Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Ólafsson

Við Sigurður Ólafsson (Siggi) byrjuðum að leika okkur saman við 5 ára aldurinn, þegar ég flutti með fjölskyldu minni á Syðri-Brekkuna hvar hann var í fleti fyrir. Eftir það lékum við okkur alltaf saman þegar færi gafst.

Við fylgdumst að alla skólagönguna upp í gegnum stúdentspróf og jafnvel lengur. Vorum oft mjög nánir og deildum vonum, væntingum og þrám. Rifumst jafnvel grimmilega um sumt, en vorum sammála um flest.

Og nú er hann Siggi minn horfinn á braut og það er sem tómið öskri í hjartanu.

Það verður að viðurkennast að við Siggi reyndum að spila ekki eftir hárfínustu reglum, vorum oftar en ekki alveg á móti. Við tókum líka oft vitlausar ákvarðanir, fórum t.d. í Eðlisfræðideild í Menntaskólanum þótt hvorugur okkar hefði hinn minnsta sans fyrir stærðfræði. Við skakklöppuðumst þó upp í gegnum stúdentspróf.

Á menntaskólaárunum gerðumst við óaðskiljanlegt „pávertríó“ ég, Siggi og Jón Laxdal, sem einnig er horfinn á braut. Við vorum heilmikil herdeild í síðu svörtu frökkunum okkar rifum kjaft og höfðum hátt, en sauðmeinlausir auðvitað. Helsta hryðjuverkið okkar var held ég þegar við vorum gripnir af löggunni við ljóðalestur í Amaroportinu um miðnæturbil eitt laugardagskvöldið. Það þótti löggunni algjörlega ótækt og skipaði okkur upp í Svörtu Maríu og skutlaði okkur í ofboði upp á brekku og henti okkur út með því fororði að við skyldum ekki láta sjá okkur aftur í miðbænum.

Ekki löngu eftir stúdentprófið flutti Siggi til náms til Árósa í Danmörku og ílengdist þar lengi. Um tíma vorum við samskipa í Árósum en ég flutti mig síðar til Kaupmannahafnar. En þó við Siggi byggjum lengst af fjarri hvor öðru héldum við alltaf góðu sambandi. Ég tók reglulega Kalundborgarferjuna yfir til Árósa og við áttum saman margar góðar stundir skröfuðum mikið og innilega, án þess að reyna um of að leysa lífsgátuna. Einnig skrifuðumst við á og vorum oft djúpir.

Þegar Siggi flutti loks til Íslands aftur fór hann að kenna á Húsavík. Þegar ég heimsótti Húsavík fórum við Siggi iðulega í langa bíltúra um nágrenni bæjarins og röbbuðum saman sem aldregi fyrr um bardús okkar og vonir, en tókum iðulega upp léttara hjal og ræddum listir og vísindi, einsog við höfðum heyrt einn góðan segja á Mokka í gamla daga. Í þessum bíltúrum komumst við líka að því, að víða er fallegt í nágrenni Húsavíkur.

Siggi átti það til að vera býsna skemmtilega kaldhæðinn, til dæmis sagði hann við mig mjög glottuleitur þegar ég loksins festi ráð mitt, að það væri nú ábyrgðarleysi af mér að flytja að heiman fyrir fimmtugt. En hann átti líka tilfinningalega einlægni til. Þegar Fróðný mín dó bjuggu hann og Klara í Berlín og Siggi hringdi til mín alveg eyðilagður og við grétum saman yfir hafið.

Og nú græt ég þig elsku góði vinur, en minningin um allt okkar sýsl og basl mun lifa með mér.

Elsku Klara, Mira, Kim, Matthildur, Halldóra, Hanne og fjölskyldur ég samhryggist ykkur af öllu hjarta og græt með ykkur góðan mann.

Kristján Pétur Sigurðsson

Sigurður Ólafsson

Þröstur Ásmundsson og Aðalheiður Steingrímsdóttir skrifa
18. desember 2025 | kl. 10:00

Tryggvi Ingimarsson

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
09. desember 2025 | kl. 06:00

Þórdís Þorleifsdóttir

Lilja Þorsteinsdóttir skrifar
25. nóvember 2025 | kl. 08:00

Þórdís Þorleifsdóttir – lífshlaupið

25. nóvember 2025 | kl. 06:00

Þórdís Þorleifsdóttir

Sóley Brattberg Gunnarsdóttir skrifar
25. nóvember 2025 | kl. 06:00

Þórdís Þorleifsdóttir

Oddný Brattberg Gunnarsdóttir skrifar
25. nóvember 2025 | kl. 06:00