Þórdís Þorleifsdóttir
Þegar ég hugsa um Díu ömmu þá verður mér hugsað ótal góðra minninga í Búðasíðu 3, þar á meðal koma strax upp í hugann blómin hennar ömmu. Lúpínurnar í beðinu fyrir aftan bílskúrsgrunninn, tóbakshornin sem hanga í veggpottum á sumrin, bláklukkan sem amma lét tattúera á herðablaðið á 79 ára afmælinu í fylgd með okkur Oddu systur. Ég get séð fyrir mér röðina í blómabeðinu fyrir neðan eldhúsgluggann: lítil hvít blóm með grágrænum blöðum, steinbrjóturinn og helluhnoðrinn og vinstra megin við aðalinnganginn er kattartungan.
Amma hugsaði vel um öll blómin sín og vökvaði þau og snyrti af mikilli alúð, en kattartungan var í sérstöku uppáhaldi. Á hverju vori beið amma þess með eftirvæntingu að hún færi að blómstra, langt á undan öllum hinum blómunum í beðinu. Þegar ég bjó ennþá á Akureyri bárust mér þessar fregnir þegar ég kíkti í heimsókn en eftir að ég flutti að heiman færði hún mér fréttirnar símleiðis um leið og fyrstu blómknapparnir birtust. Mínar allra kærustu minningar um ömmu tengjast þessum notalegu rútínum. Fregnirnar af kattartungunni, að fara út og skoða fyrstu blómin, umpottanir á veröndinni sem gátu tekið heilu dagana, með miklu spjalli og löngum stundum í sólbaði.
Ég gisti oft í Búðasíðunni og það var alltaf jafn notalegt, en best af öllu var þegar frændsystkini mín gistu líka, Dagur, Dagmar og Þórdís Erla. Þá var mikið um að vera, enginn háttatími heldur spil, fíflagangur og leikir langt fram á kvöld, og oftar en ekki ís með súkkulaðisósu á miðnætti.
Síðast þegar ég heimsótti ömmu og afa í Búðasíðunni þá var helsta mál á dagskrá að hreinsa beðin. Amma hafði ekki heilsu í að taka þátt en við afi fórum út og amma fylgdist með út um gluggann og skipaði fyrir verkum. Sjónin var farin að daprast og ég efast um að hún hafi séð illgresið, en það skipti litlu máli, verklagið var það sama.
Amma kenndi mér margt, ekki bara um blómin heldur líka um lífið, og minningin um hana lifir með mér.
Sóley Brattberg Gunnarsdóttir
Þórdís Þorleifsdóttir – lífshlaupið
Þórdís Þorleifsdóttir
Anna Jónsdóttir
Hallfríður Lilja Einarsdóttir