Þórdís Þorleifsdóttir
Við Día amma höfum alltaf verið nánar og miklar vinkonur. Ég ólst upp í Reykjavík en var svo heppin að fá að eyða stórum hluta hvers sumars frá því ég var 4 ára gömul hjá ömmu og afa á Akureyri þar sem öll börnin í hverfinu kölluðu hana ömmu. Ég áttaði mig því snemma á því hversu stór hluti af nærsamfélaginu hún var.
Hún var snillingur í að fá barnabörnin með sér í hversdagsleg verkefni eins og að hengja upp þvottinn, hjálpa til í garðinum og fleira. Alltaf tókst henni að gera stundirnar skemmtilegar og spennandi. Það var gaman að hjálpa og hún hafði alltaf tíma fyrir okkur. Henni tókst að gera leiki og ævintýri úr ótrúlegustu hlutum.
Ég hef aldrei kynnst neinum sem vökvar blómin sín af jafnmiklum kærleika og ást og amma. Hún talaði við blómin sín þegar hún vökvaði og tók sér mjög góðan tíma fyrir hvert einstaka blóm. Ekki mátti gleyma sumarblómunum og blómunum í garðinum, hvert einasta blóm fékk sömu athyglina, og skilaði það sér í einsaklega fallegum garði.
Ein fallegasta gjöf sem amma gaf mér þegar ég var lítil stelpa var kassetta sem hún las inn á. Á bókasafninu valdi hún bækur, settist svo við eldhúsborðið með kaffibollann, las bækurnar og tók upp. Afraksturinn var sendur suður og það var dásamlegt að vera í Reykjavík og heyra ömmu lesa, taka smók af sígó og fá sér kaffisopa inn á milli bókakafla.
Amma fékk afa til að aðstoða sig við ansi margt. Ég er nokkuð viss um að enginn eiginmaður hafi litað augnhárin konu sinnar jafn oft og afi gerði fyrir ömmu. Ef við krakkarnir vorum í heimsókn þegar þetta var í gangi fengum við það hlutverk að leiða hana inn á bað þegar tíminn var búinn svo hún gæti þurrkað litinn af. Þetta var spennandi verkefni.
Þegar ég var 16 ára flutti ég heim til ömmu og afa og bjó þar á meðan ég var í MA. Það gaman að vera unglingur hjá þeim. Amma hugsaði vel um vinkonur mínar, eldaði morgunmat þegar við vorum slappar eftir djammið, leyfði vinum að sunnan að koma í heimsókn heilu helgarnar og gista, heimsóknir voru sjálfsagaðar, hvort sem það var til að græja sig fyrir ball eða hvíla sig í rólegu umhverfi. Hún eldaði svo alltaf extra góðan mat þegar prófin voru í gangi. Hún var þannig amma allra vinkvenna minna.
Amma var mjög stríðin og skemmtileg. Hún var alltaf til í fjör og fíflgang. Það þurfti lítið til að hún stykki fram á gólf og tæki dansspor, væri með í boltaleik eða jafn vel hoppaði á trampólíni Ef það var eitthvað fjör þá var hún fyrst mætt á svæðið. Henni þótt líka einstaklega gaman að spila og helstu minningar í seinni tíð snúa að Ólsen Ólsen eða Veiðimanni við eldhúsborðið, með miklum hlátri og fíflagangi.
Amma kenndi mér bænir snemma og alltaf var farið með þær fyrir svefninn. Síðan átti ég að liggja bein og hún signdi yfir mig. Eftir það mátti ég alls ekki hreyfa mig því þá myndi krossinn skemmast, það var því ekki annað í boði en að liggja þráðbein og gafkyrr.
Nú ert þú búin að fá hvíldina elsku amma mín, þá langar mig að endingu að fá að signa yfir þig og segi í nafni Guðs föðurs, sonar og heilags anda.
Amen,
Þín Lilja
Þórdís Þorleifsdóttir
Þórdís Þorleifsdóttir
Anna Jónsdóttir
Hallfríður Lilja Einarsdóttir