi og stætt var að vera á vaktinni í áhöfninni á Húna. Þannig var Tryggvi.

„Sá fallegasti skal vera frammá“ sagði Bjarni Bjarnason skipstjóri oft, og þá var átt við Tryggva Ingimarsson og þar var hans staða þegar bátnum Húna var lagt var að og frá bryggju.

Nú er komið að leiðarlokum og með titrandi röddu segjum við allir í áhöfnin á Húna:

„Elsku Tryggvi Ingimarsson, takk og aftur takk.“

Í dag leggur Tryggvi Ingimarsson í sína hinstu ferð yfir sundið.

Til eyjunnar sem hann elskaði mest og best, Hríseyjar og þar fær hann að hvíla við hlið eiginkonu sinnar sem lést fyrir nokkrum árum.

Við félagar hans í áhöfninni á Húna trúum því að nú sé Tryggvi að koma HEIM.

Áhöfnin á Húna II sendir börnum Ingimars, þeim Öldu, Ingimar og Lindu sem og öllum öðrum ástvinum hans okkar innilegustu samúðarkveðjur

Hvíl í frið kæri vinur.

Blessuð sé minning Tryggva Ingimarssonar.

Þórdís Þorleifsdóttir

Lilja Þorsteinsdóttir skrifar
25. nóvember 2025 | kl. 08:00

Þórdís Þorleifsdóttir

Sóley Brattberg Gunnarsdóttir skrifar
25. nóvember 2025 | kl. 06:00

Þórdís Þorleifsdóttir – lífshlaupið

25. nóvember 2025 | kl. 06:00

Þórdís Þorleifsdóttir

Oddný Brattberg Gunnarsdóttir skrifar
25. nóvember 2025 | kl. 06:00

Anna Jónsdóttir

Kristín Sveinbjörnsdóttir skrifar
20. október 2025 | kl. 18:00

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hulda Einarsdóttir skrifar
08. október 2025 | kl. 06:00